Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2017 Innviðaráðuneytið

Jón Gunnarsson á fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra

Norrænir sveitarstjórnarráðherrar á fundi í Borgundarhólmi. Frá vinstri: Klara Cederlund,  ráðuneytisstjóri sænska sveitarstjórnarráðuneytisins, Erik Jensen ráðherra grænlensku heimastjórnarinnar, Jón Gunnarsson, Jan Tore Sanner, norski sveitarstjórnarráðherrann, Simon Emil Ammitzbøll, danski innanríkisráðherrann, Nina Fellmann, ráðherra frá Álandseyjum, og Jari Partanen, ráðuneytisstjóri frá Finnlandi. - mynd

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tekur nú þátt í fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku. Tvö umræðuefni eru á dagskrá fundarins: Mismunandi leiðir til að virkja íbúa til þátttöku og réttlát og sanngjörn samkeppni á milli hins opinbera og einkaaðila

Ráðherra ávarpaði fundinn í morgun og tók þátt í formlegu samtali við ráðherra hinna Norðurlandanna. Jón fór yfir það helsta sem unnið er að á sviði sveitarstjórnarmála á Íslandi um þessar mundir. Hann sagði umfjöllun um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins vera eitt brýnasta verkefnið á því sviði á Íslandi. Sagði hann brýnt að efla sveitarfélögin, þau væru mörg og fámenn og væru íbúar færri en þúsund í helmingi þeirra. Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem starfað hefði frá ársbyrjun, myndi mjög bráðlega skila tillögum sínum. Nú heyrðu sveitarstjórnarmál og byggðamál undir sama ráðuneyti sem hann sagði skapa ný tækifæri.

Þá nefndi ráðherra þá breytingu með sveitarstjórnarlögunum 2011 að íbúar sveitarfélaga geti haft meiri áhrif á ákvarðanatöku í einstökum málum og stefnu sveitarstjórnar með því að óska eftir íbúakosningum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sagði hann að framundan væri ráðstefna í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga til að meta reynsluna af samráði sem þessu.

Ráðherra fjallað einnig um samkeppni hins opinbera og einkaaðila, þ.e. hvort og hvernig einkaaðilar gætu á sumum sviðum tekið að sér ákveðna þjónustu og hugsanlega leyst hana betur af hendi en ríkinu væri unnt. Undir lok ræðu sinnar sagði Jón Gunnarsson að mikilvægt væri að bera jafnan saman árangur opinbers rekstrar og einkarekstrar bæði á sviði gæða og hagkvæmni. Fundinum lýkur síðdegis í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum