Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Ný heilsugæslustöð í Mývatnssveit tekin í notkun

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur HSN klippa á borðann fyrir utan nýju Heilsugæslustöðina í Reykjahlíð. - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra opnaði formlega í gær nýja heilsugæslustöð í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Við stöðina verður sinnt allri grunnheilsugæslu í sveitarfélaginu sem telur um 400 íbúa, auk þess að þjónusta þá fjölmörgu ferðamenn sem heimsækja svæðið árið um kring.

Kristján Þór sem tók skóflustungu að nýja húsnæðinu fyrir um ári síðan segir löngu hafa verið tímabært að koma heilsugæslustöðinni í nýtt húsnæði: „Heilsugæslustöðin í Reykjahlíð flutti í bráðabirgðahúsnæði árið 1984 og því eru hér langþráðar úrbætur í höfn sem munu nýtast afar vel þeim gríðarlega fjölda ferðamanna sem fer um svæðið á ári hverju. Þær munu ekki síður nýtast því ágæta fólki sem hefur kosið sér búsetu í Skútustaðahreppi,“ segir Kristján Þór.

Húsnæði nýju stöðvarinnar er hið glæsilegasta, um 240 fermetrar sem sniðnir eru að þörfum starfseminnar. Þar er aðstaða fyrir hjúkrunarfræðing, ljósmóður, sálfræðing, iðjuþjálfa, lækni, sjúkraliða, ritara og sjúkraþjálfara. Lyfjaafgreiðsla eða apótek er einnig í húsnæðinu en heilsugæslustöðin er hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN.

Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur HSN er afar ánægð með nýja húsnæðið sem hún segir íbúa á svæðinu hafa beðið eftir ansi lengi: „Þetta er ekki bara breyting heldur algjör umbylting. Að fara úr húsi sem var ekki hljóðeinangrað og ekki var hægt að fara inn með sjúkrakörfur ef það var of mikill snjór,“ segir Dagbjört sem hefur starfað á heilsugæslustöðinni frá árinu 1988.

Dagbjört segir ennfremur að áður fyrr hafi ferðamenn verið margir á svæðinu yfir sumarmánuðina en nú komi þeir allt árið og því mikilvægt að geta sinnt þeim við betri aðstæður: „Það er líka gaman að því hversu mikinn þátt íbúar hérna á svæðinu hafa tekið þátt í þessu, það er mikil ánægja með þessi miklu tímamót.“

Heildarkostnaður við nýju Heilsugæslustöðina í Mývatnssveit nemur 115,6 milljónum króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum