Hoppa yfir valmynd
31. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 253/2025 Úrskurður

Hinn 31. mars 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 253/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24100021

 

Kæra [...]

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 30. september 2024 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2024 um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Enn fremur krefst kærandi þess að hann fái útgefinn dvalarrétt til fimm ára sem aðstandandi EES-borgara. Samhliða kæru krafðist kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 4. september 2016. Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2017, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 414/2017, dags. 11. júlí 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða auk þess sem kæranda var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mansals eða gruns þar um. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun með úrskurði nr. 534/2018, dags. 6. desember 2018, og lagði jafnframt fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan 30 daga. Hinn 14. desember 2018 óskaði kærandi hvort tveggja eftir endurupptöku málsins ásamt frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Með úrskurði kærunefndar nr. 45/2019, dags. 31. janúar 2019, var endurupptökubeiðni kæranda hafnað. Með úrskurði kærunefndar nr. 24/2019, dags. 1. febrúar 2019, var beiðni um frestun réttaráhrifa hafnað.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kæranda veitt bráðabirgðaleyfi hér á landi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga 26. júní 2017, á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd væri til meðferðar hjá stjórnvöldum. Bráðabirgðaleyfi kæranda var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 16. mars 2019. Hinn 8. júlí 2019 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Umsókninni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2019. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið 20. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var umsókninni synjað. Með úrskurði nr. 62/2021, dags. 17. febrúar 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar.

Hinn 8. júní 2022 óskaði kærandi á ný eftir endurupptöku úrskurðar kærunefndar nr. 534/2018, frá 6. desember 2018. Með úrskurði nr. 267/2022, dags. 14. júlí 2022, hafnaði kærunefnd beiðni kæranda. Kærandi stefndi íslenska ríkinu og Útlendingastofnun fyrir héraðsdómi 21. september 2022 og krafðist þess aðallega að síðastnefndur úrskurður kærunefndar yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4270/2020, dags. 16. febrúar 2023, voru stefndu sýknuð af kröfum kæranda og stóð úrskurður kærunefndar nr. 267/2022 því óhaggaður. Hinn 19. júlí 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr., sbr. 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, var umsókn kæranda synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 108/2024, dags. 14. febrúar 2024, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Í úrskurðinum kom m.a. fram að kæranda væri veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Að öðrum kosti skyldi Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.

Kærandi sótti um dvalarrétt sem aðstandandi EES-borgara öðru sinni 8. maí 2024 og bíður sú umsókn úrvinnslu hjá Útlendingastofnun. Hinn 15. ágúst 2024 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann en í tilkynningunni kom fram að kærandi hefði dvalið lengur en 90 daga frá komu til Schengen-svæðisins, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga auk þess að kærandi hefði ekki sýnt fram á lögmæti dvalar hans hér á landi, né innan Schengen-svæðisins þrátt fyrir áskoranir lögreglu. Því væri gengið út frá því að dvölin væri ólögmæt. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2024, var kæranda brottvísað og gert að sæta tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar að afstaða hefði verið tekin til dvalarréttar kæranda sem aðstandandi EES-borgara á þann veg að hann nyti ekki slíks réttar. Þá kom fram í ákvörðuninni að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hafa yfirgefið landið í samræmi við fyrirmæli áðurnefnds úrskurðar kærunefndar nr. 108/2024. Loks kom fram í ákvörðuninni að frestur til sjálfviljugrar heimfarar væri felldur niður, sbr. a-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 18. september 2024, og kærð til kærunefndar útlendingamála 30. september 2024. Samhliða kæru lagði kærandi fram röksemdir sínar. Frekari gögn voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 2. október 2024. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 23. janúar 2025, var kæranda skipaður talsmaður vegna málsins. Hinn 4. mars 2025 lagði talsmaður kæranda fram greinargerð vegna málsins.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 1006/2024, dags. 8. október 2024, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, hafnað.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Um röksemdir vegna hinnar kærðu ákvörðunar vísar kærandi til þess að óheimilt sé að brottvísa honum því hann hafi svo rík tengsl við landið að ákvörðunin teljist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum og nánustu aðstandendum hans. Um tengslin vísar kærandi einkum til stjúpföður sem búsettur sé hér á landi. Að sögn kæranda sé stjúpfaðirinn hans nánasti aðstandandi og sé því ekki heimilt að brottvísa honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu við úrlausn málsins þar sem Útlendingastofnun hafi ekki kannað tengsl kæranda við stjúpföður með sjálfstæðum hætti. Þar að auki telur kærandi að hin kærða ákvörðun gangi lengra en nauðsyn krefji þar sem hann hafi sýnt viðleitni til að hlíta úrlausnum Útlendingastofnunar og kærunefndar, líkt og gögn málsins beri með sér. Kærandi kveðst hafa virt fyrirmæli um að yfirgefa landið innan 15 daga frá niðurstöðu umsóknar hans um dvalarskírteini vegna fjölskyldutengsla. Þá hafi hann aðrar umsóknir til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og hafi talið rétt að bíða niðurstöðu þeirra áður en hann yfirgæfi landið að nýju. Brottvísun og endurkomubann séu íþyngjandi ráðstafanir og stjórnvöldum hafi borið að gæta betur að meðalhófi við úrlausn málsins.

Í röksemdum kæranda um aðstæður sínar vísar hann til þess að lögregla hafi haft afskipti af honum 1. maí 2024 og gert honum að sæta tilkynningarskyldu þrisvar í viku til að byrja með, en síðan tvisvar, og loks einu sinni í viku. Kærandi ber fyrir sig að hann hafi lagt fram umsókn um dvalarrétt sem aðstandandi EES-borgara og kveðst hafa lagt fram öll viðhlítandi fylgigögn. Þá vísar kærandi til fyrri úrlausna íslenskra stjórnvalda um hans málefni, m.a. varðandi auðkenni og fjölskyldutengsl.

Kærandi kveðst hafa yfirgefið landið í samræmi við fyrirmæli fyrri úrlausnar, og kveðst hafa upplýst Útlendingastofnun og kærunefnd um þann þátt málsins. Þá kveðst kærandi ósammála úrlausnum stjórnvalda um fjölskyldutengsl hans við meintan stjúpföður og auðkenni að öðru leyti. Kærandi krefst þess að ákvörðun um brottvísun verði felld úr gildi eða henni frestað með það fyrir augum að fá gögn um tengsl hans við stjúpföður staðfest af utanríkisþjónustu Pakistan. Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi einnig til lagaskilyrða og sjónarmiða sem gilda um brottvísanir aðstandenda EES-borgara auk reglna sem gilda um dvalarrétt einstaklinga í slíkri stöðu.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt samkvæmt 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, er nánar fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Þar segir í 1. mgr. að útlendingur sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem sé undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingur hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknast dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Samkvæmt 13. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017 skal miða við dagsetningu er fram kemur á komustimpli í ferðaskilríkjum við mat á lengd dvalar útlendings, sem hvorki er EES- eða EFTA-borgari, á Schengen-svæðinu. Nú hafa ferðaskilríki hans ekki að geyma komustimpil og skal þá miðað við að handhafi þeirra hafi ekki gætt skilyrða um lengd dvalar og er heimilt að vísa honum brott í samræmi við ákvæði laga um útlendinga og reglugerðar um útlendinga. Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef útlendingur leggur fram gögn sem með trúverðugum hætti sýna fram á að hann hafi virt skilyrði um lengd dvalar.

Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga kemur fram að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um fjölskyldutengsl kæranda, sem og stöðu hans á Ítalíu og greindi Útlendingastofnun frá því að kærandi hefði heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga. Fram kom í ákvörðun stofnunarinnar að undir venjulegum kringumstæðum hefðu aðstandendur EES- og EFTA-borgara heimild til dvalar umfram þrjá mánuði, á meðan umsókn þeirra um dvalarrétt væri til meðferðar. Í tilfelli kæranda ætti það þó ekki við þar sem stjórnvöld hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kærandi nyti ekki réttar til dvalar á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga. Þá hafi stofnunin jafnframt vísað til þess að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hafa yfirgefið landið í kjölfar úrskurðar kærunefndar nr. 108/2024, dags. 14. febrúar 2024.

Með hliðsjón af framansögðu og áðurnefndum úrskurði kærunefndar liggur fyrir að kærandi nýtur ekki dvalarréttar hér á landi sem aðstandandi EES-borgara. Verða málsástæður hans varðandi þau meintu fjölskyldutengsl ekki tekin til greina í máli þessu og gilda því ákvæði V. kafla laga um útlendinga, auk afleiddra réttarheimilda, um heimild hans til dvalar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kærandi ríkisborgari Pakistan og hefur dvalið á Ítalíu, svo sem rakið er í fyrri úrlausnum kærunefndar í hans málum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði kærandi dvalarleyfi í gildi á Ítalíu til 16. febrúar 2024. Þá hefur kærandi borið fyrir sig að hafa sótt um endurnýjun ítalska dvalarleyfisins, og að sú umsókn hafi verið til meðferðar hjá ítölskum stjórnvöldum. Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að hann hafði þegar yfirgefið Schengen-svæðið, fyrir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar, og vísað til tölvubréfa, dags. 15. febrúar 2024, sem eru meðal gagna málsins. Verður lagt til grundvallar að kærandi hafi yfirgefið landið til Ítalíu 10. janúar 2024.

Allt að einu liggur ekki fyrir hvenær kærandi kom til Íslands að nýju, en líkt og þegar hefur komið fram rann dvalarleyfi kæranda á Ítalíu út 16. febrúar 2024. Kærandi hefur borið fyrir sig að hafa heimild til dvalar á Schengen-svæðinu þar sem hann eigi umsókn um endurnýjun dvalarleyfis til meðferðar hjá ítölskum stjórnvöldum. Sú heimild er hins vegar bundin við Ítalíu og veitir kæranda ekki heimild til dvalar á Schengen-svæðinu utan Ítalíu, enda áskilur 10. tölul. viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022  að dvalarleyfi Schengen-ríkja séu bæði gild og viðurkennd til þess að viðkomandi sé unnt að dvelja án vegabréfsáritunar. Þar að auki er umrædd heimild ekki á lista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sbr. a-lið 1. mgr. 39. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 399/2016 um setningu bandalagsreglna um för fólks yfir landamæri.

Samkvæmt framansögðu hafði kærandi ekki dvalarleyfi í gildi eða vegabréfsáritun sem heimilaði honum landgöngu á Íslandi þegar lögregla hafði afskipti af honum 1. maí 2024, né hafði hann slíka heimild við síðari afskipti lögreglu og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Að framangreindu virtu var dvöl kæranda ólögmæt þegar lögregla hafði afskipti af honum samkvæmt því sem rakið var í málsatvikalýsingu. Þá var dvöl hans enn fremur ólögmæt þegar honum var birt tilkynning um hugsanlega brottvísun 15. ágúst 2024, og þegar Útlendingastofnun tók hina kærðu ákvörðun 13. september 2024.

Með vísan til framangreinds er skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga um brottvísun vegna ólögmætrar dvalar fullnægt í málinu, svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við. Líkt og þegar hefur verið áréttað fyrir kæranda hafa íslensk stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði byggt á hinum meintu fjölskyldutengslum, sem kærandi byggir rétt samkvæmt XI. kafla laga um útlendinga á. Þá hefur kærandi ekki önnur tengsl við landið sem komi í veg fyrir brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu eru lagaskilyrði 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga uppfyllt og er ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa kæranda því staðfest. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár. Að virtum málsatvikum og úrskurðaframkvæmd kærunefndar verður ákvörðun Útlendingastofnunar um endurkomubann einnig staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal að jafnaði veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Í hinni kærðu ákvörðun felldi Útlendingastofnun frest kæranda til sjálfviljugrar heimfarar niður þar sem hætta þótti að hann kæmi sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. a-lið 2. mgr. 104. gr., sbr. 3. mgr. 105. gr. laga um útlendinga. Því til stuðnings leit stofnunin til þess að kærandi hefði áður virt veittan frest samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga að vettugi. Að teknu tilliti til atvika málsins, forsendna Útlendingastofnunar, og fyrri mála kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum þar sem veittir frestir til að yfirgefa landið hafi verið virtir að vettugi verður einnig staðfest sú ákvörðun að fella niður frest kæranda til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. a-lið 2. mgr. 104. gr., og 3. mgr. 105. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif gagnvart einstaklingum sem dvelja með ólögmætum hætti.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir                                                 Vera Dögg Guðmundsdóttir


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta