Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hringvegur hugsanlega tengdur um miðja næstu viku

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi ýmsar aðgerðir sem unnið er að vegna flóðsins í Múlakvísl. Á fund ríkisstjórnar komu Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Jón Bjartmarz, yfirlögegluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Ríkisstjórnin lýsir í frétt eftir fundinn ánægju með skjót og fumlaus viðbrögð Almannavarna og Vegagerðar auk þess sem samstarf við björgunarsveitir er nú sem endranær ómetanlegt. Allt hefur verið gert sem mögulegt er til að hraða aðgerðum og tryggja öryggi vegfarenda.

Hlé á ferjuflutningum í bili

Vegagerðin stefnir að því að ljúka smíði bráðabirgðabrúar yfir Múlakvísl á næstu 10 dögum þannig að samband um Hringveginn komist á um miðja næstu viku. Meðan vegasamband er rofið er boðið upp á selflutning fólks og bíla yfir ána og traustir og háir bílar geta nýtt sér Fjallabaksleið nyrðri sem hjáleið en eystri hluti hennar er torfær fólksbílum. Hlé verður á þessum flutningum í bili þar sem rútan sem ferjað hefur fólk festist í ánni. Ástandið verður endurmetið þegar líður á daginn.

Fram kemur í frétt ríkisstjórnarinnar að hún hefur gefið Vegagerðinni og öðrum aðilum sem sinna viðgerðum, björgunarstörfum og öðrum verkefnum vegna flóðsins fulla heimild til að gera allt sem mögulegt er til að koma sem fyrst á tengingu. Einnig að gera þær bráðabirgðaráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar svo sem við ferjuflutninga og lagfæringar á Fjallabaksleið á meðan Hringvegurinn er rofinn. Ekki verður látið standa á kostnaði við slíkar aðgerðir.

Unnt er að selflytja fólk og fólksbíla yfir Múlakvísl aðilum að kostnaðarlausu þar sem tveir öflugir vörubílar og rúta hafa verið fengin til að annast þá þjónustu frá kl. 8 til 22 til að byrja með. Þá hafa bílaleigur komið upp skiptistöðvum við ána þannig að unnt sé að skila bíl öðrum megin, fá flutning með rútu yfir ána og taka bíl á ný hinum megin. Í undirbúningi er að auka afköst í þessum flutningum.

Til að tryggja upplýsingagjöf fyrir ferðamenn tryggir Íslandsstofa að vefsíðan iceland.is verði aðgengileg gátt inn á síður Vegagerðarinnar, Almannavarna, Safe Travel, Veðurstofunnar og fleiri aðila. Þá mun Vegagerðin færa inn jafnt og þétt nýjar upplýsingar og/eða kort um stöðu mála. Ferðamálastofa mun eftir þörfum senda ferðaþjónustuaðilum nýjustu upplýsingar á ensku og íslensku, byggðar á stöðuskýrslum Almannavarna og upplýsingum frá Vegagerðinni,  svo svara megi fyrirspurnum um stöðuna á öruggan og samræmdan hátt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira