Hoppa yfir valmynd
9. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Verkefni flutt til sýslumanna frá ráðuneytum og stofnunum

Áætlun liggur nú fyrir um flutning verkefna frá ráðuneytum og stofnunum til embætta sýslumanna liggur nú fyrir og er tilgangurinn að efla embættin og styrkja opinbera þjónustu. Stefnt er að því að allt að tíu verkefni innanríkisráðuneytis og stofnana þess verði flutt til sýslumannsembætta landsins á fyrri hluta ársins og verið er að kanna flutning átta annarra verkefna.

Eitt verkefni hefur verið flutt á árinu, umsóknir um gjafsóknarleyfi, til  sýslumanns á Vesturlandi. Verið er að kanna frekari verkefnaflutning frá ráðuneytum til sýslumannsembætta.

Með nýrri skipan umdæma sýslumannsembætta landsins sem tók gildi í byrjun ársins eru embættin öflugri og betur í stakk búin til að taka við nýjum verkefnum. Í bráðabirgðaákvæði við breytingar á lögunum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði er kveðið á um að innanríkisráðherra skuli í samstarfi við forsætisráðherra láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið vegna flutnings verkefna til sýslumanna. Þar skuli afmarka stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna.

Áætlun þessi liggur nú fyrir og þar er að finna lista yfir 19 verkefni sem mögulegt er að flytja frá innanríkisráðuneytinu og undirstofnunum. Aðgerðaáætluninni fylgir viðauki þar sem birt er yfirlit yfir möguleg verkefni frá öðrum ráðuneytum sem ekki náðist að ljúka að þessu sinni sem og yfirlit frá sýslumönnum yfir hugmyndir að nýjum verkefnum.

Vert er að nefna að  nokkur verkefni voru einnig flutt á síðasta ári frá innanríkisráðuneyti til sýslumanna. Má þar til dæmis nefna skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, útgáfa leyfisbréfa til starfsréttinda héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna og leyfisveitingar sem tengjast opinberum fjársöfnunum. Þá flutti Matvælastofnun innheimtu stjórnsýslu- og dagsekta til sýslumanns á Norðurlandi vestra.

Innanríkisráðuneytið mun halda áfram að vinna að eflingu embætta sýslumanna og hvetja til þess að stjórnsýsluverkefni sem eiga samleið með verkefnum sýslumanna og eru til þess fallin að bæta enn frekar þjónstu ríkisins verði flutt til til embættanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum