Hoppa yfir valmynd
23. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun sýslumannsins í Keflavík

[…]
[…]
[…]
[…]

Reykjavík 23. október 2012
Tilv.: FJR12090443/16.2.3

Efni: Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar sýslumannsins í Keflavík.

Ráðuneytið vísar til bréfs dags. 5. september 2012, þar sem kærð er ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um innheimtu á stimpilgjaldi að fjárhæð kr. 192.000 vegna útgáfu endurbótaláns frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð kr. 12.804.000. Þess er krafist að stimpilgjaldið verði fellt niður með vísan til 13. og 35. a. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald.

Málavextir
Í kærunni kemur fram að kærandi keypti íbúð að [X] í [Y] þann 1. júní 2012. Um er að ræða fyrstu fasteign kæranda. Kaupverð íbúðarinnar var kr. 9.500.000 en fyrirliggjandi fasteignamat var kr. 19.300.000. Ástæða þess að kaupverðið var lægra en fasteignamatið var lélegt ástand íbúðarinnar sem þarfnaðist verulegra endurbóta. Með kærunni fylgdi kostnaðaráætlun vegna endurbótanna staðfest af byggingarfulltrúa [Y] sem var forsenda endurbótaláns frá Íbúðalánasjóði.

Í kærunni kemur fram að tilgangur 35. a. gr. laga um stimpilgjald sé að styrkja þá sem eru að fjármagna íbúðarkaup eða íbúðarbyggingu í fyrsta sinn. Miklar endurbætur hafi þurft að gera á viðkomandi fasteign þar sem hún hafi verið óíbúðarhæf við kaupin. Sanngjarnt og eðlilegt þyki því að miða niðurfellingu stimpilgjalds við fjárhæð fasteignarmatsins. Upphaflega hafi verið tekið lán hjá [banka] að fjárhæð kr. 6.650.000, en stimpilgjaldið hafi verið fellt niður í tilviki þess skuldabréfs. Samtals hafi lánin verið að fjárhæð kr. 19.454.000. Í kærunni kemur fram að kærandi sé reiðubúin að fallast á að greiða stimpilgjald af mismuninum af þeirri upphæð og á fasteignamati eignarinnar, kr. 154.000. Réttara sé þó að miða við hámarkslán frá Íbúðalánasjóði þar sem fasteignamat á landsbyggðinni sé lægra en á höfuðborgarsvæðinu.

Forsendur og niðurstaða
Í 35. gr. a. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald segir að skuldabréf og tryggingabréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings séu stimpilfrjáls að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í greininni. Í 2. mgr. sömu greinar eru talin upp þrjú skilyrði sem uppfylla þarf til að fá niðurfellingu stimpilgjalds af slíkum bréfum. Fyrsta skilyrðið er að viðkomandi skuldari, og kaupandi hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Af gögnum málsins má ráða að það skilyrði er uppfyllt. Í öðru lagi er gert að skilyrði að skuldari, og kaupandi skuli vera þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi húsnæðis. Það skilyrði er einnig uppfyllt af hálfu kæranda. Í þriðja skilyrði greinarinnar er kveðið á um að sú lánsfjárhæð sem fram komi í hinu stimpilfrjálsa skjali skuli einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign. Í greinagerð með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 59/2008, segir að skilyrðið sé sett til þess að tryggja að inn í lántökunni séu ekki aðrir þættir sem renna ekki beint til fjármögnunar viðkomandi fasteignakaupa t.d. lán til bílakaupa. Í greinagerðinni segir ennfremur: „Frumvarpið snýr sem áður segir einvörðungu að lántöku vegna kaupa á fyrstu fasteign og því ber að tryggja að inn í þeirri lántöku séu ekki aðrir þættir sem renna ekki beint til fjármögnunar viðkomandi fasteignakaupa, t.d. lán til bílakaupa. Að öðrum kosti væri hætta á því að þessi sérstaka stuðningsaðgerð til að auðvelda fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði yrði misnotuð. Með þessu skilyrði er því átt við að niðurfelling stimpilgjalds geti aldrei tekið til hærri fjárhæðar en nemur kaupverði fasteignarinnar.“Í sömu greinagerð segir ennfremur: „Skilyrði frumvarpsins er að hið stimpilfrjálsa skjal sé gefið út til fjármögnunar tiltekinna fasteignakaupa sem eiga sér stað á sama tíma og hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út, þ.e. að beint samhengi sé milli þessara skjala. Að öðrum kosti væri opnað fyrir það að lántaka vegna breytinga og endurbóta á fasteignum væri undanþegin stimpilgjaldi.“

Eins og fram kemur í greinagerð með frumvarpi að lögum nr. 58/2008, um breytingu á lögum nr. 36/1978, er tilgangur ákvæðisins fyrst og fremst að fella niður stimpilgjöld af fasteignaveðskuldabréfum sem gefin eru út til kaupa á fyrstu fasteign einstaklinga. Ákvæðið er undanþáguákvæði frá þeirri meginreglu að greiða beri 0,4% stimpilgjald af fasteignaveðskuldabréfum og ber því samkvæmt almennum lögskýringareglum að túlka ákvæðið þröngt. Lán var tekið vegna kaupa kæranda á fasteigninni [X] í [Y] og stimpilgjald fellt niður af því samkvæmt 35. gr. a laga nr. 36/1978. Í þessu tilviki er um að ræða lán til endurbóta á fasteigninni eins og fram kemur í heiti lánsins. Í greinargerð með ákvæði 35. gr. a. kemur skýrt fram að af hálfu löggjafans var ætlunin sú að stimpilgjald yrði ekki fellt niður af endurbótaláni. Samkvæmt því telur ráðuneytið að greiða beri stimpilgjald af útgáfu skuldabréfsins frá Íbúðalánasjóði.

Úrskurðarorð
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um innheimtu stimpilgjalds að fjárhæð kr. 192.000 vegna útgáfu skuldabréfs Íbúðalánasjóðs til endurbóta á fasteign að [X] í [Y].




Fyrir hönd ráðherra


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum