Hoppa yfir valmynd
2. maí 2018 Matvælaráðuneytið

Vinna hafin við mótun nýsköpunarstefnu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, lagði á síðasta ríkisstjórnarfundi fram tillögu að gerð heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Kveðið er á um mótun stefnunnar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og er hún nú formlega hafin. 

Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Í ljósi þessa er nú að fara af stað vinna við  mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 og verður hún unnin í víðtæku samstarfi stjórnvalda, atvinnulífs og vísinda- og menntasamfélags.

Fjórða iðnbyltingin er hafin og það er fyrirséð að á næstu árum mun stafræn tækni og sjálfvirkni umbylta atvinnugreinum, hagkerfi, velferð og menntun. Í þessu felast ómæld tækifæri til róttækra breytinga, framfara og aukinna lífsgæða. Að sama skapi  geta þær þjóðir sem ekki ná að hagnýta sér þessar breytingar átt á hættu að dragast verulega aftur úr.

Því er mikilvægt að stefna og aðgerðir stjórnvalda á sviði nýsköpunar stuðli að tækniþróun í sátt við þarfir samfélags og umhverfis. Ísland hefur möguleika á að vera meðal fremstu þjóða í þeirri þróun sem framundan er. Stuttar boðleiðir, hátt menntunarstig, fjarskiptainnviðir og vilji til að takast á við breytingar er góður grunnur fyrir þá vegferð. Á sviði umhverfismála gegnir nýsköpun þýðingarmiklu hlutverki fyrir þau markmið sem sett hafa verið í loftslagsmálum sem og í markmiðum um grænar lausnir. Þá er nýsköpun í opinberri þjónustu, menntamálum og heilbrigðismálum, forsenda bættra lífskjara í heimi tæknibreytinga.

Verkefnið mun byggja á starfi fimm faghópa sem fjalla um eftirfarandi málaflokka.

  1. Nýsköpun í þágu þróunar atvinnulífsins, þ.m.t. matvælaframleiðslu, heilbrigðistækni og menntamála.
  2. Skipulagning stuðningskerfis nýsköpunar, þ.m.t. styrkjakerfi rannsókna og þróunar og stuðningur við sprotafyrirtæki.
  3. Nýsköpun í þágu umhverfisvænna lausna, þ.m.t. orku– og loftslagsmála.
  4. Nýsköpun í opinberum rekstri og einföldun regluverks.
  5. Nýsköpun í heilbrigðismálum og velferðarþjónustu.

Sérstök verkefnastjórn mun halda utan um stefnumótunarvinnuna og verður hún skipuð verkefnisstjórum verkefnanna fimm, auk formanns verkefnisstjórnar sem ráðherra nýsköpunarmála skipar.

Heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland skal liggja fyrir í síðasta lagi 1. maí 2019

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir: „Sagan kennir okkur að í löndum sem eru fljót að tileinka sér nýja tækni og búa yfir öflugum mannauði eru lífskjör að jafnaði best. Það gerist hins vegar ekkert af sjálfu sér og öflug nýsköpun er algert lykilatriði til að tryggja að lífskjör á Íslandi verði áfram sambærileg við það sem best gerist í heiminum. Það er gríðarlega mikilvægt að Ísland dragist ekki aftur úr og nýti fljótt og vel tækifærin sem felast í aukinni nýsköpun. Ég hef væntingar um að gerð stefnunnar sem hér er lagt upp með muni með þverfaglegu samstarfi halda utan um alla þá ólíku anga sem nýsköpun verður að ná til svo að samfélagið í heild njóti góðs af. Við þurfum að vera óhrædd við að marka skýra stefnu og taka ákvarðanir til að ná háleitum markmiðum okkar.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum