Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reynt að ljúka brúarsmíði við Múlakvísl á 10 dögum

Vegagerðin stefnir nú að því að ljúka smíði bráðabirgðabrúar yfir Múlakvísl á 10 dögum. Verkið hefur verið skipulagt í þaula og verði engar óvæntar uppákomur á að vera hægt að hleypa umferðinni á í síðari hluta næstu viku.

Reynt verður að ljúka brúargerð á 10 dögum
Reynt verður að ljúka brúargerð á 10 dögum

Tveir brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar eru nú að störfum við Múlakvísl. Starfsmenn þeirra vinna á vöktum og byrja á að reka niður staura í undirstöður og síðan verður sjálf brúin smíðuð en hún er rúmlega 150 metra löng.

Síðdegis í dag hófust selflutningar á fólki og bílum yfir Múlakvísl. Vegagerðin hefur samið um þá þjónustu við eigendur öflugra ökutækja sem ferja farþega milli rútubíla við árbakkann. Búið er að útbúa athafnasvæði til að aka bílum á vörubílspalla og svæði fyrir bílastæði þeirra sem doka við eftir þessari þjónustu. Bent er á að afköst þessara selflutninga eru aðeins brot af því sem vegurinn annar en umferðin er kringum 1.200 bílar á sólarhring.

Ferjað verður yfir Múlakvísl til kl. 22 í kvöld og jafnvel til miðnættis. Björgunarsveitir skipuleggja flutningana en Vegagerðin sér um að halda vaðinu færu.

Fjallabaksleið nyrðri er fær traustum bílum en á leiðinni milli Landmannalauga og Skaftártungna eru óbrúaðar ár og brýnt að sýna aðgát. Hámarkshraði á leiðinni hefur verið merktur 60 km og við vöðin eru skilti um leiðbeinandi 5 km hraða. Þá er í gildi 7 tonna öxulþungatakmörkun á þessari leið. Vegagerðin og björgunarsveitir fylgjast með umferð og ástandi vegarins.

Þá má benda á að Vegagerðin er að vekja á því athygli við Hringveginn á nokkrum stöðum og víðar að vegurinn sé í sundur við Múlakvísl og verða þau skilti öll komin upp á morgun.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira