Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2005 Forsætisráðuneytið

Árni Árnason

Opið bréf til Stjórnarskrárnefndar.

Þar sem nú stendur fyrir dyrum að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands get ég ekki látið hjá líða að benda á augljósa hluti sem þarf að taka til vandlegrar athugunar.

Stjórnarskrá okkar er hugsuð sem meginrammi um grundvallarréttindi og skyldur þegnanna, auk þess að marka stjórnvöldum svið, til þess að vinna á.

Grundvallarhugmyndir vísra manna og kvenna um réttlæti, jöfnuð og frelsi eru engar dægurflugur sem sífellt þarf að vera að endurskoða. Því þarf að vanda vel til verka þá sjaldan slík endurskoðun fer fram.

Í núgildandi stjórnarskrá er á köflum  gengið of langt í útfærslu framkvæmdaatriða sem draga dám af samfélagsmynd sem er ekki lengur til. Slík atriði hefðu betur verið komin í almennum lögum sem taka breytingum í takt við hraða þróun samfélagsins.

Mesti ljóðurinn á stjórnarskrá okkar eru þó 62. og 64. greinin.

Í þessum greinum eru ákvæði sem alls ekki eiga nokkurt erindi í stjórnarskrá.

Hvernig má það samrýmast stjórnarskrá lýðræðisríkis, sem vill kenna sig við réttlæti,

jöfnuð og frelsi, að þar séu ákvæði um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda ein trúarbrögð, eina kirkjudeild ?  Hverju sem menn trúa eða trúa ekki hlýtur að liggja í augum uppi að þetta stenst engin rök.  Þetta þótti, meira að segja á þeim tíma sem stjórnarskráin var samin, svo hæpið að talið var rétt að hnýta því aftan við að breyta mætti þessu með lögum. Í stjórnarskrá á ekkert heima sem breyta má með lögum.

Ég vek athygli á að í allri stjórnarskránni eru aðeins þrjú atriði talin svo léttvæg að breyta meigi þeim með lögum. Eitt þeirra er dagsetning samkomudags Alþingis, en hin tvö eru í ofannefndum greinum. Ekkert þeirra er þess verðugt að vera í stjórnarskrá.

Það sem menn telja sjálfsagt og óumbreytanlegt setja menn í stjórnarskrá, vegna þess að menn telja það eigi þar heima. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er þetta orðað svo snilldarlega:  “WE hold these Truths to be self-evident, ----“  (leturbreyting mín) . Gæta verður þess að snúa þessu ekki á haus og taka hluti sem sjálfsagða og óumbreytanlega af því að þeir hafa ratað á röngum forsendum inn í stjórnarskrána. Ákvæði eiga að fá sess í stjórnarskrá vegna þess að þau þykja sjálfsögð, en ákvæði verða ekki sjálfsögð fyrir það að þau standa í stjórnarskrá.

Hvernig rötuðu ákvæði um Evangeliska-Lútherska þjóðkirkju, og innheimtu gjalds af  fólki utan safnaða til Háskóla Íslands inn í stjórnarskrána?

Var það sjálfgefinn sannleiki ? Hvað voru margir prestar á Alþingi? Hverra hagsmuni var verið að vernda? Heldur virkilega einhver að marka eigi tekjustofna Háskóla í stjórnarskrá?  Getur nokkur maður ímyndað sér að nefnd sem gera ætti tillögur að tekjuöflun fyrir Háskólann myndi láta hvarfla að sér að innheimta til þess gjald af öllum sem ekki eru í trúarsöfnuði ? 

Er það sæmandi að gera ríkisféhirði lýðræðisríkis að rukkara fyrir trúfélög, og það í stjórnarskrá ?

 Hafi mönnum þótt það sæmandi skv. tíðaranda ársins 1944 að ríkisvaldið innheimti með sköttum sóknargjald og dreifði til trúarsafnaða, hversvegna þurfti þá að leggja líka “sóknargjald” á hina sem standa utan trúfélaga ?  Svarið við þessu er sláandi augljóst, en þar sem það er jafnframt “tabú” ætla ég að setja það á prent hérmeð.

Kirkjunnar menn, sem augljóslega höfðu allt of mikil áhrif á innihald stjórnarskrárinnar, og laga almennt, máttu ekki til þess hugsa að fólk gæti haft af því nokkurn minnsta fjárhagslegan ávinning að standa utan kirkjunnar. Með því að láta fólk greiða sóknargjald þó að það væri ekki tilheyrandi nokkurri sókn, var tekinn frá því sá kaleikur að geta lallað sér niður á Hagstofu, fyllt út eyðublað og sparað sér nokkur þúsund krónur á ári. Þeir sáu einnig ofsjónum yfir þeim sem þannig drægju sig út úr sýndarprósentunni stóru sem þeir flagga svo gjarna til að kría út meiri og meiri peninga úr sameiginlegum sjóðum okkar. 

Sömu hvatir liggja svo að baki því að einstaklingar eru sjálfvirkt skráðir af Hagstofu í trúfélag móður, en þurfa að sækja sérstaklega um inngöngu í Lions og Þjóðdansafélagið, og því hvernig í ósköpunum stjórnvöld komust upp með það að færa fólk óspurt og óafvitandi úr óháðum söfnuðum og trúfélögum í Þjóðkirkjuna, og það með augýsingu  frá Kirkjumálaráðuneytinu einni saman.

Ég tel því miður óvíst að stjórmálamenn dagsins í dag hafi kjark til að aðskilja að fullu ríki og kirkju þó svo að margkannaður vilji þjóðarinnar standi til þess, en við verðum að minnsta kosti að gera þá kröfu að þeir hafi kjark til þess að stjórnarskráin verði hreinsuð af löngu úreltri kirkjuþjónkun. Ákvæði stjórnarskrár um kirkjuleg og trúarleg málefni eru löngu orðin buxnalaus á almannafæri og verða bara hlægilegri með hverju árinu sem líður.

Þessi ákvæði hafa nú staðið í stjórnarskrá í 60 ár, og hugsunarleysi vanans er að gera þau að sjálfgefnum sannindum, jafnvel þó að á því léki augljóslega mikill vafi þegar stjórnarskráin var sett að þessi ákvæði ættu þar heima.

Er ekki kominn tími til að blása burt köngurlóarvefjum fortíðarinnar.

Höfundur er vélstjóri

Árni Árnason vélstjóri
Brúarás 12
110 Reykjavík



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum