Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Málflutningi Lyfjafræðingafélags Íslands mótmælt

Fréttatilkynning nr. 10/2004

Vegna fullyrðingar Lyfjafræðingafélags Íslands um að sparnaðaraðgerðir ráðuneytisins í lyfjamálum stangist á við lög og þvingi fólk í heilbrigðiskerfinu til að taka upp vinnubrögð sem tíðkist í þróunarríkjum vill heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið koma eftirfarandi atriðum á framfæri. Hér er um misskilning að ræða hjá félaginu því í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að heilbrigðisráðuneytið grípi til þeirra sparnaðaraðgerða sem kynntar hafa verið. Þá er rétt að benda á að viðmiðunarverð fyrir jafngild lyf sem almannatryggingar miða niðurgreiðslur sínar við þekkist helst í þróuðum löndum á borð við Ástralíu, Holland, Nýja-Sjáland og Þýskaland en ekki í þróunarlöndunum þar sem almannatryggingar og niðurgreiðslur til lyfja skortir víðast hvar.

Vegna fullyrðinga um að ellilífeyrisþegar og sjúklingar verði illa úti við þessar breytingar skal tekið fram að framkvæmdin veltur á faglegum vinnubrögðum lækna og lyfjafræðinga.

Í þremur lyfjaflokkum hafa verið flokkuð saman sambærileg lyf sem í völdum styrkleikum teljast jafngild að teknu tilliti til verkunar, aukaverkana og milliverkana. Efnafræðilega eru þessi lyf mismunandi en skyld og tilheyra sama verkunarflokki. Form lyfjana og skilgreindir dagskammtar eru þeir sömu eða sambærilegir. Hér er því ekki um að ræða að einstök lyf séu “betri” eða “verri” þó að verð þeirra sé mismunandi.

 

Við val á þeim þremur lyfjaflokkum sem nú fá viðmiðunarverð jafngildra lyfja hafa ráðuneytið og Tryggingastofnun í samráði við Landlæknisembættið og Lyfjastofnun stuðst við tillögur analog-nefndarinnar svo kölluðu sem skilaði nefndarálit í júní 2001 en auk þess er byggt á faglegri vinnu dönsku lyfjastofnunarinnar.  Það er því rangt að gefa til kynna að hér sé um illa undirbúna og vanhugsaða aðgerð að ræða. Þvert á móti á hún sér langan aðdraganda og er vel ígrunduð.

 

Hvort og hve mikið kostnaður sjúklinga eykst vegna þessara breytinga ræðst m.a. af því hvort og í hve miklum mæli læknar sem ávísað hafa dýrari lyfjum breyta til og ávísa ódýrari lyfjum. Einnig er líklegt að aukin samkeppni milli lyfja innan hvers viðmiðunarverðflokks leiði til verðlækkunar þeirra. 

 

Flestir sjúklingar geta auðveldlega notað hvaða lyf sem er af þeim lyfjum sem flokkuð eru saman með sömu meðferðaráhrif. Í undantekningartilfellum kann að vera að einstaka sjúklingur eigi af læknisfræðilegum ástæðum erfitt með að nota einstök lyf, t.d. sökum ofnæmis. Í slíkum tilfellum getur læknir viðkomandi sjúklings sótt um undanþágu frá viðmiðunarverði með læknisfræðilegum rökstuðningi.

 

Allir sjúklingar eiga því kost á jafngóðri meðferð og áður og sömu niðurgreiðslum. Eini munurinn er sá að ef valin eru dýrari lyf verður viðkomandi læknir að færa læknisfræðileg rök fyrir aukinni greiðsluþátttöku almannatrygginga umfram viðmiðunarverð.

 

Tilgangur þess að taka upp viðmiðunarverð lyfja með sambærileg klínísk meðferðaráhrif er sá sami og hafður var að leiðarljósi þegar tekið var upp viðmiðunarverð samheitalyfja en það er að stemma stigu við kostnaðarhækkun með því að beina notkun að ódýrari kostum þegar völ er á jafngildum lyfjum á mismunandi verðum.

 

Nánari upplýsingar veitir Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í síma 892 8835 eða 545 8708.

 

Heilbrigðis- og tryggignamálaráðuneytið
19. apríl 2004

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum