Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 735/2023 Úrskurður

 

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 735/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23070128 og KNU23070131

 

Kæra […] og […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. júlí 2023 kærðu […], fd. […] (hér eftir K), og […], fd. […] (hér eftir M), ríkisborgarar Venesúela, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 30. júní 2023, um að synja þeim um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Hinn 30. júní 2023 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar sendar talsmanni kærenda með rafrænum hætti.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kærunefnd barst kæra á ákvörðun M 25. júlí 2023 og kæra á ákvörðun K 26. júlí 2023 en ljóst er að kærufresturinn, sem var til 15. júlí 2023, var þá liðinn.

Í athugasemdum með kæru kærenda kemur fram að talsmaður sjálfur beri alfarið ábyrgð á þeim mistökum að hafa ekki kært innan frests. Um sé að ræða óafsakanleg mannleg mistök, en talsmanni hafi einfaldlega láðst að setja málið í áminningarkerfi hjá sér. Kærendur hefðu frá upphafi viljað kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar og verið ómeðvituð um annað en að svo hefði verið gert. Líf og heilsa kærenda sé í húfi og verði það að teljast veigamiklar ástæður að láta ekki mannleg mistök talsmanns koma í veg fyrir tækifæri þeirra til að nýta sér lögbundið úrræði. Talsmaður muni ekki þiggja laun vegna kærunnar og sé tilbúinn að taka öðrum afleiðingum þessara mistaka. Umsækjendur eigi ekki að líða fyrir mistök talsmanns.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

II. Niðurstaða

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru sem fyrr segir sendar talsmanni kærenda með rafrænum hætti, í gegnum Signet transfer, 30. júní 2023. Voru ákvarðanirnar því sannanlega birtar kærendum þann dag, sbr. 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærendur skyldu beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kærendum voru veittar í ákvörðunum Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt. 

Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Samkvæmt þessu var fyrsti dagur kærufrests í málum kærenda 1. júlí 2023 og var síðasti dagur 15 daga frestsins 15. júlí 2023. Var kærufrestur því liðinn er kærur bárust kærunefnd útlendingamála 25. og 26. júlí 2023. Ljóst er að talsmaður kærenda var meðvitaður um að kærufrestur væri 15 dagar frá birtingu ákvarðananna. Honum hafi hins vegar láðst að setja það í áminningarkerfi sitt og því hafi það gleymst. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, þ.m.t. ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málanna að um slík fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kærenda eða almannahagsmunir krefjist þess að málin verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 42. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum lagt til grundvallar að aðstæður í heimaríki kærenda hafi farið batnandi að undanförnu og talið endursendingu þangað tæka í tilvikum líkt og í máli kærenda. Þá verður ekki séð að ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun. 

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

 

Kæru kærenda á ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicants‘ appeal of the decisions of the Directorate of Immigration is dismissed. 

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir Sindri M. Stephensen

 

  

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta