Hoppa yfir valmynd
10. október 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Styrkur til Landsbjargar og Safetravel hækkaður

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, hefur ákveðið að auka framlög til Landsbjargar fyrir verkefnið Safetravel í 40 milljónir á ári. Ráðherra, Landsbjörg og Samtök ferðaþjónustunnar hafa nú undirritað nýjan þriggja ára samning, en Slysavarnafélagið Landsbjörg er í lykilhlutverki þegar kemur að öryggi ferðamanna og slysavörnum þeirra.

 

„Markmiðið er að gera Landsbjörgu kleift að viðhalda sínu góða starfi og leggja enn meiri áherslu á öryggi ferðamanna. Við viljum að allir sem heimsækja Ísland rati heim heilir og kátir með ferðina sína,“ segir Þórdís Kolbrún.

Safetravel

Meginmarkmið Safetravel er að efla öryggismál og slysavarnir ferðamanna með því að skapa gott aðgengi fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila að upplýsingum um ábyrga ferðahegðun, umgengni um náttúru og aðstæður í landinu.

 

Verkefnum Safetravel hefur fjölgað á undanförnum árum. Árið 2017 gerðu Slysavarnafélagið Landsbjörg og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar samning til þriggja ára sem þau hafa nú sammælst um að endurnýja til þriggja ára frá 2020.

 

115 milljónir á samningstímanum

Nýja samningnum er ætlað að tryggja fjárhagslegan grundvöll verkefna Safetravel til lengri tíma og jafnframt skapa svigrúm til að auka umfang verkefnanna frá því sem verið hefur. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir Landsbjörgu alls 115 milljónir á samningstímanum.

 

Meðal þess sem samningurinn tekur til er upplýsingagjöf til ferðamanna í gegnum heimasíðuna www.safetravel.is, rekstur skjáupplýsingakerfis ferðamanna á lykilstöðum á landinu og hálendisvakt björgunarsveita. Þá verður einnig ráðist í gerð upplýsingaefnis fyrir ferðamenn, meðal annars örmyndbönd sem taka á hinum ýmsu öryggismálum sem ferðamenn þurfa að þekkja til að njóta ferðalagsins á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum