Hoppa yfir valmynd
21. október 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 16/2020 - Úrskurður

Mál nr. 16/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B ehf.

 

Mismunun á grundvelli kyns. Endurráðning starfsmanna.

Hótel sagði upp fjölda starfsmanna vegna COVID-19 faraldursins. Vorið 2020 stóð til að endurráða hluta starfsfólks. Kona kærði þá ákvörðun hótelsins að bjóða henni ekki endurráðningu í starf næturvarðar gestamóttöku. Byggði kærandi á því að viðkomandi hótelstjóri vildi einungis hafa karlkyns næturverði. Hefði kæranda þannig verið mismunað á grundvelli kyns. Kærði hafnaði alfarið þessum málatilbúnaði kæranda. Í úrskurði kærunefndarinnar kom fram að kærði hefði lagt fyrir nefndina afrit ráðningarsamninga og tengd gögn vegna endurráðningar næturvarða. Af þeim gögnum yrði ráðið að þeir fimm einstaklingar sem hefðu verið endurráðnir hefðu allir starfað lengur hjá kærða en kærandi. Að mati kærunefndarinnar var málefnalegt af hálfu kærða að líta til hlutræns þáttar á borð við starfsaldur við endurráðningu starfsfólks. Frásögn kæranda af ummælum samstarfsfólks hennar um meint neikvætt viðhorf eins hótelstjóra kærða í garð kvenkyns næturvarða hróflaði ekki við þessari niðurstöðu. Taldi kærunefndin því að kæranda hefði ekki verið mismunað á grundvelli kyns við endurráðningu næturvarða vorið 2020.

 

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. október 2020 er tekið fyrir mál nr. 16/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 14. ágúst 2020, kærði A ákvörðun B ehf. um að bjóða henni ekki endurráðningu í starf næturvarðar gestamóttöku á hóteli kærða þar sem kærandi hafði áður starfað, en samkvæmt kæranda voru einungis karlar endurráðnir í kjölfar almennra uppsagna fyrr á árinu. Kærandi telur að með endurráðningunum hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. ágúst 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 25. ágúst 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 31. ágúst 2020. Í bréfinu kom fram að hefði kærandi athugasemdir varðandi greinargerð kærða væri óskað eftir því að þær bærust eigi síðar en 14. september 2020. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
 4. Þar sem í greinargerð kærða segir að uppsagnir fimm starfsmanna á næturvöktum í gestamóttöku hótela hans hefðu verið dregnar til baka og að við það hefði verið farið eftir starfsaldri óskaði kærunefndin eftir því með bréfi, dagsettu 2. september 2020, að kærði legði fram ráðningarsamninga umræddra fimm starfsmanna, sem og ráðningarsamning kæranda. Kærunefndinni barst bréf kærða, dagsett 14. september 2020, ásamt ráðingarsamningum fjögurra starfsmanna. Þá bárust ráðningarsamningar kæranda og fimmta starfsmannsins með tölvubréfi kærða, dagsettu 22. september 2020. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 22. september 2020, voru gögnin frá kærða send kæranda til kynningar.

   

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærandi starfaði sem næturvörður í gestamóttöku hótels í eigu kærða frá mars 2019 en vegna COVID-19 faraldursins var henni sagt upp störfum í lok apríl 2020 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Starfsmannafjöldi kærða, sem rekur […] hótel í Reykjavík, hefur almennt verið um […] en hann ákvað í ljósi aðstæðna að loka […] hótelum og segja upp rúmlega […] starfsmönnum. Tvö hótel voru síðar opnuð aftur og voru 35 uppsagnir dregnar til baka, þar á meðal uppsagnir fimm starfsmanna á næturvöktum í gestamóttöku. Hótelið sem kærandi starfaði á er eitt þeirra sem hefur verið opnað aftur en hún hlaut ekki endurráðningu. Kærandi segir að hótelstjórinn á því hóteli sem hún starfaði á hafi einungis viljað karlkyns starfsmenn á næturvaktir og því hafi karlkyns starfsmönnum sem hafi starfað á öðrum hótelum kærða verið boðið starf hennar þegar komið hafi til endurráðningar.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 6. Kærandi tekur fram að kærði hafi skilað jafnréttisáætlun til VR sem gildi frá apríl 2019 til mars 2020. Fyrir hönd kæranda hafi VR sent kærða bréf með beiðni um skýringar en því hafi ekki verið svarað. Kærði hafi bæði brotið þessa áætlun og brotið á kæranda á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 7. Kærandi hafi starfað sem næturvörður síðan í mars 2019 á C hóteli í fullu starfi. Á starfstímanum hafi henni aldrei verið sagt að hún sem kvenmaður gæti ekki sinnt þessu starfi.
 8. Vegna COVID-19 hafi kæranda verið sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti í apríl 2020 og hafi kærandi lokið störfum í lok júlí. Í maí 2020 hafi kærandi verið boðuð til hótelstjórans þar sem henni hafi verið sagt að hótelið væri að fara að opna aftur en að hún fengi ekki endurráðningu. Þegar kærandi hafi spurt hverjir myndu starfa áfram hafi hótelstjórinn ekki svarað því að öðru leyti en því að verið væri að hugsa málið.
 9. Kærandi hafi haft samband við samstarfsfólk sitt og hafi einn samstarfsmaður hennar sagt að ástæðan fyrir því að kærandi hafi ekki fengið endurráðningu væri sú að hótelstjórinn vildi aðeins hafa karlmenn á næturvöktum. Hótelstjórinn hefði sagt þetta við hann og aðra á fundi sem kærandi hafi ekki verið boðuð á og að hans sögn hafi hann ekki mátt segja neinum frá þessu, þ.e. það sem hótelstjórinn hefði sagt að hún vildi einungis karlmenn á næturvöktum. Síðar hafi kærandi hitt annan samstarfsmann sem hafi sagt henni það sama. Sá karlmaður sem hafi verið endurráðinn á næturvaktir hótelsins hafi áður starfað á öðru hóteli kærða.
 10. Ljóst sé að hótelstjórinn hafi ekki viljað segja það beint við kæranda að hún vildi aðeins ráða karlmenn á næturvaktir þar sem líklega hafi hún vitað að það mætti ekki lögum samkvæmt og því hafi hún sagt við kæranda að þau væru að hugsa málið. Samkvæmt ummælum fyrrum samstarfsmanna kæranda sé þó augljóst hvað hún hafi haft í huga og það staðfesti spjall hennar við fyrrum samstarfsmann sinn á „messenger“. Þar komi fram að sá samstarfsmaður hefði oft heyrt hótelstjórann tala um að það væri mun þægilegra að hafa karlmenn á næturvöktum.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 11. Kærði segir að hann reki […] hótel og starfsmannafjöldi þeirra hafi almennt verið um 250. Vegna COVID-19 faraldursins hafi kærði neyðst til að loka […] hótelum í Reykjavík og segja upp rúmlega […] starfsmönnum. Aðeins hafi náðst að draga 35 uppsagnir til baka og í dag séu […] hótel opin í Reykjavík. Af þeim uppsögnum sem hafi verið dregnar til baka séu fimm starfsmenn á næturvöktum í gestamóttöku hótelanna. Þegar uppsagnirnar hafi verið dregnar til baka hafi verið farið eftir starfsaldri þannig að starfsmenn með hæsta starfsaldurinn hafi haft forgang umfram aðra. Þeir fimm starfsmenn sem starfi á næturvöktum hafi allir lengri starfsaldur hjá kærða en kærandi.
 12. Að framansögðu virtu sé fullyrðingu um mismunun á grundvelli kynferðis hafnað og kæru vegna þess mótmælt.

   

  NIÐURSTAÐA

 13. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 14. Málsaðila greinir á um hvað bjó að baki þeirri ákvörðun kærða þegar endurráðnir voru fimm starfsmenn sem starfa á næturvöktum gestamóttöku á hóteli kærða, en eins og áður segir bauðst kæranda ekki slík endurráðning. Kærandi byggir á því að kærði hafi einungis viljað hafa karla á næturvöktum. Þó tekur hún fram í málatilbúnaði sínum að á starfstíma hennar hafi henni aldrei verið tjáð af yfirmanni sínum að hún gæti ekki sinnt því starfi sem hún gegndi á þeirri forsendu að hún væri kona. Málatilbúnað sinn reisir hún einkum á samtölum sem hún kveðst hafa átt við samstarfsfólk sitt um endurráðningarferlið. Kærði mótmælir þessu eindregið og byggir á því að þeir fimm einstaklingar sem hlutu endurráðningu í fyrrgreind störf, þ.e. fjórir karlar og ein kona, hafi öll starfað lengur hjá kærða en kærandi. Kærði byggir þannig á því að málaefnaleg sjónarmið, sem ekki tengist kynferði starfsmanna, búi að baki ákvörðun fyrirtækisins.
 15. Kærði hefur lagt fyrir nefndina afrit ráðningarsamninga og tengd gögn vegna umræddra fimm einstaklinga auk kæranda. Af þeim gögnum verður ráðið að þeir fimm einstaklingar höfðu í reynd starfað lengur hjá kærða en kærandi. Að mati kærunefndarinnar var málefnalegt af hálfu kærða að líta til hlutræns þáttar á borð við starfsaldur við endurráðningu starfsfólks. Frásögn kæranda af ummælum samstarfsfólks hennar um meint neikvætt viðhorf eins hótelstjóra kærða í garð kvenkyns næturvarða hróflar ekki við þessari niðurstöðu
 16. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 þegar kæranda var ekki boðin endurráðning hjá kærða vorið 2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B ehf., braut ekki gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar kæranda, A, var ekki boðin endurráðning hjá kærða vorið 2020.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira