Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2005 Forsætisráðuneytið

Gústaf Skúlason

Ólafsgjá – víti til varnað ar forsetum framtíðarinnar

Það er góðs viti, að stjórnarskrárnefnd hefur verið skipuð til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Full þörf er á slíkri endurskoðun eftir þá sundrungaöld sem ríkt hefur.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar verður að taka mið af þeim átökum sem áttu sér stað um túlkun hennar og náðu hámarki með neitun forsetans á að staðfesta lög lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins. Árangurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar verður að mínu mati í beinu hlutfalli við, hversu opinskátt og heiðarlega nefndarmenn og aðrir geta nálgast og sameinast um skilgreiningu á því ástandi sem ríkti á landinu sl ár. Ástand sem einkenndist af lögfræðinga- og sérfræðingastyrr yfir hugsanlegri túlkun á þessarri eða hinni málsgrein stjórnarskrárinnar.

Lögfræðingur einnar fylkingarinnar réttlætti ástandið með þeim orðum ”að tími væri kominn til að láta reyna á ákvæði stjórnarskrárinnar um synjunarrétt forsetans”. Útkoman úr þessari tilraun ætti ein og sér að vera Íslendingum næg sönnun fyrir því, að stjórnarskráin er ekki neitt ”plagg” til að vera að leika sér með. Stjórnarskráin er samningur allra landsmanna um það stjórnarfyrirkomulag, sem Íslendingar völdu við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum þann 17.júni 1944. Ekkert hefur grundvallarlega breyst frá stofnun lýðveldisins 1944. Eina nýmælið er neitun fimmta forsetans á staðfestingu laga réttkjörins meirihluta Alþingis. Það er sorglegur blettur í lýðræðissögu okkar Íslendinga.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar verður að miðast við að skýra starfsramma forsetans, svo að forsetinn geti ekki notað vald embættisins að eigin geðþótta. Á meðan kosningafyrirkomulag til Alþingis, myndun ríkisstjórnar og starfsemi Alþingis er með eðlilegum hætti, hefur forsetinn ekkert formlegt vald til að grípa fram í fyrir hendurnar á ákvörðunum Alþingis. Þingræðið byggir á lýðræði og Íslendingar völdu lýðræðið og lýðveldið þann 17. júni 1944.

Snilldin í hönnun stjórnskrárinnar kemur í ljós, þegar bókstafir hennar, sem ekki hafa formlegt gildi við eðlilegar aðstæður, verða að lifandi stjórnunartæki við ófyrirsjáanlegar aðstæður eins og t.d. stríð, náttúruhamfarir o. þ. h. Ef að ríkisstjórnin eða Alþingi verða einhverra hluta vegna óstarfhæf, getur forsetaembættið tryggt lýðveldinu áframhaldandi lífsmöguleika.

Aðför að Alþingi Íslendinga er samtímis aðför að stjórnarskrá lýðveldisins. Ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði haft stjórnarskrána að leiðarljósi, hefði hann að sjálfsögðu virt þá lýðræðisreglu, sem stjórnarskráin setur stjórnendum landsins og boðað til ríkisráðsfundar til að ræða málin. Stjórnarskráin verður á skýran hátt að gera sömu kröfu till forseta og gerðar eru til ráðherra, að ræða mikilvæg stjórnaratriði á ríkisráðsfundi. Ef forseti er persónulega á móti lögum réttkjörins meirihluta Alþingis verður hann að halda ríkisráðsfund innan tveggja vikna frá birtingu laganna og ræða málin við ráðherra. Fallast ráðherrar ekki á útskýringar forsetans getur forseti sagt af sér embætti og nýjar forsetakosningar boðaðar. Forsetinn á þannig ekki að hafa möguleika á að ganga gegn vilja Alþingis nema þegar Alþingi er stjórnað af öðrum en löglega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.

Erfiðleikarnir í stöðu fjölmiðlamálsins eiga að mínu viti stærstu rætur að rekja til ákvörðunar forsetans að sniðganga 13. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um, að forsetinn feli ráðherrum að framkvæma vald sitt.

Útskýringar Ólafs Ragnars Grímssonar á hegðun sinni með orðum um ”gjá milli þings og þjóðar” og ”fjölmiða nútímans sem nýja fjórða valdið” eru svo út í hött miðað við stjórnarskrána, að þær falla á sínum eigin fáranleika. Ef taka ætti nokkuð mark á þessu, þyrfti að endurskrifa alla stjórnarskrána upp á nýtt með tilliti til nýja fjórða fjölmiðlavaldsins við hlið löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. (Og þar af leiðandi með skipun tilheyrandi fjölmiðlaráðuneytis, fjölmiðlarádherra, Gjámælinga ríkisins og fleiru í svipuðum dúr).

Stjórnarskráin hefur dugað okkur Íslendingum ágætlega í þau 60 ár, sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins. Eftir endurskoðun ætti hún að geta dugað að minnsta kosti 60 ár í viðbót.

Ég hef töluvert velt fyrir mér drengskaparheiti Alþinigsmanna og forsetans við stjórnarskrána og hversu lágt gengið er á þessu loforði hjá sumum í dag. En áður en hægt verður að ræða um svik, verður skilningur að vera til staðar á því, hvers virði það er, sem svikið er.

Íslendingar ættu í alvöru að íhuga, hvaða valkostir eru til við lýðræðið, sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands tryggir okkur. Ef Íslendingar vilja velja annað fyrirkomulag í dag en það sem valið var á Þingvöllum þann 17.júní 1944, þá gæti fyrsta málsgrein stjórnarskrárinnar t.d. verið á eftirfarandi hátt:

„Ísland er einveldi. Forsetinn stjórnar.“

Ég óska stjórnarskrárnefnd gæfu og gengis við mikilvæg störf og landsmönnum öllum góðum árangri í áframhaldandi sjálfstæðisbaráttu lýðveldisins Íslands.

Stokkhólmi 27. febrúar 2004.
Gústaf Skúlason
Polhemsvägen 47
191 34 Sollentuna
Sverige



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum