Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Kröfur um starfsnám lækna á kandídatsárinu formgerðar

Í læknisskoðun
Í læknisskoðun

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýjar starfsreglur fyrir mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði. Nefndin hefur staðfest marklýsingu fyrir starfsnám læknakandídata og lokið mati á því hvaða heilbrigðisstofnanir uppfylla kröfur til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnanir fyrir starfsnám læknakandídata til að öðlast almennt lækningaleyfi. Læknakandídatar sem útskrifuðust í vor eru þeir fyrstu til að stunda starfsnám á grundvelli nýju marklýsingarinnar.

Markmið með störfum mats- og hæfisnefndarinnar er að tryggja gæði starfsnáms og sérnáms samkvæmt reglugerð nr. 467/2015 sem fjallar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi hér á landi. Í því skyni skal nefndin m.a. meta og staðfesta marklýsingar fyrir starfsnám til almenns lækningaleyfis, samþykkja marklýsingar fyrir einstakar sérnámsbrautir fyrir formlegt sérnám í læknisfræði hér á landi og meta hæfi heilbrigðisstofnana eða deilda á heilbrigðisstofnunum til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til almenns lækningaleyfis og til að annast sérnám í læknisfræði hér á landi.

Eitt af skilgreindum verkefnum mats- og hæfisnefndarinnar samkvæmt reglugerð nr. 467/2015 var að setja sér starfsreglur þar sem m.a. skal kveðið á um þau viðmið sem hafa skal til hliðsjónar við mat stofnana og hvernig samráði skuli háttað við stofnanir sem metnar eru hverju sinni.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að sú vinna sem þegar hefur farið fram af hálfu mats- og hæfisnefndarinnar með staðfestingu marklýsingar fyrir starfsnám læknakandídata og formlegu mati á hæfi heilbrigðisstofnana vegna starfsnáms sé afar mikilvægur liður í því efla gæði læknanámsins og tryggja samræmi í kennslu milli stofnana. Með staðfestingu á starfsreglum mats- og hæfisnefndarinnar sé þetta formgert enn frekar.

Á vef Embættis landlæknis hefur verið birt yfirlit yfir þær heilbrigðisstofnanir og/deildir þeirra sem hlotið hafa viðurkenningu sem kennslustofnun og marklýsinguna sem hér hefur verið fjallað um.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum