Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Opnað fyrir umsóknir um styrki í verkefninu Ísland ljóstengt

Fjarskiptasjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki í átaksverkefninu Ísland ljóstengt fyrir árið 2019. Átaksverkefnið er eitt af lykilverkefnum í byggðaáætlun stjórnvalda en markmið þess er að byggja upp ljósleiðarakerfi utan markaðssvæða í dreifbýli um allt land. Sveitarfélögum stendur nú einnig til boða að sækja um samvinnustyrk sem valkost við umsókn á grundvelli samkeppnisfyrirkomulags.

Stefnt er að undirritun síðustu samninga á grundvelli verkefnisins vorið 2020 með það fyrir augum að uppbyggingu ljúki fyrir árslok 2021. Áætlaður fjöldi styrkhæfra staða á landsvísu sem ekki hefur verið samið um í verkefninu er um 1.500. Umsóknarferli vegna ársins 2019 skiptist í A, B og C-hluta.

Upplýsingar um heildarfjárupphæð til verkefnisins árið 2019, skiptingu fjármuna milli landshluta og skyld atriði verða ekki birtar fyrr en að loknum A-hluta vegna óvissu sem ríkir um tiltekna þætti. Með þessu fyrirkomulagi verður úthlutun fjármuna markvissari nú þegar að líður á seinni hluta átaksverkefnisins Ísland ljóstengt. Óvissuþættirnir eru meðal annars:

  • Áhugi og áform sveitarfélaga sem ekki hafa nýlega borið sig eftir styrk.
  • Nákvæm áform áhugasamra sveitarfélaga.
  • Þörf sveitarfélaga fyrir aukinn fyrirsjáanleika um framlag frá ríkinu.
  • Áhugi sveitarfélaga á samvinnu um að tryggja verklok á heilu landsvæði innan tilskilins tíma.
  • Magn framkvæmda sem frestast fram á næsta ár og jafnvel lengur.

Móttöku umsóknargagna vegna A-hluta lýkur 23. nóvember 2018. Nánari upplýsingar eru í skilmálum og umsóknargögnum.

Ísland ljóstengt 2019 – skilmálar

Ísland ljóstengt 2019 – umsóknargögn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum