Hoppa yfir valmynd
21. mars 2019 Matvælaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ferðaþjónustan svarar kallinu á íslensku

Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. - myndMynd: Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Samtök ferðaþjónustunnar hafa nú kynnt framtak undir yfirskriftinni „Orðin okkar á íslensku“ sem miðar að því að auka fræðslu til erlends starfsfólks um íslenskt mál.

Um er að ræða orðalista á íslensku, ensku og pólsku sem tengjast fjölbreyttum störfum í ferðaþjónustu. Markmið fagorðalistans er að efla samskipti og auka íslenskukunnáttu á vinnustöðum. Orðalistarnir eru aðgengilegir á vefnum og á veggspjöldum sem dreift verður til ferðaþjónustuaðila.

„Gott starfsfólk er lykilatriði fyrir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og góða upplifun ferðamanna. Orðalykillinn er mikilvægt tæki til að efla samskipti starfsfólks og því samhliða að auka ánægju þess og hæfni – og þar með gæði íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála.

Stjórnvöld hafa að undanförnu kynnt ýmsar aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu – þær snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

„Ferðaþjónustan er mikilvægur samstarfsaðili okkar á því sviði að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna – ég fagna þessu framtaki sem ég tel að muni bæta þjónustu og stuðla að betri samskiptum. Fyrr í vetur kynntum við vitundarvakningu undir merkjum slagorðsins Áfram íslenska. Það gleður mig að ferðaþjónustan svari kallinu og taki virkan þátt með þessum hætti. Jákvætt viðhorf til íslensku og aukin meðvitund skiptir sköpum svo aðrar aðgerðir okkar skili árangri, svo og aðgengilegt efni og fræðsla eins og þetta verkefni snýst um,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar aðstoðar fræðsluaðila og fyrirtæki við að koma á fræðslu og þjálfun í fyrirtækjum ferðaþjónustunnar. Það er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Fræðast má um starfsemi þess og verkefnið á síðunni www.hæfni.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum