Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 297/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 297/2021

Fimmtudaginn 23. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. júní 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 26. ágúst 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. september 2020, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og bótaréttur reiknaður 60%. Með tölvupósti 26. janúar 2021 óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu umsóknarinnar þar sem hann hefði ekki fengið neina greiðslu frá stofnuninni. Með tölvupósti Vinnumálastofnunar, dags. 1. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt að hann hefði verið sjálfkrafa afskráður úr kerfi stofnunarinnar þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína. Með tölvupósti, dags. 7. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir tilkynningu frá Vinnumálastofnun um endanlega afgreiðslu umsóknar sinnar. Kærandi ítrekaði þá beiðni með tölvupósti 25. febrúar 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þann 7. apríl 2021 óskaði kærandi eftir rökstuðningi frá Vinnumálastofnun og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 23. apríl 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2021. Með bréfi, dags. 18. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. júlí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 27. júlí 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar 28. júlí 2021. Þann 14. september 2021 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Vinnumálastofnun og bárust þau 22. september 2021. Gögnin voru send kæranda til kynningar samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi upphaflega sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. mars 2020 og hafi umsókn hans verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur hans hafi verið 60%. Kærandi hafi svo fengið sumarvinnu og afskráð sig af atvinnuleysisskrá. Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur þann 26. ágúst 2020 þar sem tímabundinni sumarvinnu hafi verið lokið. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt með ákvörðun 17. september 2020 og útreiknaður bótaréttur hafi verið metinn 60%. Þrátt fyrir þetta hafi komið fram á síðu kæranda hjá Vinnumálastofnun að engin umsókn væri til staðar og að hann hefði farið í vinnu. Það hafi verið gamlar upplýsingar frá sumarvinnunni og kærandi hafi talið að afgreiðsla málsins væri að dragast á langinn vegna álags á Vinnumálastofnun. Kærandi hafi ekki kippt sér upp við að tíma tæki að fá greiðslur, enda hafi fyrra ferli tekið þrjá mánuð (mars til júní), atvinnuleysi hafi aukist og verkefni bæst á herðar Vinnumálastofnunar.

Á þessum tíma hafi verið umræða í fjölmiðlum um að atvinnulausir gætu farið í nám og kærandi hafi ákveðið að sækja námskeið í C í kvöldskóla hjá D til að hafa eitthvað fyrir stafni. Námskeiðið hafi verið kennt frá lokum september og fram í byrjun desember, síðdegis fjóra daga vikunnar og stundum á laugardögum. Námið hafi ekki verið lánshæft. Í kringum áramótin 2020/2021 hafi kærandi sótt um og fengið skólavist í E frá 11. janúar 2021. Kærandi hafi sent tölvupóst til Vinnumálastofnunar þann 26. janúar 2021 til þess að kanna stöðu á umsókn sinni um atvinnuleysisbætur og hafi jafnframt upplýst um að hann hafi hafið nám í E sem hann héldi að væri lánshæft hjá Menntasjóði. Þann 1. febrúar 2021 hafi borist svar frá Vinnumálastofnun þar sem fram hafi komið að kærandi væri ekki með virka umsókn í kerfinu hjá stofnuninni en hann hafi fengið samþykkta umsókn 17. mars 2020. Þar sem kærandi hafi hins vegar ekki staðfest atvinnuleit sína þá hafi hann sjálfkrafa verið afskráður úr kerfinu. Eins og komið hafi fram í tölvupósti til kæranda þann 2. september 2020 hafi verið tekið fram að það þyrfti að staðfesta atvinnuleit á milli 20. og 25. hvers mánaðar.

Kærandi hafi sent tölvupóst til Vinnumálastofnunar þann 7. febrúar 2021 til þess að svara þessum augljósa misskilningi en sá tölvupóstur virðist ekki hafa verið skráður í samskiptaskrá stofnunarinnar. Í tölvupósti kæranda hafi meðal annars komið fram að ef fyrri póstur hans hafi eitthvað misskilist þá ítreki kærandi að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í lok ágúst 2020. Tilvísun í fyrra tímabil væri því óþarft, enda hafi því verið lokið með sumarvinnu í júlí og ágúst 2020 eins og tilkynnt hafi verið til stofnunarinnar á sínum tíma. Varðandi síðari umsókn sína frá því í ágúst 2020, hafi kærandi viljað koma á framfæri að hann hafi fengið pósta frá Vinnumálastofnun, bæði 14. og 21. september 2020 þar sem fram hafi komið að umsókn hans um atvinnuleysisbætur yrði að öllum líkindum samþykkt í lok þeirrar viku og að kærandi myndi fá senda tilkynningu á „mínar síður“ og tölvupóst þegar búið væri að afgreiða umsóknina. Kærandi hafi aldrei fengið tilkynningu um þessa afgreiðslu á „mínar síður“ og aldrei tölvupóst. Þá hafi staða umsóknar hans á „mínum síðum“ ekki breyst og þar hafi aldrei opnast möguleiki á að staðfesta atvinnuleit. Atvinnuleysisbætur hafi ekki verið greiddar á tímabilinu. Kærandi hafi aldrei fengið tilkynningu um að umsókn hans hafi verið hafnað eða að samþykki fyrir atvinnuleysisbótum hafi verið fellt niður. Þá hafi kærandi aldrei fengið tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum eða leiðréttingum. Eitthvað hljóti því að hafa skolast til hjá Vinnumálastofnun sem kærandi geti varla verið gerður ábyrgur fyrir. Kærandi hafi óskað eftir því að Vinnumálastofnun myndi tilkynna honum um endanlega afgreiðslu umsóknar hans frá því í ágúst 2020 og afgreiða bætur eftir atvikum. Kærandi hafi sagst getað gefið upplýsingar um störf sem hann hafi sótt um á tímabilinu ef hann fengi leiðbeiningar um hvar hann gæti gert það. Það hafi allavega verið ljóst að kærandi hafi ekki getað gert það á „mínum síðum“ á vef Vinnumálastofnunar. Þá hafi kærandi sent fyrirspurn á D og E um hvort þau námskeið, sem kærandi hafi tekið í nóvember og desember 2020 og þau sem hann væri skráður í eftir áramót, væru metin til ECTS eininga. Samkvæmt heimasíðum skólanna væru þau það ekki. Kærandi hafi svo ætlað að senda upplýsingar um það til Vinnumálastofnunar um leið og hann fengi svör frá umræddum skólum.

Þann 25. febrúar 2021 hafi kærandi sent tölvupóst til Vinnumálastofnunar og áréttað erindi sitt um afgreiðslu og veitt þær upplýsingar sem hann hafi getað aflað um lánshæfi námsins. Sá tölvupóstur hafi heldur ekki verið skráður í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar. Í tölvupóstinum hafi kærandi meðal annars athugað hvort eitthvað hafi verið að frétta af erindi hans. Kærandi hafi einnig viljað bæta við að námsfög sem hann hafi tekið í D í nóvember og desember 2020 hafi verið með framhaldsskólaeiningum svo að þau ættu væntanlega ekki að skipta máli. Frá því í janúar 2021 hafi kærandi verið í E sem sé lánshæft nám hjá LÍN en samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu skólans sé námið ekki metið til ECTS eininga svo að kærandi viti ekki hvernig það fari saman við reglur Vinnumálastofnunar um fjölda ECTS eininga.

Af samskiptaskrá Vinnumálastofnunar virðist ljóst að handvömm hafi orðið á hjá Vinnumálastofnun, en þar komi meðal annars fram þann 15. mars 2021 að gleymst hafi að stimpla kæranda. Þá komi fram í skránni frá 17. mars 2021 að kærandi hafi verið stimplaður en stimplum svo eytt aftur.

Þar sem engin viðbrögð hafi borist frá Vinnumálastofnun við erindum kæranda hafi umboðsmaður kæranda sent tölvupóst til Vinnumálastofnunar þann 10. mars 2021 og áréttað sjónarmið kæranda frá 7. febrúar 2021. Sá póstur sé skráður í samskiptaskrá. Vinnumálastofnun virðist hafa tekið við sér eftir þennan tölvupóst og hafi kærandi fengið tölvupóst þann 17. mars 2021. Þar hafi meðal annars komið fram að erindið hafi verið sent Greiðslustofu. Jafnframt að í tölvupósti frá 2. september 2020 hefði komið fram að staðfesta þyrfti atvinnuleit á milli 20. og 25. hvers mánaðar, en engar leiðbeiningar hafi fylgt um það hvernig kærandi hafi átt að gera það, þrátt fyrir að hann hafi bent á að hann hefði ekki getað það vegna stöðu skráningar sinnar. Ekki hafi verið óskað eftir því að kærandi sendi gögn varðandi umsóknir sem hann hafi þó boðist til að senda.

Þann 31. mars 2021 hafi verið tekin ákvörðun um að synja umsókn kæranda þar sem hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laga nr. 54/2006. Þá hafi komið fram að kærandi hefði, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, verið í námi á haustönn [2020] og vorönn 2021 og þar af leiðandi ekki í virkri atvinnuleit.

Með tölvupósti, dags. 7. apríl 2021, hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi verið óskað eftir öllum gögnum málsins, sbr. 15. gr. sömu laga. Í rökstuðningi, dags. 23. apríl 2021, hafi komið fram að tölvupóstur frá kæranda, dags. 26. janúar 2021, hafi verið túlkaður sem beiðni um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta. Vísað hafi verið til 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um að atvinnuleitandi skyldi hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Jafnframt hafi verið vísað til 14. gr. laganna um virka atvinnuleit og 52. gr. laganna um nám. Ekki hafi hins vegar verið vikið að málsatvikum eða sjónarmiðum kæranda. Þá hafi verið tekið fram að ekki væri séð að mistök Vinnumálastofnunar eða óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að kærandi staðfesti ekki atvinnuleit, án frekari útskýringa eða afstöðu til vísbendinga um handvömm, sbr. áðurnefndar skráningar í samskiptaskrá frá 15. mars og 17. mars 2021.

Að síðustu skuli þess getið að frá 26. ágúst 2020 hafi kærandi sótt um nokkurn fjölda starfa sem hann hafi séð og talið sig eiga möguleika á að fá. Í ágúst 2020 hafi hann sótt um tvö tiltekin störf, í september 2020 um fimm tiltekin störf, í desember 2020 um þrjú tiltekin störf, í febrúar 2021 um þrjú tiltekin sumarstörf og í mars 2021 um eitt tiltekið sumarstarf. Þessar umsóknir hafi skilað því að kærandi hafi fengið atvinnuboð um sumarstarf og hann hafi hafið störf 20. maí 2021.

Kærandi mótmæli afturköllun og synjun Vinnumálastofnunar vegna tímabilsins 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021. Fyrir það fyrsta telji kærandi að niðurstaðan sé byggð á misskilningi/misskráningu og að ekki hafi verið horft til sjónarmiða og útskýringa hans. Í öðru lagi telji kærandi að niðurstaða Vinnumálastofnunar sé efnislega röng. Í þriðja lagi telji kærandi að stjórnsýslu Vinnumálastofnunar hafi verið ábótavant. Þannig hafi í máli hans til dæmis ekki verið gætt að fullnægjandi rannsókn, veitingu andmælaréttar, meðalhófi, leiðbeiningarskyldu og málshraða. Í því sambandi skuli tekið fram að réttaröryggisreglur stjórnsýsluréttarins hafi þann tilgang að stuðla að því að mál séu sem best upplýst og ákvarðanir stjórnvalda séu löglegar og réttar þannig að réttindi borgaranna verði ekki skert og gengið á hagsmuni þeirra.

Kærandi byggir á því að á framangreindu tímabili hafi hann sannanlega verið atvinnulaus og reynt að sækja um ýmis störf. Þá telji kærandi að kvöldskóli D um rúmlega tveggja mánaða skeið geti ekki flokkast undir nám samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/2006. Í því efni skuli bent á að kærandi hafi ákveðið að sækja kvöldskólann frekar en að hafa ekkert að gera. Ekki hafi verið um að ræða nám sem hafi staðið yfir í sex mánuði, sbr. hugtaksskilyrði 3. gr. laganna, heldur rúma tvo mánuði. Þannig hafi kærandi uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 til greiðslu atvinnuleysisbóta á umræddu tímabili, eins og réttilega liggi fyrir samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. september 2020 um rétt hans til atvinnuleysisbóta.

Þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um þessi réttindi kæranda hafi honum aldrei borist greiðsla bóta. Hann hafi ekki verið rétt skráður í kerfi Vinnumálastofnunar og hafi því ekki getað átt samskipti, svo sem að senda upplýsingar um atvinnuleit. Skuli hér meðal annars vísað til samskipta innan Vinnumálastofnunar um að „gleymst hafi að stimpla“ kæranda.

Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til greiðslu atvinnuleysisbóta eftir að hafa verið tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. september 2020. Hann eigi ekki að þurfa að líða fyrir ágalla í vinnubrögðum Vinnumálastofnunar og að hafa sýnt þolinmæði og enn síður fyrir að hafa reynt að verja tíma sínum með uppbyggilegum hætti. Með afstöðu Vinnumálastofnunar sé verið að refsa kæranda fyrir að leitast við að hafa eitthvað fyrir stafni sem styrki hann á vinnumarkaði frekar en að hanga aðgerðarlaus. Það séu afleit skilaboð til atvinnulausra.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, hafi í raun verið tekin ákvörðun um að afturkalla ákvörðun um samþykki á umsókn kæranda frá 17. september 2020. Í því efni skuli hafa í huga að afturköllun sé sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun. Til þess þurfi efnisskilyrði til afturköllunar að vera uppfyllt, annaðhvort samkvæmt IX. kafla laga nr. 54/2006 eða 25. gr. stjórnsýslulaga. Þá beri að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við töku slíkrar ákvörðunar, auk annarra meginreglna stjórnsýsluréttarins, svo sem um réttmætar væntingar.

Kærandi byggi á því að ekki hafi verið skilyrði til afturköllunar á ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi tímabilið 26. ágúst [2020] til 11. janúar [2021] eins og áður hafi verið fjallað um. Til viðbótar hafi Vinnumálastofnun brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar með afturkölluninni og þeirri synjun atvinnuleysisbóta sem hafi falist í ákvörðun stofnunarinnar.

Í andmælarétti felist að aðili máls eigi rétt til þess að setja fram sjónarmið sín áður en stjórnvald komist að niðurstöðu. Andmælaréttur takmarkist ekki við atvik máls heldur feli einnig í sér rétt til að tjá sig um lagasjónarmið og upplýsingar um matskennd atriði. Fyrir liggi að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að setja fram sjónarmið sín áður en Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um að afturkalla fyrri ákvörðun og synja honum um greiðslur atvinnuleysisbóta. Kærandi byggi á því að Vinnumálastofnun hafi verið óheimilt að afturkalla ákvörðun um samþykki umsóknar hans, dags. 17. september 2020, og synja honum um atvinnuleysisbætur, án þess að leita eftir sjónarmiðum hans og gefa honum tækifæri til þess að kynna sér gögn málsins. Brot gegn andmælareglunni sé sérstaklega alvarlegt í því ljósi að afturköllun á ákvörðun um atvinnuleysisbætur sé íþyngjandi ákvörðun sem varði ívilnandi ákvörðun um framfærslustuðning sem meðal annars eigi rætur í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig hafi verið tekin ákvörðun sem kæranda hafi verið tilkynnt um og hann hafi getað byggt réttmætar væntingar á og hafi að auki varðað fjárhagslega hagsmuni hans.

Í rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar felist meðal annars að stjórnvald verði að sjá til þess að mál séu nægilega upplýst áður en komist sé að niðurstöðu. Í því felist meðal annars að við rannsókn máls verði að afla fullnægjandi gagna með tilliti til málsatvika tiltekins máls og réttarheimilda sem um ræði. Jafnframt leiði af rannsóknarreglunni að stjórnvöld verði að taka tillit og afstöðu til gagna sem liggi fyrir í viðkomandi stjórnsýslumáli. Eftir því sem ákvörðun sé meira íþyngjandi þeim mun meiri kröfur verði að gera til stjórnvalda um vönduð vinnubrögð að þessu leyti. Kærandi byggi á því að Vinnumálstofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglunni við meðferð máls hans. Þannig hafi ekki verið leitað eftir sjónarmiðum og upplýsingum frá kæranda áður en ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin. Þá hafi við afgreiðslu Vinnumálastofnunar verið litið fram hjá upplýsingum kæranda um að staða hans hafi aldrei breyst og hann hafi ekki getað staðfest atvinnuleit, enda virðist tölvupóstur með upplýsingum þess efnis ekki vera skráður í gögn málsins. Þá hafi kæranda ekki verið leiðbeint um það hvernig koma mætti gögnum á framfæri, eins og hann hafi óskað eftir í tölvupósti þann 7. febrúar 2021, sem bæði brjóti gegn rannsóknarreglu og leiðbeiningarskyldu Vinnumálastofnunar. Þá virðist Vinnumálastofnun ekki hafa metið hvort rúmlega tveggja mánaða ástundun kvöldskóla D hafi getað fallið undir nám samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/2006, eða kallað eftir sjónarmiðum eða upplýsingum í því sambandi. Kærandi telji að þannig hafi Vinnumálastofnun ekki aflað fullnægjandi gagna til þess að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um alvarlegan ágalla sé að ræða þar sem ákvörðunin hafi verið verulega íþyngjandi.

Kærandi byggi einnig á því að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Í því sambandi skuli bent á að stjórnvöldum beri að gæta varfærni og ganga ekki lengra en nauðsyn krefji í hverju tilviki. Þá sé stjórnvöldum skylt að líta ekki eingöngu til markmiðs starfs heldur einnig til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Í máli þessi liggi fyrir að kærandi hafi verið án vinnu, sótt um störf og sótt kvöldnámskeið um tveggja mánaða skeið sem hefði varla haldið honum frá vinnu, hefði hún boðist. Þá virðist skráning á samþykki umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, dags. 17. september 2020, hafa misfarist hjá Vinnumálastofnun og röng staða verið skráð sem hafi valdið misskilningi um stöðu mála. Við slíkar aðstæður samræmist það með engu móti meðalhófi að afturkalla samþykki fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta og það án þess að leita eftir sjónarmiðum þess sem í hlut eigi. Enn síður samræmist það meðalhófi að afturkalla samþykki fyrir allt tímabilið frá 26. ágúst 2020 þegar til dæmis kvöldskólinn hafi ekki hafist fyrr en um 28. september 2020 og hafi lokið fyrri hluta desember sama ár. Það hafi verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda að hafa ekki notið greiðslu atvinnuleysisbóta á umræddu tímabili. 

Af gögnum Vinnumálastofnunar sé ljóst að mistök hafi átt sér stað hjá stofnuninni og stjórnsýsluhættir ekki vandaðir. Þannig hafi verið misfarið með umsókn kæranda frá 26. ágúst 2020 eftir að Vinnumálastofnun hafi samþykkt hana þann 17. september 2020. Þetta megi til dæmis ráða af svari í tölvupósti Vinnumálastofnunar frá 1. febrúar 2020 þar sem eingöngu sé vísað til umsóknar frá 17. mars 2020. Þá komi fram af samskiptum innan Vinnumálastofnunar frá mars 2021 að „gleymst hafi að stimpla“ kæranda. Afleiðing þessa hafi verið sú að kærandi hafi ekki getað skráð upplýsingar, svo sem um atvinnuleit. Þá virðast tölvupóstar frá kæranda, dags. 7. febrúar og 25. febrúar 2021, ekki hafa verið skráðir í kerfi Vinnumálastofnunar, auk þess sem þeim hafi ekki verið svarað eða tekið tillit til þeirra við afgreiðslu málsins. Að síðustu verði að telja að meðferð Vinnumálstofnunar á málinu hafi brotið gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttarins.

Með vísan til framangreinds krefjist kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. mars [2021] um afturköllun á samþykki umsóknar kæranda frá 17. september 2020 og höfnun á greiðslu atvinnuleysisbóta og að kæranda verði ákvarðaðar atvinnuleysisbætur frá 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er tekið fram að stofnunin hafi ekki dregið í efa að hann hafi verið atvinnulaus 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021. Þá sé ekki dregið í efa að kærandi hafi sótt um töluverðan fjölda starfa. Jafnframt sé í afstöðu Vinnumálastofnunar ekki gerðar athugasemdir við það sjónarmið kæranda að kvöldnámskeið það sem hann hafi sótt hjá D um tveggja mánaða skeið geti ekki flokkast undir nám samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/2006. Af framangreindu leiðir að ekki sé deilt um það að kærandi hafi átt efnislegan rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt 76. gr. stjórnarskrár og lögum nr. 54/2006. Þá sé ekki dregið í efa að kærandi hafi í raun verið virkur í atvinnuleit, þ.e. sótt um ýmis störf.

Af afstöðu Vinnumálastofnunar sé ljóst að synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda byggi eingöngu á því að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. til 25. september 2020 og því verið afskráður 5. október 2020. Þá telji stofnunin ekki „réttlætanlegt“ að hann hafi ekki haft samband til að grennslast fyrir um stöðu umsóknar og greiðslna fyrr en í janúar 2021. Framangreint standist hvorki laga- né sanngirnisrök.

Í fyrsta lagi þurfi ákvörðun Vinnumálastofnunar um að svipta atvinnulausan einstakling bótarétti að byggja á skýrum lagaheimildum og málsatvik þurfi að vera hafin yfir vafa. Í því tilviki sem hér um ræði hafi kærandi bent á að staða á „mínum síðum“ hafi aldrei breyst þannig að hann hafi ekki getað skráð atvinnuleit í samræmi við leiðbeiningar Vinnumálastofnunar. Þetta fái stoð í öðrum gögnum málsins, svo sem skráningum starfsmanna Vinnumálastofnunar í samskiptaskrá um að gleymst hafi að stimpla kæranda. Þá séu skýringar Vinnumálastofnunar á þessum skráningum í samskiptaskrá vægast sagt óljósar og samræmist ekki orðanna hljóðan. Þannig standist það enga skoðun að orðalag um að „gleymst [hafi] að stimpla hann“ eigi við að kærandi hafi gleymt að gera eitthvað, enda leiði af almennri málnotkun að gleymskan hafi átt sér stað hjá stofnuninni. Þá bendi kærandi á að Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að framangreindar upplýsingar kæranda séu rangar. Enn síður hafi Vinnumálastofnun sýnt fram á á hvaða tímabili það hafi mögulega verið opið fyrir kæranda að skrá atvinnuleit á „mínum síðum“. Því sé eingöngu haldið fram að kærandi hafi verið afskráður þann 5. október 2020, eða rúmum hálfum mánuði eftir ákvörðun um samþykki 17. september 2020. Kærandi bendi á að engar upplýsingar um þá afskráningu séu í samskiptaskrá. Þessu til viðbótar mótmæli kærandi að Vinnumálastofnun geti svipt hann rétti til greiðslu bóta, sem hann hafi átt efnislegan rétt til, með rýmkandi skýringu á 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Þannig segi um upphaf skyldu til að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun að það sé „eftir að umsókn [...] hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur ...“. Ekki sé deilt um það að kærandi hafi aldrei fengið greiddar atvinnuleysisbætur í kjölfar umsóknar sinnar frá 26. ágúst 2020 (sem hafi verið samþykkt 17. september 2020). Miðað við þá frásögn Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið „afskráður þann 5. október 2020“ þá hafi ekki stofnast skylda á herðar honum samkvæmt áðurnefndu ákvæði 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Í raun hafi slík skylda aldrei stofnast þar sem hann hafi aldrei fengið greiddar avinnuleysisbætur á grundvelli ákvörðunarinnar frá 17. september 2020.

Í öðru lagi varðandi það sjónarmið Vinnumálastofnunar að ekki sé „réttlætanlegt“ að kærandi hafi ekki grennslast fyrir um stöðu umsóknar og greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en í janúar 2021, hafi kærandi útskýrt það með vísan til fyrri reynslu af afgreiðslu stofnunarinnar, auk samfélagsástands. Þá sé engin lagastoð fyrir því að svipta atvinnuleitanda réttmætum bótum á grundvelli framangreinda sjónarmiða sem einkennist af geðþótta.

Í afstöðu Vinnumálastofnunar sé því haldið fram að ekki sé um afturköllun á ákvörðun að ræða þar sem ákvörðun stofnunarinnar 31. mars [2021] hafi snúið að beiðni um afturvirka staðfestingu á atvinnuleit. Vegna þessa sé rétt að taka fram að beiðni kæranda hafi snúið að því að hann fengi greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við efnislegan rétt sinn samkvæmt umsókn hans frá 26. ágúst 2020. Hvað sem líði tilgreiningu Vinnumálastofnunar á efni ákvörðunar frá 31. mars [2021] sé ljóst að ákvörðun um að atvinnuleysisbætur til handa kæranda frá 17. september 2020 hafi verið afturkölluð, í síðasta lagi þann 5. október 2020. Af því leiði að ákvörðun um réttindi til handa kæranda hafi verið afturkölluð án þess að til þess væru efnisleg skilyrði og án þess að fylgt væri reglum stjórnsýsluréttarins, meðal annars um andmælarétt.

Í öðru lagi sé rétt, vegna afstöðu Vinnumálastofnunar, að benda á að almennar reglur stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um starfsemi stofnunarinnar. Af því leiði meðal annars að stofnuninni beri að gæta að réttaröryggi atvinnuleitenda við málsmeðferð. Varðandi andmælarétt þá hafi Vinnumálastofnun borið að leita eftir sjónarmiðum kæranda áður en stofnunin afturkallaði ákvörðun um atvinnuleysisbætur honum til handa frá 17. september 2020. Þá hafi stofnuninni borið að leita eftir sjónarmiðum hans áður en honum hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur. Kærandi ítreki að andmælaréttur takmarkist ekki við atvik máls heldur feli einnig í sér rétt til að tjá sig um lagasjónarmið og upplýsingar um matskennd atriði. Ljóst sé að stofnunin hafi ekki leitað eftir sjónarmiðum kæranda og því brotið gegn andmælarétti.

Varðandi rannsóknarreglu þá hafi Vinnumálastofnun borið að sjá til þess að málið væri fullrannsakað, bæði áður en ákvörðun hafi verið tekin um afturköllun og þegar kæranda hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun geti ekki afmarkað rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslurétti við það eitt að rannsaka „aðeins hvort mistök stofnunarinnar eða hvort óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að atvinnuleitandi staðfesti atvinnuleit sína innan tilskilins tíma“. Af 10. gr. stjórnsýslulaga og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins leiði að stjórnvald verði að rannsaka mál með forsvaranlegum hætti með hliðsjón af málsatvikum og upplýsingum hverju sinni þannig að taka megi sem réttasta ákvörðun. Af gögnum málsins og afstöðu Vinnumálastofnunar sé ljóst að það hafi ekki verið gert og því hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Varðandi meðalhófsreglu þá sé það misskilningur hjá Vinnumálastofnun að vísað hafi verið til reglunnar um frávik frá lögbundnum skilyrðum. Stjórnvöldum beri að sýna meðalhóf við ákvarðanatöku en í því felist meðal annars að ákvarðanir íþyngi ekki umfram tilefni og lagaheimildir standi til. Vinnumálastofnun hafi hvorki gætt meðalhófs né lagaheimilda við ákvörðun í máli kæranda.

Við þetta megi bæta að það samræmist hvorki meðalhófi, málefnalegum sjónarmiðum né vönduðum stjórnsýsluháttum, svo sem réttsýni, að svipta atvinnuleitanda bótum um hálfum mánuði eftir samþykki bótaréttar, án þess að greiðsla bóta hafi farið fram og án þess að upplýsa atvinnuleitanda um að slíkt standi til og gefa honum kost á að gæta hagsmuna sinna.

Með vísan til framangreinds, umfjöllunar í kæru og gagna málsins, telji kærandi að hann eigi rétt til atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021 og að Vinnumálastofnun hafi með ólögmætum hætti staðið í vegi fyrir greiðslu þeirra. Kærandi ítreki þá kröfu að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og honum verði ákvarðaðar atvinnuleysisbætur á umræddu tímabili.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 12. mars 2020. Þann 17. mars 2020 hafi kæranda verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans og athygli hans verið vakin á því að hann þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína milli 20. og 25. hvers mánaðar inn á ,,mínum síðum“. Með erindi, dags. 5. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið verið 60%. Kærandi hafi síðar hafið störf að nýju þann 12. júní 2020.

Kærandi hafi sótt aftur um greiðslu atvinnuleysistrygginga til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 26. ágúst 2020. Þann 2. september 2020 hafi kæranda verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans og athygli hans verið vakin á því að hann þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína milli 20. og 25. hvers mánaðar inn á ,,mínum síðum“. Kæranda hafi jafnframt verið vísað á vefsíðu Vinnumálastofnunar og að þar væri hægt að finna ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda. Með erindi, dags. 17. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt. Útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið 60%.

Þann 26. janúar 2021 hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um afgreiðslu umsóknar hans. Kærandi kveðist hafa fengið tilkynningu frá stofnuninni um að umsókn hans hefði verið samþykkt. Aftur á móti hafi honum ekki borist neinar greiðslur. Þá kveðist kærandi ekki getað séð umsókn sína inn á ,,mínum síðum“. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 1. febrúar 2021. Kæranda hafi verið tjáð að hann væri ekki lengur skráður atvinnulaus hjá stofnuninni þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína innan tilskilins tíma. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að honum hafi verið leiðbeint um að staðfesta þyrfti atvinnuleit með tölvupósti, dags. 2. september 2020.

Þann 10. mars 2021 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá umboðsmanni kæranda þar sem hann ítreki það sem fram hafi komið í erindi kæranda, dags. 26. janúar 2021. Hann hafi talið að kærandi hefði ekki fengið rétta afgreiðslu á umsókn sinni og því óskað eftir að Vinnumálastofnun myndi afgreiða umsókn kæranda sem fyrst. Þá hafi umboðsmaður kæranda jafnframt gert athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Tölvupósti þessum hafi verið svarað af ráðgjafa stofnunarinnar sem hafi tjáð umboðsmanni kæranda að erindi hans hefði verið áframsent til Greiðslustofu til frekari skoðunar. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi þó ítrekað að kæranda hefði verið sendur tölvupóstur á uppgefið netfang hans þann 2. september 2020 þar sem skýrt hafi komið fram að hann þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína á milli 20. og 25. hvers mánaðar.

Í kjölfar tölvupósts frá umboðsmanni kæranda, dags. 10. mars 2021, hafi Greiðslustofa Vinnumálastofnunar farið yfir gögn í máli kæranda. Með erindi, dags. 31. mars 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hans um afturvirka staðfestingu á atvinnuleit hefði verið hafnað. Í erindi þessu hafi verið vísað til þess að kærandi hefði ekki staðfest atvinnuleit sína og því teldist hann ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 15. júní 2021. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort kærandi eigi rétt á afturvirkri staðfestingu á atvinnuleit fyrir tímabilið 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021, það er hvort kærandi eigi rétt á afturvirkum greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sé launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá sé í 7. mgr. 9. gr. kveðið á um skyldu atvinnuleitanda til að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun. Þar segi orðrétt:

,,Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Þegar Vinnumálastofnun upplýsir umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skal hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin mun koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans stendur. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hefur tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögum þessum.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a. lið ákvæðisins sé kveðið á um skilyrðið um virka atvinnuleit samkvæmt 14. gr.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. skuli sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði en fyrirgeri sér að öðrum kosti rétti sínum til greiðslu atvinnuleysisbóta. Með vísan til 7. mgr. 9. gr., 13. og 14. gr. laganna hafi Vinnumálastofnun gert þá kröfu til atvinnuleitenda að þeir staðfesti mánaðarlega að þeir séu í virkri atvinnuleit. Í upphafi umsóknar sé atvinnuleitendum tilkynnt að þeim beri að staðfesta atvinnuleit sína inn á ,,mínum síðum“ á milli 20. og 25. hvers mánaðar. Atvinnuleitendur geti að auki hringt í þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar eða mætt á sína þjónustuskrifstofu til að staðfesta að þeir séu í virkri atvinnuleit. Kæranda hafi verið tilkynnt með tölvupósti, sem sendur hafi verið á uppgefið netfang hans þann 2. september 2020, að umsókn hans hefði verið móttekin og vakin hafi verið athygli hans á því að honum bæri að staðfesta atvinnuleit sína á umræddum tíma. Að auki hafi kæranda verið bent á hvar finna mætti frekari upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun bendi einnig á að allir umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að þeir hafi kynnt sér upplýsingar um reglulega staðfestingu á atvinnuleit. Upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit séu hluti af umsókn um greiðslur hjá stofnuninni. 

Með því að staðfesta atvinnuleit sína í hverjum mánuði staðfesti atvinnuleitendur að þeir uppfylli enn skilyrði laganna og sækist áfram eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Þá sé rétt að benda á að frá degi umsóknar skuldbindi aðili sig til að fylgja þeim skilyrðum og skuldbindingum sem lögin setji, þar á meðal skilyrði um virka atvinnuleit. Í virkri atvinnuleit felist að atvinnuleitandi þurfi að vera reiðubúinn að ráða sig til vinnu og taka þeim störfum sem bjóðist, auk þess að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum stofnunarinnar sem standi honum til boða, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þau samskipti atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit sé þannig mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þá sé ljóst að eigi aðili ekki virka umsókn hjá Vinnumálastofnun sökum þess að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína geti stofnunin ekki boðið honum vinnumarkaðsúrræði við hæfi. Mánaðarleg staðfesting atvinnuleitanda á því að hann sé í virkri atvinnuleit sé þannig forsenda þess að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur og breyti þar engu þó að atvinnuleitandi hafi sjálfur sótt um fjölda starfa án aðkomu Vinnumálastofnunar, líkt og kærandi beri fyrir sig í kæru.

Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dagsettri 26. ágúst 2020, og honum hafi verið tilkynnt þann 17. september 2020 að umsókn hans hefði verið samþykkt. Í ljósi þess að kærandi hafi aldrei staðfest atvinnuleit sína hafi hann verið afskráður þann 5. október 2020. Eftir 5. október hafi kærandi því ekki verið með virka umsókn í kerfum stofnunarinnar og hafi þar af leiðandi ekki getað staðfest atvinnuleit sína. Kærandi hafi ekki haft samband við Vinnumálastofnun fyrr en með erindi, dags. 26. janúar 2021, eða rúmlega fjórum mánuðum eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt. Líkt og rakið hafi verið að framan hvíli rík skylda á atvinnuleitendum til að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun, sbr. 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Að mati Vinnumálastofnunar sé sá langi tími sem hafi liðið frá því að umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar hafi verið samþykkt og þar til hann hafi sett sig fyrst í samband við Vinnumálastofnun ekki réttlætanlegur með vísan til þess álags sem stofnunin hafi verið undir, líkt og kærandi beri fyrir sig í kæru.

Vinnumálastofnun vilji jafnframt vekja athygli á því að stofnunin staðfesti ekki að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, heldur geri atvinnuleitandi það sjálfur inn á ,,mínum síðum“, sem síðan færist sjálfkrafa í kerfi stofnunarinnar. Aðeins í undantekningartilvikum staðfesti Vinnumálastofnun virka atvinnuleit atvinnuleitanda. Það hafi aðeins verið gert í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun telji ljóst að mistök stofnunarinnar eða óviðráðanleg atvik hafi orðið valdur þess að atvinnuleitandi hafi ekki sjálfur getað staðfest atvinnuleit sína. Kærandi hafi í kæru vísað til samskiptafærslu, dags. 15. mars 2021, þar sem fram komi að ,,gleymst hafi að stimpla“ hann. Vinnumálastofnun telji ljóst að þarna sé verið að vísa til þess að kærandi sjálfur hafi gleymt að staðfesta atvinnuleit sína. Í kjölfar samskiptafærslu, dags. 15. mars 2021, megi sjá í kerfum Vinnumálastofnunar að þjónustufulltrúi stofnunarinnar hafi staðfest atvinnuleit kæranda allt frá umsóknardegi. Aftur á móti hafi sú skráning verið leiðrétt samdægurs þar sem að mati stofnunarinnar hafi verið ljóst að kærandi ætti ekki rétt á slíkri skráningu.

Í kæru séu gerðar athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Einkum séu gerðar athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hafi ekki tekið ákvarðanir sem byggðar hafi verið á fullnægjandi rannsókn, að kæranda hafi ekki verið veittur andmælaréttur og þá hafi stofnunin að mati kæranda ekki gætt að meðalhófi.

Kærandi byggi meðal annars á því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að setja fram sín sjónarmið áður en Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um að afturkalla fyrri ákvörðun og synja honum um greiðslu atvinnuleysisbóta. Að mati kæranda feli það í sér brot gegn andmælarétti og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ákvörðun um að synja kæranda um afturvirka staðfestingu á atvinnuleit, sem tilkynnt hafi verið kæranda þann 31. mars 2021, hafi ekki falið í sér afturköllun á fyrri ákvörðun. Engin ákvörðun þess efnis hafi áður verið tekin í máli kæranda. Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. september 2020, um að samþykkja umsókn kæranda hafi falið í sér ákvörðun um bótarétt og að kærandi hafi uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Greiðslur til atvinnuleitanda í kjölfar samþykktrar umsóknar séu hins vegar ávallt háðar því að viðkomandi staðfesti atvinnuleit sína innan tilskilins tíma. Sú ákvörðun, sem tekin hafi verið þann 31. mars 2021, hafi verið svar við beiðni kæranda um afturvirka staðfestingu á atvinnuleit. Að mati Vinnumálastofnunar sé því óljóst hvaða ákvörðun kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi „afturkallað“. Þá þyki Vinnumálastofnun jafnframt óljóst í hvaða samhengi og hvenær kæranda hafi átt að vera veittur andmælaréttur, enda hafi ákvörðun, dags. 31 mars 2021, verið tekin í kjölfar beiðni kæranda um afturvirka staðfestingu á atvinnuleit. 

Þá byggi kærandi á því í kæru að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, hafi ekki verið byggð á fullnægjandi rannsókn. Í þeim tilvikum þegar atvinnuleitendur óski eftir afturvirkri staðfestingu á atvinnuleit rannsaki Vinnumálastofnun aðeins hvort mistök stofnunarinnar eða hvort óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að atvinnuleitandi staðfesti atvinnuleit sína innan tilskilins tíma. Á grundvelli þeirra gagna sem hafi legið fyrir þegar ákvörðun, dags. 31. mars 2021, hafi verið tekin, hafi Vinnumálastofnun talið svo ekki vera. Beiðni kæranda um afturvirka staðfestingu á virkri atvinnuleit hafi því verið hafnað.

Kærandi telji jafnframt í kæru að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt meðalhófs. Að mati Vinnumálastofnunar geti meðalhófsreglan ekki vikið frá skýrum lögbundnum skilyrðum laga. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hvíli rík skylda á atvinnuleitendum til að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun og í því felist meðal annars að þeir staðfesti atvinnuleit sína innan tilskilins tíma. Eins og rakið hafi verið hafi kærandi ekki staðfest atvinnuleit sína. Þá hafi kærandi ekki haft samband við Vinnumálastofnun fyrr en rúmlega fjórum mánuðum eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt. Stofnunin telji sér því ekki heimilt að verða við beiðni kæranda um að staðfesta atvinnuleit hans afturvirkt fyrir tímabilið 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á afturvirkri greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 26. ágúst 2020 til 11. janúar 2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans samkvæmt 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Þegar Vinnumálastofnun upplýsir umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skal hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin mun koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans á meðan á atvinnuleit hans stendur. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hefur tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögum þessum.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 26. ágúst 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar var honum þann 2. september 2020 greint frá því að  staðfesta þyrfti atvinnuleit á milli 20. og 25. hvers mánaðar inni á „mínum síðum“. Kæranda var bent á að ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar og að hann þyrfti að láta vita um allar breytingar á högum sínum. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að við staðfestingu á atvinnuleit sé umsækjandi að staðfesta að hann sé enn án atvinnu og í virkri atvinnuleit. Þá kemur fram að þeir sem ekki staðfesti atvinnuleit á tilsettum tíma verði afskráðir. Undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ er að finna nánari upplýsingar til atvinnuleitenda. Þar kemur einnig fram að staðfesta þurfi atvinnuleit á tímabilinu 20. til 25. hvers mánaðar. Ef viðkomandi gleymi að staðfesta atvinnuleit á því tímabili sé opið fyrir að staðfesta atvinnuleitina frá 26. til 3. næsta mánaðar. Sé það gert seinki greiðslum um fimm virka daga frá því sem annars hefði verið. Að endingu er tekið fram að þeir sem ekki staðfesti atvinnuleit á þessum dögum verði afskráðir úr atvinnuleit 4. næsta mánaðar. Einnig er að finna skýringarmynd um hvernig skal staðfesta atvinnuleit og er þar tilgreint að tölvupóstur berist um að skráning hafi tekist. Berist tölvupóstur ekki sé mikilvægt að hafa strax samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar eða hringja í þjónustuver.

Umsókn kæranda var samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. september 2020. Í samræmi við framangreinda skyldu bar kæranda því að staðfesta atvinnuleit sína á tímabilinu 20. til 25. september 2020 til þess að eiga rétt á greiðslu frá stofnuninni. Kærandi hefur vísað til þess að staða umsóknar hans á „mínum síðum“ hefði ekki breyst og þar hafi aldrei opnast möguleiki á að staðfesta atvinnuleit. Kæranda bar strax þá að hafa samband við Vinnumálastofnun og tilkynna að hann gæti ekki staðfest atvinnuleit, enda var stofnunin búin að samþykkja umsókn hans nokkrum dögum áður. Það að álag hafi verið á Vinnumálastofnun breytir ekki þeirri skyldu kæranda. Miðað við þær leiðbeiningar og upplýsingar sem kæranda hafði verið veittar gat honum ekki dulist að tilkynning til Vinnumálastofnunar um virka atvinnuleit væri forsenda þess að eiga rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráður af atvinnuleysisskrá þann 5. október 2020. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að taka fram að sú ákvörðun felur ekki í sér afturköllun á ákvörðun frá 17. september 2020 um að samþykkja umsókn um atvinnuleysisbætur. Það er sjálfstæð ákvörðun sem ekki var nauðsynlegt að upplýsa kæranda um áður en til hennar kom og veita andmælarétt, enda hafði kæranda verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um afleiðingar þess að staðfesta ekki atvinnuleit. Hins vegar er ljóst að kæranda var ekki tilkynnt um afskráninguna sem er ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Að öðru leyti telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð Vinnumálastofnunar eða efni hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess að kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína á tímabilinu 20. til 25. september 2020 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi verið réttilega skráður af atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun 5. október 2020. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum