Nr. 418/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 19. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 418/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22080002
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 2. ágúst 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. útl.
Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarástæðna skv. 1. mgr. 74. gr. útl.
Til þrautavara er þess krafist að brottvísun og endurkomubann kæranda, sbr. 2. tl. b-liðar 2. mgr. 98. gr. og b-lið 2. mgr. 104. gr. útl., í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar verði fellt úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 22. júní 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun dagana 30. júní og 11. júlí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, 11. júlí 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 2. ágúst 2022. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 28. júlí 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 10. ágúst 2022.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi ekki fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun 11. júlí 2022 hafi hann greint frá því að hafa flúið heimaríki sitt í kjölfar útboðs sem hann hafi tekið þátt í 21. febrúar 2021. Hafi fyrirtæki kæranda boðið í verkefni sem hafi snúið að sótthreinsun á sjúkrabifreiðum opinberra aðila. Eftir útboðið hafi kærandi byrjað að fá hótanir frá óþekktum einstaklingum sem hafi tilkynnt honum að fyrirtæki hans yrði lokað ef hann myndi ekki fallast á kröfur þeirra. Í framhaldi af þessu hafi rekstur fyrirtækisins byrjað að ganga illa. Þá hafi kærandi byrjað að fá hótanir frá formanni sjúkrabílafélags þess efnis að hann þyrfti að greiða sektir. Einnig hafi kærandi þurft að greiða lögreglunni mánaðarlegar greiðslur vegna öryggis síns. Kvaðst kærandi meðal annars hafa þurft að greiða afborganir af bílaláni lögreglumanns. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi á lögreglustöð þar sem hann hafi verið laminn í höfuðið með einhvers konar stálvopni. Þá hafi kærandi einnig átt í útistöðum við glæpamenn í heimaríki sínu sem hann telji að séu tengdir lögreglunni. Kærandi hafi hvorki leitað til lögreglu né annarra yfirvalda í heimaríki þar sem hann telji það vera lögregluna sem hafi hótað sér.
Í greinargerð kæranda er almenn umfjöllun um aðstæður í Georgíu. Helstu vandamál tengd mannréttindum þar í landi séu m.a. spilling yfirvalda, verulegir annmarkar á réttarkerfinu og ófullnægjandi kerfi til að takast á við meinta misnotkun lögreglumanna á valdi sínu. Þá sé réttur sakborninga fyrir dómstólum ekki tryggður með fullnægjandi hætti og dómarar séu oft viðkvæmir fyrir pólitískum áhrifum þegar þeir dæmi í málum sem tengist ríkisstjórninni.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lýst því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu bæði glæpagengis og lögreglu vegna fyrirtækis sem sé í hans eigu. Kærandi telur að óraunhæft sé fyrir hann að leita aðstoðar lögreglu þar sem slíkt myndi hafa slæmar afleiðingar fyrir hann. Ef lögreglan myndi handtaka þá menn sem hann óttist þá myndu aðrir úr glæpahóp þeirra halda áfram ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi gegn honum. Einnig telur kærandi ekki raunhæft að ætlast til þess að lögreglan rannsaki sig sjálf. Vernd lögreglu sé því ekki raunhæf að mati kæranda. Þá vísar kærandi til þess að eftir að honum hafi verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar í máli sínu þá hafi honum borist hótanir frá Georgíu, og lagði hann fram skjáskot af þeim með greinargerð sinni til kærunefndar. Þessar hótanir sýni með skýrum hætti að raunhæf hætta sé á að kærandi verði beittur ofbeldi og jafnvel að líf hans verði í hættu verði hann sendur aftur til heimaríkis.
Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af framangreindu sé í fyrsta lagi ekki ljóst að grundvallarmannréttindi kæranda verði tryggð í heimaríki og hafi hann lýst þeirri miklu lífshættu sem hann sé í. Í öðru lagi séu almennar félagslegar aðstæður kæranda mjög erfiðar vegna þeirra deilna sem hann eigi í við áhrifamikla menn í heimríki og áreiti sem hann hafi þurft að þola af hálfu lögreglumanna. Í þriðja lagi sé ljóst að lögreglan muni ekki veita kæranda vernd fyrir mögulegum hótunum og ofbeldi. Kærandi telur að nauðsynlegt sé að heildarmat fari fram á aðstæðum hans. Með hliðsjón af framangreindu telur kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt verði ekki fallist á aðalkröfu hans.
Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Framangreind krafa er byggð á því að ljóst sé að umsókn kæranda uppfylli ekki skilyrði laganna um að teljast bersýnileg tilhæfulaus þar sem Útlendingastofnun hafi ekki getað birt honum ákvörðun strax heldur hafi þurft að skoða málsástæður hans betur og fara yfir gögn sem hann hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Kærandi vill benda sérstaklega á það að hann sé að flýja lífshættu í heimaríki. Kærandi hafi ekki viljað afturkalla umsókn sína um alþjóðlega vernd þar sem hann hafi ekki getað hugsað sér að snúa aftur til heimaríkis af ótta við að lenda í lífshættu þar. Kærandi telur að með því að refsa honum með þessum hætti og binda hann þar af leiðandi við búsetu utan Shengen-svæðisins án möguleika til þess að flýja framangreinda lífshættu muni reynast honum mjög þungbært. Þá telur kærandi að slík refsing, í ljósi aðstæðna í máli hans, samræmist ekki meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig þurfi að hafa í huga að kærandi hafi gilda vegabréfsáritun til Frakklands sem geri honum kleift að komast inn á Shengen-svæðið. Að mati kæranda heimili íslensk lög ekki stofnunum ríkisins að fella úr gildi ákvarðanir erlendra stofnana. Kærandi telur að með tilliti til framangreinds sé ekki ljóst hvernig Útlendingastofnun hyggist banna honum endurkomu á Shengen-svæðið.
Þá telur kærandi að á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga hafi Útlendingastofnun verið óheimilt að ákvarða um brottvísun hans. Að mati kæranda hafi verið um óeðlilega og ósanngjarna ráðstöfun að ræða gagnvart honum miðað við atvik í hans máli. Kærandi telur að þar sem óheimilt hafi verið að beita brottvísun í hans máli, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga beri að fella ákvörðun Útlendingastofnun hvað varði brottvísun og endurkomubann úr gildi.
Jafnframt telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann hans sé í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt ákvæðinu skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærandi telur að af rökstuðningi í ákvörðun Útlendingastofnunar að dæma virðist sem ákvörðun stofnunarinnar um endurkomubann á hendur honum hafi ekki tengst atvikum í máli hans heldur hafi hún verið hluti af því markmiði stjórnvalda að sporna gegn komu fólks til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd. Ekki verði séð að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar um endurkomubann tekið tillit til hagsmuna og réttinda kæranda líkt og áskilið sé. Kærandi telur ljóst að völ hefði verið á fleiri úrræðum til að ná framangreindu markmiði sem jafnframt gætu talist vægari í hans garð. Sem dæmi hafi Útlendingastofnun haft heimild til að veita kæranda styttri frest en sjö daga, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga í stað þess að veita honum engan frest, með vísan til sömu málsgreinar. Hefði Útlendingastofnun farið þá leið þá hefði ekki komið til endurkomubanns, sbr. b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá þurfi að hafa í huga að kærandi hafi verið tilbúinn til að kaupa eigin miða og yfirgefa landið sem fyrst og hafi hann lýst þeim vilja sínum í samskiptum við Útlendingastofnun og talsmann sinn. Kærandi telur að teknu tilliti til sanngirnis, hagsmuna hans og framangreinds markmiðs að hefði mátt því markmiði án þess að synja kæranda um slíkan frest. Með vísan til framangreinds telur kæranda að ekki hafi verið gætt að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við töku hinnar kærðu ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann. Sé ákvörðunin því haldin þeim annmörkum að fella beri hana úr gildi hvað þetta varðar.
Að lokum telur kærandi að að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Kærandi bendir á að þrátt fyrir 29. gr. laga um útlendinga um heimild til að notast við lista yfir svonefnd „örugg upprunaríki“, séu framangreindar rannsóknarreglur í fullu gildi í málum einstaklinga sem koma frá slíkum ríkjum. Í máli kæranda hafi ákvörðun í máli hans verið birt honum tveimur dögum eftir viðtal hans hjá Útlendingastofnun. Fái kærandi ekki annað séð en að allur texti ákvörðunarinnar hafi verið skrifaður áður en viðtal hans hafi hafist.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað georgísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé georgískur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Georgíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
-
Amnesty International Report 2021/2022: Georgia (Amnesty International, 29. mars 2022);
-
Country Reports on Human Rights Practices for 2021 – Georgia (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
-
Georgia 2021 Crime and Safety Report (OSAC, uppfært 18. nóvember 2021);
-
Freedom in the World 2021 – Georgia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
-
Nations in Transit 2021 – Georgia (Freedom House, 21. apríl 2022);
-
Temarapport: Georgien – Rätts- och säkerhetssektorn (Lifos, 3. október 2017);
-
The Situation in Human Rights and Freedoms in Georgia 2021 (Public Defender (Ombudsman) of Georgia, 31. mars 2022);
-
World Report 2022 – Georgia (Human Rights Watch, 13. janúar 2022) og
-
Georgia Country Report (Bartelsmann Stiftung (BTI), 2022)
Georgía er lýðræðisríki með um 3,9 milljónir íbúa. Georgía gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Georgía gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 9. ágúst 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 3. ágúst 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu 8. júlí 2005. Hinn 1. júlí 2016 gekk í gildi samstarfssamningur milli Evrópusambandsins og Georgíu. Með þeim samningi hefur Georgía meðal annars skuldbundið sig til að efna víðtækar skuldbindingar á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Hinn 19. júlí 2017 setti Útlendingastofnun Georgíu á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.
Í framangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá Georgíu kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Þá sjái tvær stofnanir aðallega um löggæslu og að halda uppi allsherjarreglu í Georgíu, þ.e. innanríkisráðuneytið og öryggissveitir ríkisins. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 hafi stjórnvöld skilvirka stjórn á innanríkisráðuneytinu, öryggissveitum ríkisins, varnarmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem hafi vald til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun og spillingu. Þá komi fram í framangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í georgíska stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum. Stjórnvöldum beri að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og þeir aðilar sem telji brotið á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi hefur borið fyrir sig að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Georgíu. Hann óttist bæði ofsóknir lögreglu og glæpasamtaka. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki að upphafið að vandræðum hans hafi verið útboð á vegum yfirvalda sem fyrirtæki hans hafi tekið þátt í 21. febrúar 2021. Fyrirtæki hans hafi ekki fengið samninginn en í kjölfarið hafi fyrirtækið lent í ýmis konar erfiðleikum, meðal annars hafi fyrirtæki sem hann hafi verið að þjónusta krafið hann um að borga sektir fyrir að hafa ekki uppfyllt samningsskyldur. Í viðtalinu kemur fram að næsta atvik hafi átt sér stað í 5. maí 2022, tæpu ári síðar, en þá hafi hann verið færður af mönnum með lögreglumerki á lögreglustöð og þar hafi hann verið laminn með stálvopni í höfuðið. Hafi kærandi jafnframt verið neyddur til að borga af bílaláni lögreglumanns. Daginn eftir að kærandi hafi verið tekinn niður á lögreglustöð hafi verið hringt í hann úr einhverju númeri og honum sagt að borga 4500 dollara. Kærandi hafi náð að borga þá upphæð og „þeir“ hafi sagt honum að hann gæti sofið rólega. Hinn 9. júní 2022 hafi menn sem hann teldi vera glæpamenn komið að honum, kallað hann Armeníubúa og sagt að hann væri í vandræðum í tengslum við undirheimana og síðan hafi þeir lamið hann. Næsta dag hafi kærandi selt bifreið sína og farið frá Georgíu. Kærandi kvaðst aðspurður ekki hafa leitað til lögreglu þar sem hún væri á móti sér.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin dragi ekki í efa að kærandi hafi orðið fyrir hótunum og ofbeldi í heimaríki sínu. Kærandi hafi hins vegar ekki lagt fram gögn sem sýna það með óyggjandi hætti að það hafi verið lögreglan eða önnur stjórnvöld í heimaríki sem hafi staðið á bakvið umræddar hótanir. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn til sönnunar þeirri málsástæðu að hann hafi orðið fyrir hótunum og ofbeldi af hálfu glæpagengis sem hann telji að sé í tengslum við lögregluna. Þá væri ljóst af upplýsingum um aðstæður í Georgíu að kæranda stæði til boða aðstoð og vernd lögreglu óskaði hann á annað borð eftir slíkri aðstoð.
Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings málabúnaði sínum, svo sem myndskeið af bifreið í útaf akstri og mynd af skemmdum á bifreið kæranda og annarri bifreið er hann kvað í eigu föður manns að nafni [...] sem eigi fyrirtæki sem selji þjónustu og vörur til lögreglunnar. Þá er meðal gagnanna skjal sem ber með sér að vera staðfesting á eignarhaldi fyrirtækis að nafni BL Group og sé eigandi fyrirtækisins umræddur [...]. Þá er einnig meðal gagnanna útboðslýsing sem fyrirtæki í eigu kæranda hafi tekið þátt í. Jafnframt er afrit af skjali sem kærandi kveður sýna fram á að hann hafi greitt fyrir bílalán lögreglumanns að nafni [...]. Kærandi kvaðst aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun ekki eiga frumrit af framangreindum skjölum þar sem hann haldi að hann hafi hent þeim en hann hafi tekið myndir af þeim áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. Kærandi lagði jafnframt fram ljósmyndir sem hann kvað sýna skemmdarverk sem hafi verið framin á fyrirtækjabifreiðum hans. Kærandi kvaðst ekki vita hverjir hefðu framið umrædd skemmdarverk.
Að mati kærunefndar renna framlögð gögn stoðum undir þann framburð kæranda að hann hafi verið eigandi að fyrirtæki sem hafi tekið þátt í útboði í mars 2021. Framlagðar myndir og skjöl leggja hins vegar ekki grunn að þeirri málsástæðu að lögreglan eða aðilar með tengsl við yfirvöld í Georgíu hafi hótað honum eða krafið hann um peningagreiðslur. Þá eru framlögð skjáskot af skilaboðum að mati kærunefndar ekki til þess fallin að leggja frekari grunn að framangreindri málsástæðu. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki vita hvaða einstaklingar það eru sem hann óttist og var afar óljós í svörum sínum um þá aðila sem hann teldi sér stafa ógn af í heimaríki þrátt fyrir að hafa verið spurður ítrekað út í það í viðtali hjá Útlendingastofnun. Á grundvelli heildarmats á framburði kæranda, framlögðum gögnum og öðrum gögnum málsins telur kærunefnd að frásögn kæranda hvað varðar það að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu lögreglumanna og/eða aðila með tengsl við yfirvöld og sé af þeim sökum ómögulegt að leita aðstoðar yfirvalda sé ótrúverðug með öllu og verður því ekki lögð til grundvallar í málinu.
Kærunefnd telur þó ekki ástæður til að draga í efa að kærandi hafi mögulega lent í einhverjum útistöðum í heimaríki sínu við ótilgreinda einstaklinga og hafi orðið fyrir hótunum vegna þess. Ber frásögn kæranda einnig þess merki að fyrirtækjarekstur hans hafi ekki gengið sem skyldi en kærandi hefur ekki lagt grunn að þeirri staðhæfingu að það hafi verið að undirlagi yfirvalda eða fyrirtækis með tengsl við yfirvöld.
Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki og eigi ekki á hættu að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda í Georgíu. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Georgíu benda til þess að almennt geti borgarar landsins sem telji að á réttindum sínum hafi verið brotið leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Georgíu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og umboðsmanns. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík þó svo að úrbóta sé enn þörf að mati umboðsmanns (e. Public Defender (Ombudsman) of Georgia) og frjálsra félagasamtaka í landinu.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hefði verið greindur með blandaða persónuleikaröskun og þá hefði hann glímt við óreglulegan hjartslátt. Kærandi hafi fengið lyf við framangreindum kvillum í heimaríki. Af skýrslum um heimaríki kæranda má ráða að þurfi kærandi á heilbrigðisþjónustu að halda sé slík þjónusta aðgengileg þar, líkt og hann hafi greint sjálfur frá. Þá er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt sé að rjúfa.
Í greinargerð kæranda er krafa hans um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða byggð á því að ekki sé ljóst að grundvallarmannréttindi kæranda verði tryggð í heimaríki en hann hafi lýst þeirri miklu lífshættu sem hann sé í. Þá séu almennar félagslegar aðstæður kæranda mjög erfiðar vegna þeirra deilna sem hann eigi í við áhrifamikla menn í heimríki og áreiti sem hann hafi þurft að þola af hálfu lögreglumanna. Kærandi telji ljóst að lögreglan muni ekki veita honum vernd fyrir mögulegum hótunum og ofbeldi. Með vísan til trúverðugleikamats kærunefndar á frásögn kæranda og framangreindra upplýsinga um aðstæður í Georgíu er það mat nefndarinnar félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.
Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:
a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,
b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og
c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.
Kærandi byggir á því að hann hafi sætt ofsóknum í heimaríki af hálfu lögreglu, aðila með tengsl við lögreglu og annarra ótilgreindra einstaklinga. Það var mat kærunefndar að gögn þau sem kærandi lagði fram legðu ekki grunn að frásögn hans um ofsóknir í hans garð af hálfu lögreglu eða aðila með tengsl við yfirvöld. Kærunefnd dró hins vegar ekki í efa að hann hafi lent í útistöðum við einhverja ótilgreinda einstaklinga í heimaríki sínu. Líkt og fram hefur komið er það mat kærunefndar að borgarar Georgíu sem telji á sínum sé brotið geti leitað sér aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Georgíu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda og aðstæður hans þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hans vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda væru ekki þess eðlis eða næðu því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.
Að mati kærunefndar eru líkur á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þetta mat. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kæranda verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið.
Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt hafi verið að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Gögn bera með sér að kærandi hafi komið hingað til lands 21. júní 2022 og sótt um alþjóðlega vernd sama dag. Kærandi kvaðst óttast ofsóknir í heimaríki sínu. Þá mótmælti hann hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni. Þrátt fyrir mótmæli kæranda þá er það mat kærunefndar með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í Georgíu að góð trú kæranda um réttmæti umsóknar hans um vernd vegi ekki nægilega þungt til að talið verði að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 11. júlí 2022 var kærandi spurður út í sérstök tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki og kvaðst kærandi ekki hafa slík tengsl. Að framangreindu virtu verður ekki séð að brottvísun og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því staðfest.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Kærandi telur þá að Útlendingastofnun hafi ekki fylgt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þegar ákvörðun í máli hans var tekin skömmu eftir viðtal. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
f.h. kærunefndar útlendingamála
Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður