Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 536/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 536/2022

Miðvikudaginn 18. janúar 2023

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. ágúst 2022 um stöðvun umönnunargreiðslna vegna sonar hennar B, frá 1. september 2022. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur fengið umönnunargreiðslur með syni sínum frá 1. ágúst 2019. Í kjölfar umsóknar föður drengsins, dags. 12. ágúst 2022, um umönnunargreiðslur var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. ágúst 2022, um stöðvun greiðslna frá 1. september 2022 á þeim forsendum að sonur hennar væri ekki búsettur hjá henni. Kærandi andmælti framangreindri ákvörðun 22. ágúst 2022 sem var svarað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. september 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. desember 2022. Viðbótargögn og athugasemdir bárust frá kæranda 1. og 8. desember 2022 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 5. og 9. desember 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að í bréfi frá Tryggingastofnun 17. ágúst 2022 hafi henni verið tilkynnt að fella ætti niður umönnunarbætur til hennar vegna sonar hennar þar sem hann byggi ekki hjá henni lengur. Í umbeðnum rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun komi fram að stofnunin líti svo á að sá sem standi straum af meginútgjöldum vegna umönnunar barns teljist framfærandi þess í skilningi 1. mgr. 4 gr. laga um félagslega aðstoð.

Í beiðni kæranda um rökstuðning hafi hún rökstutt að það sé hún sem standi straum af meginútgjöldum drengsins. Kærandi borgi skólagjöldin, láti hann fá vasapening, borgi síma og tryggingar fyrir hann ásamt því að borga lyfin hans. Að auki telji kærandi að hún beri aðalþungann af tilfinnanlegum útgjöldum þar sem hún hafi reynt að fá drenginn til þátttöku á PEERS námskeiði í fimm vikur og hafi sjálf mætt samviskusamlega en hann hafi komið einu sinni en hafi svo viljað hætta. Aldrei hafi komið neinn stuðningur eða hvatning frá föður. Að auki hafi kærandi nýlokið foreldranámskeiði hjá BUGL, hún hafi verið í sambandi við C vegna lélegrar mætingar drengsins og hafi reynt að fá hann til þess að fara til námsráðgjafa sem hún hafi verið í sambandi við. Kærandi hafi einnig pantað bílpróf fyrir drenginn og hafi reynt að hvetja hann til þess að klára það nám. Faðirinn hafi ekki einu sinni sótt um æfingaakstur svo að hann gæti æft sig að keyra.

Máli sínu til stuðnings hafi Tryggingastofnun bent á 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili en til að svara því sé bent á 4. gr. sömu laga sem sé svohljóðandi:

„Leiki vafi á því hvar föst búseta einstaklings er, t.d. vegna þess að hann býr á fleiri en einum stað og í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs.“

Eins og kærandi hafi tekið fram í bréfi til Tryggingastofnunar sé sonur hennar tímabundið til reynslu hjá föður sínum á D. Hann hafi dvalið hjá henni í sex mánuði á þessu ári og auk þess 12 mánuði á ári öll hin árin. Þessi dvöl hjá föður hafi ekki gengið vel af ýmsum ástæðum og muni drengurinn flytja aftur til kæranda í lok annar. Eins og greint hafi verið frá áður hafi drengurinn flutt [..] til föður síns 15. ágúst 2022. Frá 16. september 2022 hafi faðir hans ekki búið á því heimili sem drengurinn hafi flutt á heldur búi hann hjá […] og drengurinn sé ekki í umsjón hans. Kærandi sé mjög þakklát f[…] barnsföður síns fyrir að leyfa drengnum að dvelja þar áfram, þrátt fyrir […] því að syni hennar líði ágætlega þar. Kærandi hafi boðið henni að borga leigu fyrir soninn þar en hún hafi ekki viljað þiggja það að svo stöddu. Að öllu óbreyttu muni drengurinn flytja […] um miðjan desember 2022.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun á umönnunargreiðslum með syni kæranda frá 17. ágúst 2022.

Í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfæranda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig komi fram að heimilt sé að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna þegar um alvarleg þroskafrávik sé að ræða, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna sé nánar fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að heimilt sé að veita framfærendum fatlaðra og langveikra barna aðstoð frá Tryggingastofnun ef sjúkdómur eða andlega eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig sé heimilt að veita aðstoð til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik og barna með hegðunarvandamál.

Á Tryggingastofnun hvíli rannsóknarskylda samkvæmt 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og eftirlitsskylda samkvæmt 45. gr. sömu laga, en þar segi að stofnunin skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á og að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir séu upp í 43. gr. laganna og nauðsynleg séu til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi notið umönnunargreiðslna frá 1. október 2019 vegna umönnunar sonar hennar. Með bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 17. ágúst 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun á umönnunargreiðslum þar sem sonur hennar byggi ekki lengur hjá henni og jafnframt hafi henni verið veittur frestur til 31. ágúst 2022 til að koma að rökstuddum andmælum ásamt göngum sem sýndu fram á að sonur hennar byggi enn hjá henni. Kæranda hafi enn fremur verið tilkynnt að bærust engin andmæli yrði litið svo á að viðkomandi uppfyllti ekki lengur skilyrði fyrir umönnunargreiðslum frá 1. september 2022.

Tryggingastofnun hafi einnig sent kæranda bréf, dags. 14. september 2022, varðandi andmæli við stöðvun á umönnunargreiðslum. Þar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra eða langveikra barna, sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig komi fram í áðurnefndu bréfi að Tryggingastofnun líti svo á að sá sem standi straum af meginútgjöldum vegna umönnunar barns teljist framfærandi þess í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga, um félagslega aðstoð. Ef barn búi ekki hjá báðum foreldrum sé jafnan gengið út frá því að það foreldri, sem viðkomandi barn sé með lögheimili hjá, sé framfærandi þess, nema gögn sýni fram á annað. Fram komi að hjá Tryggingastofnun séu gögn sem sýni fram á að sonur kæranda sé búsettur hjá föður sínum og einnig hafi kærandi staðfest það. Tryggingastofnun líti því svo á að sonur hennar hafi í raun fasta búsetu og aðsetur hjá föður sínum þó svo að lögheimili sé enn skráð hjá móður. Þar sem bæði upplýsingar í kæru og yfirlýsing frá syni hennar um að hann sé ekki lengur búsettur hjá móður sinni, auk umsóknar frá föður um umönnunargreiðslur, sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda áfram umönnunargreiðslur með syni hennar. Stöðvun greiðslna standi því óbreytt.

Tryggingastofnun taki einnig fram að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að með heimahúsi og heimili í 4. gr. laga um félagslega aðstoð sé átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. 

Umönnunargreiðslur séu fyrst og fremst hugsaðar til þess að koma til móts við foreldra vegna umönnunar og kostnaðar sem hljótist af meðferð og þjálfun barns umfram það sem eðlilegt geti talist. Umönnunargreiðslum sé ekki ætlað að koma til móts við tekjutap foreldra heldur sé þeim ætlað frekar að styðja við foreldra vegna aukinnar umönnunar og kostnaðar vegna þjálfunar og meðferðar sem hljótist af vanda barnsins.

Í umsókn um umönnunargreiðslur, dags 12. ágúst 2022, komi fram að sonur kæranda sé að flytja til föður og hefja nám í C í ágúst 2022. Einnig hafi verið óskað eftir því í umsókn að umönnunargreiðslur bærust til föður drengsins. Þessu til staðfestingar hafi með umsókn fylgt staðfesting á skólavist í C, auk yfirlýsingar frá syni kæranda um flutning til föður.

Miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að sonur kæranda sé í dag ekki búsettur hjá henni heldur sé hann búsettur hjá föður sínum sem teljist framfærandi barnsins í skilningi 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Hjá Tryggingastofnun liggi einnig fyrir vottorð frá E barna- og unglingageðlækni um að sonur kæranda sé í reglubundnu eftirliti hjá henni. Í vottorði komi einnig fram að sonur kæranda hafi síðast komið í fjarviðtal hjá henni 16. ágúst 2022 þar sem hann hafi verið staddur á D. 

Af þeim gögnum, sem fyrir liggja í máli þessu, telji Tryggingastofnun að ekki séu lengur til staðar þau skilyrði sem heimili áframhaldandi greiðslur vegna umönnunar sonar kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda frá 1. september 2022.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. nefndrar 4. gr. segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 4. mgr. 4. gr. laganna segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Nánar er fjallað um umönnunargreiðslur í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Fyrir liggur að kærandi þáði umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun með syni sínum frá 1. ágúst 2019 til 31. ágúst 2022. Lögheimili sonar kæranda er skráð hjá kæranda. Faðir sonar kæranda sótti um umönnunargreiðslur með syni þeirra frá 1. september 2022. Ekki er ágreiningur í málinu um að sonur kæranda hefur verið búsettur á D frá september 2022 þar sem hann hefur gengið í skóla. Kærandi byggir á því að þrátt fyrir búsetu sonar síns á D hafi hún staðið undir framfærslu drengsins þar sem hún hafi meðal annars greitt lyf fyrir hann, skólagjöld, tryggingar og síma og láti hann fá vasapeninga. Þá greinir kærandi frá því að faðir drengsins hafi flutt af heimili því sem drengurinn búi á.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 504/1997 er Tryggingastofnun heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003 eru báðir foreldrar barns framfærsluskyldir. Aftur á móti segir svo í 56. gr. barnalaga:

„Sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns getur krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barn búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan.“

Með hliðsjón af framangreindu er gert ráð fyrir, ef barn býr ekki hjá báðum foreldrum sínum og forsjá er sameiginleg, að einungis sá einstaklingur sem barn býr hjá samkvæmt lögmætri skipan sjái um almenna framfærslu þess og foreldri sem barn býr ekki hjá sinni framfærsluskyldu sinni með því að inna af hendi meðlag.

Við mat á því hvernig túlka beri hugtakið framfærandi í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð telur úrskurðarnefndin rétt að líta til tilgangs umönnunargreiðslna. Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af 4. gr. laganna að tilgangurinn með umönnunargreiðslum sé að mæta kostnaði vegna umönnunar og aukinni umönnunarþyngd.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með heimahúsi og heimili í 4. gr. laganna sé átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í ljósi þess sem að framan greinir telur úrskurðarnefnd velferðarmála að einungis sá, sem stendur í straum af meginútgjöldum vegna umönnunar barns, teljist framfærandi þess í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Ef barn býr ekki hjá báðum foreldrum sínum má jafnan ganga út frá því að það foreldri, sem viðkomandi barn er með lögheimili hjá, sé framfærandi þess. Ekki er deilt um það að þrátt fyrir að sonur kæranda sé með skráð lögheimili hjá henni sé hann ekki búsettur hjá kæranda heldur á D þar sem að hann gangi í skóla. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að sonur kæranda hafi í raun verið með fasta búsetu hjá föður frá því í ágúst 2022, þ.e. lögheimili í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd að framangreind skilyrði umönnunargreiðslna til móður hafi ekki verið uppfyllt frá ágúst 2022 þegar sonur kæranda flutti til D.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun umönnunargreiðslna til kæranda frá 1. september 2022.

Í kæru kemur fram að sonur kæranda muni að öllu óbreyttu flytja aftur til hennar um miðjan desember 2022. Með hliðsjón af því er kæranda bent á að hún geti sótt um umönnunargreiðslur að nýju ef aðstæður breytast.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun umönnunargreiðslna til A, frá 1. september 2022, vegna B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum