Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur ræðu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag - myndUN Photo / Violaine Martin
Mikilvægi varðstöðu um lýðræði, frelsi og mannréttindi bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra við upphaf 52. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. Ráðherra tók auk þess þátt í mannúðarráðstefnu um Jemen og flutti ræðu fyrir hönd Norðurlanda á viðburði til stuðnings Úkraínu.

Ráðherravika 52. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna stendur nú sem hæst. Nú síðdegis flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stefnuræðu Íslands um alþjóðleg mannréttindamál. Í ræðunni fordæmdi hún harðlega innrás Rússlands í Úkraínu og minnti á skelfilegar afleiðingar stríðsins sem hefðu víðtæk áhrif á mannréttindi víða. „Með innrásinni er vegið að kjarna stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðakerfinu sem grundvallast á virðingu fyrir alþjóðalögum. Markmið hennar er að grafa undan grundvallarmannréttindum sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til að verja,“ sagði ráðherra. Hún kom einnig inn á alvarleg mannréttindabrot stjórnvalda í Belarús og að Ísland haldi áfram að styðja þétt við bakið á stjórnarandstöðunni þar í landi.

Þá skoraði utanríkisráðherra á talibana í Afganistan að virða mannréttindi og láta af þeirri kúgun í garð kvenna sem þar viðgengst. Jafnframt lýsti hún yfir áframhaldandi stuðningi við íbúa Íran sem enn sættu hrottalegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda. Í niðurlagi ræðunnar minnti Þórdís Kolbrún svo almenna þýðingu mannréttinda og einstaklinga. „Við megum aldrei gleyma því að grundvallarréttindi einstaklinga, þar á meðal samkomufrelsi, tjáningarfrelsi, hugsanafrelsi og skoðanafrelsi eru nauðsynlegur drifkraftur nýbreytni og sköpunar, sem eru aftur á móti undirstöðuþættir efnahagslegra og félagslegra framfara,“ sagði hún í ávarpinu.

Utanríkisráðherra flutti jafnframt ávarp fyrir hönd Norðurlandanna á sérstökum viðburði Úkraínu í tilefni þess að ár er liðið frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu. Í ávarpi sínu ítrekaði utanríkisráðherra stuðning Íslands og Norðurlandanna við úkraínsku þjóðina og sagði það sameiginlegt verkefni heimsbyggðarinnar að standa vörð um lýðræðið, réttarríkið og mannréttindi.

Þá sótti Þórdís Kolbrún mannúðarráðstefnu um Jemen en mikill meirihluti þjóðarinnar þarfnast mannúðaraðstoðar vegna langvarandi stríðsátaka í landinu. Á fundinum tilkynnti ráðherra ný áheit að upphæð 350 milljónir króna fyrir tímabilið 2023-2025 og ítrekaði eldri áheit að upphæð 95 milljónir króna fyrir árið í ár.


  • Frá áheitaráðstefnu vegna Jemen - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Helena Kida dómsmálaráðherra Mósambík

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum