Hoppa yfir valmynd
7. september 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 477/2023 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 477/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060136

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. júní 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2023, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að brottvísun og endurkomubann verði fellt úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur 

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 6. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum kom í ljós að fingraför hennar höfðu hvergi verið skráð. Nánari skoðun á máli kæranda gaf til kynna að hún hefði áður sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og var upplýsingabeiðnum því beint til sænskra yfirvalda dagana 29. ágúst og 9. september 2018, sbr. 34. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 9. og 11. september 2018, kom m.a. fram að kærandi hefði sótt um alþjóðlega vernd þar í landi en verið synjað. Hinn 20. nóvember 2018 samþykktu þau viðtöku hennar á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Hinn 23. apríl 2019 ákvað Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Hinn 9. maí 2019 kærði kærandi framangreinda ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar nr. 330/2019, uppkveðnum 4. júlí 2019, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Hinn 6. ágúst 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 468/2019, uppkveðnum 10. október 2019, synjaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Hinn 31. október 2019 höfðaði kærandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur íslenska ríkinu og krafðist ógildingar á framangreindum úrskurðum kærunefndar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...], uppkveðnum 30. september 2020, var úrskurður kærunefndar nr. 468/2019 ógiltur. Var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur staðfest með dómi Landsréttar í máli nr. [...] uppkveðnum 8. apríl 2022. Í ljósi niðurstöðu dóms Landsréttar var mál kæranda tekið til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun, dags. 5. september 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði nr. 455/2022 uppkveðnum 24. nóvember 2022 staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Hinn 5. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 24. nóvember 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 56/2023, uppkveðnum 2. febrúar 2023, var beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar hafnað. Hinn 4. febrúar 2023 lagði kærandi fram nýja beiðni til kærunefndar um endurupptöku máls hennar. Með úrskurði nr. 170/2023 uppkveðnum 30. mars 2023 var beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar hafnað.

Hinn 19. apríl 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2023, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII synjað. Kæranda var birt ákvörðun Útlendingastofnunar 2. júní 2023. Kærunefnd barst kæra kæranda 14. júní 2023. Greinargerð ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 29. júní 2023. 

III. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að samkvæmt ákvæði 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIII laga um útlendinga skuli Útlendingastofnun gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila barns sem hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. ágúst 2021 og sé enn á landinu. Kærandi telur að hún falli undir umrætt ákvæði þar sem hún eigi móður og tvö stjúpsystkini sem hafi fengið dvalarleyfi hér á landi og séu enn búsett hér. Þá séu faðir kæranda og eldri bróðir einnig staddir hér á landi og með mál sín í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Þá er í greinargerð vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins sé stjórnvöldum heimilt að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga um framfærslu. Ákvæðið eigi við ef umsækjandi um dvalarleyfi hafi hvorki sætt endurkomubanni né eigi ólokin mál í refsivörslukerfinu. Kærandi hafi hingað til ekki haft leyfi til að stunda atvinnu hér á landi og hafi því ekki getað séð sjálfri sér fyrir framfærslu. Þá eigi kærandi hvorki ólokin mál í refsivörslukerfinu né bíði afplánunar. Á grundvelli 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins geti aðstandandi útlendingsins, sem fengið hafi útgefið dvalarleyfi skv. 1. mgr., með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 70. og 71. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi vísar til þess að Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi ekki sannað auðkenni sitt þar sem vafi leiki á sannsleiksgildi ótilgreindra skjala sem hafi verið notuð til útgáfu vegabréfs hennar. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun aldrei gert grein fyrir hvaðan þessar upplýsingar koma og um hvaða skjöl sé að ræða. Síðan kærandi hafi komið til Íslands hafi hún tvisvar endurnýjað pakistanskt vegabréf sitt og persónuskilríki. Þá hafi kærandi ítrekað skorað á íslensk stjórnvöld að setja sig í samband við þar til bær stjórnvöld í Pakistan til að fá staðfestingu um auðkenni hennar. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi lagt of mikla sönnunarbyrði á sig með tilliti til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 149/2020. Þá telur kærandi að hafa þurfi í huga að hvergi í bráðabirgðaákvæði XIII laga um útlendinga komi fram krafa um að auðkenni umsækjanda sé sannað heldur megi lesa úr orðalagi ákvæðisins að það sé vilji löggjafans að einfalda og auðvelda ákveðnum hópi barnafjölskyldna að sameinast með því að fá dvalarleyfi hér á landi fyrir alla meðlimi hennar.

Kærandi vísar til þess að íslenskum stjórnvöldum sé fullkunnugt um fjölskyldutengsl kæranda við einstaklinga sem hafi dvalarleyfi hér á landi. Kærandi hafi lagt fram fjölskyldukort sem útgefið sé af pakistönskum stjórnvöldum þar sem finna megi upplýsingar og ljósmyndir af öllum meðlimum fjölskyldunnar, þar á meðal kæranda. Að mati kæranda hafi hingað til ekkert komið fram í málflutningi Útlendingastofnunar sem gefi til kynna að fjölskyldukortið sé falsað og því hljóti það að sanna með fullnægjandi hætti hver kærandi og fjölskyldumeðlimir hennar séu. Þá hafi kærandi lagt fram ljósmyndir af íslenskum dvalarleyfiskortum fyrrgreindra fjölskyldumeðlima. Að öllu framangreindu virtu er krafa kæranda að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli heimilda í bráðabirgðaákvæði XIII laga um útlendinga. 

Kærandi telur ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann ekki sanngjarna í hennar garð. Kærandi telur athugasemdir í lögskýringargögnum með ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga bera með sér að ákvörðun um brottvísun eigi einkum við þegar einstaklingar hafi brotið af sér með saknæmum og refsiverðum hætti. Kærandi hafi ekki brotið af sér með saknæmum hætti. Þá telur kærandi að um sé að ræða óeðlilega og ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni miðað við málsatvik. Kærandi telur jafnframt að með því að ákvarða henni brottvísun og endurkomubann hafi Útlendingastofnun gerst brotleg við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 12. gr. laganna. Því til stuðnings vísar kærandi í upplýsingar á heimasíðu Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2016, þar sem meðal annars hafi verið greint frá því aðjar reglur um brottvísanir og endurkomubann hafi einkum verið settar til að taka á fjölgun umsækjenda frá öruggum ríkjum og fjölgun umsókna sem þættu bersýnilega tilhæfulausar. Kærandi telur að af rökstuðningi í ákvörðun Útlendingastofnunar megi ráða að ákvörðun um endurkomubann gagnvart henni hafi ekki tengst atvikum í máli hennar heldur hafi sú ákvörðun verið hluti af því markmiði að sporna við komu fólks í leit að alþjóðlegri vernd. Kærandi fái ekki séð af ákvörðuninni að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar um endurkomubann tekið tillit til hagsmuna og réttinda hennar líkt og áskilið sé. Þá telur kærandi að fleiri úrræða hefði verið völ á til að ná framangreindu markmiði, sem jafnframt gætu talist vægari í hennar garð. Með vísan til þess að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að meðalhófsreglu telur kærandi að ákvörðun sé haldin annmarka hvað brottvísun og endurkomubann varðar og því beri að fella hana úr gildi. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. laganna, með því að hafa ekki sett sig í samband við pakistönsk yfirvöld til að sannreyna gildi skilríkja hennar frá Pakistan. 

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðarákvæðis XIII

Á 153. löggjafarþingi 2022-2023 lagði dómsmálaráðherra fram stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um útlendinga. Eftir fyrstu umræðu stjórnarfrumvarpsins fór frumvarpið til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Hinn 8. desember 2023 lagði meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar fram breytingartillögu nr. 753. Í henni lagði meirihlutinn meðal annars fram tillögu umá eftir 19. gr. stjórnarfrumvarpsins kæmi ný lagagrein til bráðabirgða. Lagaviðbótin laut að dvalarleyfum umsækjenda um alþjóðlega vernd og var í sjö málsgreinum. Lagt var til að með 1. mgr. lagagreinarinnar væri mælt fyrir um að Útlendingastofnun skyldi gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila barns hefði barn sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. ágúst 2021 og væri enn á landinu enda hefði slík umsókn borist fyrir 1. mars 2023. Þá var lagt til ákvæði, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, þess efnis að heimilt yrði að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 55. gr. um framfærslu að því tilskildu að umsækjandi sætti hvorki endurkomubanni né ætti ólokin mál í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Hið sama ætti við ef útlendingur afplánaði fangelsisrefsingu eða biði afplánunar. Með 3. mgr. lagagreinarinnar var lagt til nánasti aðstandandi útlendings sem fengi útgefið dvalarleyfi skv. 1. mgr. gæti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. 70. og 71. gr. Það sama ætti við um börn viðkomandi eldri en 18 ára sem ekki hefðu gengið í hjúskap hefðu þau einnig sótt um alþjóðlega vernd fyrir 1. ágúst 2021 og væru enn á landinu, enda samanstandi fjölskyldan af að minnsta kosti einu barni undir 18 ára aldri. 

Eftir 2. umræðu var búið að bæta í stjórnarfrumvarpið 20. gr. með framangreindum breytingartillögum meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í lokadrögum stjórnarfrumvarpsins fengu ákvæði framangreindar 20. gr. stað í ákvæði 22. gr. frumvarpsins. Hinn 6. apríl 2023 tóku í gildi lög nr. 14/2023 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016. Með ákvæði 22. gr. laga nr. 14/2023 bættist við lög um útlendinga nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í lögum um útlendinga nr. 80/2016 var ákvæðið lögfest sem bráðabirgðaákvæði XIII.

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIII kemur fram að hafi barn sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. ágúst 2021 og sé enn á landinu skuli Útlendingastofnun gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila þess enda hafi slík umsókn borist innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna. Hið sama gildi ef barn fæddist hér á landi á meðan umsókn forsjáraðila um alþjóðlega vernd var í vinnslu enda hafi umsóknin borist fyrir 1. ágúst 2021.

Í 752. nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er að finna stutta umfjöllun um breytingartillögu nefndarinnar um nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í umfjöllun nefndarinnar segirheimsfaraldur kórónuveiru hafi gert yfirvöldum erfitt um vik að framkvæma endanlegar ákvarðanir stjórnvalda um brottvísanir og frávísanir samkvæmt lögum um útlendinga. Í landinu því nokkur hópur barna og forsjáraðila þeirra sem hafi dvalist hér um lengri tíma í ólögmætri dvöl. Stjórnvöld hafi komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi fjölskyldur uppfylla ekki skilyrði laganna til að fá alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem er komin upp þyki þó rétt, í stað þess að framkvæmdar verði brottvísanir eða frávísanir í þessum málum, að opnað sé tímabundið á möguleika forsjáraðila þessara barna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku en þeim dvalarleyfum fylgja dvalarleyfi fyrir börn þeirra. Meiri hlutinn leggi því til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem rakin eru þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að geta fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess. Í ljósi þeirrar sérstöku stöðu sem þessir útlendingar séu í óhjákvæmilegt að við fyrstu umsókn verði vikið frá kröfu laganna um að umsækjandi sýni fram á trygga framfærslu hans og fjölskyldu.

Kærandi byggir umsókn sína um dvalarleyfi á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII á því að skilyrði 3. mgr. ákvæðisins séu uppfyllt í hennar tilviki þar sem hún eigi móður og systkini sem hafi fengið dvalarleyfi hér á landi. Þá telur kærandi að hún hafi með framlagningu pakistansks vegabréfs og persónuskilríkja sýnt fram á auðkenni. Þá hafi kærandi lagt fram fjölskyldukort útgefið af þar til bærum yfirvöldum í Pakistan þar sem finna megi upplýsingar og ljósmyndir af henni og umræddum fjölskyldumeðlimum. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á að framlagt fjölskyldukort sé falsað og því hafi hún sannað með fullnægjandi hætti hver hún og aðrir fjölskyldumeðlimir séu. Einnig hafi kærandi lagt fram ljósmyndir af íslenskum dvalarleyfiskortum fyrrgreindra fjölskyldumeðlima. Þá er það mat kæranda að ekki verði lesið af bráðabirgðaákvæði XIII að krafa sé gerð um að auðkenni sé sannað heldur hafi það verið vilji löggjafans að einfalda og auðvelda ákveðnum hópi barnafjölskyldna að sameinast með því að fá dvalarleyfi hér á landi fyrir alla meðlimi þeirra. Þá byggir kærandi jafnframt á því að á grundvelli 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins geti aðstandandi útlendings, sem fengið hafi útgefið dvalarleyfi skv. 1. mgr., með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 70. og 71. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi hefur haft fjölmörg mál til meðferðar hjá kærunefnd. Í þeim hefur nefndin tekið afstöðu til aldurs kæranda og auðkennis hennar. Í úrskurði kærunefndar nr. 455/2022 fór fram ítarlegt mat á auðkenni kæranda og var niðurstaða kærunefndar sú að kærandi hefði ekki sannað auðkenni sitt og aldur. Kærandi hefur lagt fram tvær beiðnir til kærunefndar um endurupptöku efnismeðferðarmáls hennar. Var af þeim beiðnum ráðið að kærandi væri ósammála mati kærunefndar á auðkenni hennar og aldri. Í úrskurðum nr. 56/2023 og 170/2023 vegna þeirra endurupptökubeiðna var það mat kærunefndar að framlögð gögn með umræddum beiðnum og aðrar upplýsingar kæranda væru ekki til þess fallin að hagga mati nefndarinnar á auðkenni hennar og aldri. Framlögð gögn með umsókn kæranda um umrætt dvalarleyfi eru ekki til þess fallinn að breyta framangreindu mati kærunefndar. Með vísan til framangreinds stendur eftir óhaggað mat kærunefndar á því að auðkenni kæranda sé ósannað og þá hafi hún verið eldri en 18 ára við komu hingað til lands

Samkvæmt framangreindu er ljóst að 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um útlendinga eru ekki uppfyllt. Kærandi var ekki barn að aldri þegar hún sótti um vernd í ágúst 2018 og var ekki undir forsjá meintra ættingja. 

Kærandi byggir á því að samkvæmt 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIII laga um útlendinga geti aðstandandi útlendingsins, sem fengið hafi útgefið dvalarleyfi skv. 1. mgr., með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 70. og 71. gr. laga um útlendinga. Við málsmeðferð hjá kærunefnd lagði kærandi fram ljósmynd af áður framlagðri fjölskylduskráningu úr þjóðarskráningu pakistanskra stjórnvalda (e. National Database and Registration Authority) og ljósmynd af íslenskum dvalarleyfiskortum meintrar stjúpmóður og stjúpsystkina. Líkt og að framan er rakið hefur auðkenni kæranda ekki verið upplýst og þá hefur kærandi ekki lagt fram haldbær gögn um tengsl sín við meinta stjúpmóður sína. Ennfremur er ljóst að meintri stjúpmóður kæranda og stjúpbróður var ekki veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. ákvæðis XIII til bráðabirgða. Getur ákvæði 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins því ekki átt við um kæranda.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 6. ágúst 2018. Eins og að framan greinir var umsókn hennar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga synjað. Hefur hún því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Með úrskurði kærunefndar nr. 455/2022, uppkveðnum 24. nóvember 2022, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa kæranda frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar og kærandi óskaði ekki eftir frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar. Er því ljóst að frestur kæranda til að yfirgefa landið sjálfviljug innan frests er liðinn.

Með bréfi, dags. 21. apríl 2023, var kæranda tilkynnt um að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri henni með endurkomubanni til tveggja ára. Var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í ódagsettum athugasemdum kæranda sem móttekin voru hjá Útlendingastofnun, dags. 8. maí 2023, kvaðst kærandi vera með tengsl við Ísland þar sem hún eigi stjúpforeldra og stjúpsystkini. Þá gangi hún í skóla hér. Í greinargerð til kærunefndar kveður kærandi það vera brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að brottvísa henni og vísaði til upplýsinga á heimasíðu Útlendingastofnunar frá árinu 2016 því til stuðnings. 

Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í máli kæranda um tengsl hennar við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hennar og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hennar eða nánustu aðstandenda hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd leit sérstaklega til þess að kærandi hefur ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að hún eigi nánustu aðstandendur hér á landi. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið útgefið dvalarleyfisskírteini hjá ítölskum stjórnvöldum með gildistíma til 10. mars 2024 og hefur brottvísun hennar ekki áhrif á þá heimild. Ennfremur eiga tilvísaðar upplýsingar af heimasíðu Útlendingastofnunar ekki við um brottvísun kæranda þar sem breyting hefur orðið á lögum um útlendinga frá því að þær upplýsingar voru settar fram og byggir brottvísun kæranda á þeirri lagabreytingu.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi yfirgefið landið líkt og henni var gefinn kostur á að gera og mun því endurkomubann hennar taka gildi þegar hún verður flutt úr landi

Að framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta