Hoppa yfir valmynd
12. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 544/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 544/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18110037 og KNU18110038

 

Beiðni […], […] og barna þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 9. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. og 7. ágúst 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir […], fd. […], […], fd. […] og barna þeirra, […], fd. […], […], fd. […] og […], fd. […], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærendur), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Frakklands. Úrskurður kærunefndar var birtur kærendum þann 15. október 2018 og þann 22. október 2018 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála dags. 6. nóvember 2018, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 27. nóvember 2018 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku auk frekari gagna.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur óska eftir endurupptöku á málum sínum hjá kærunefnd á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin í málum þeirra.

Í beiðni kærenda kemur fram að kærandi […] (hér eftir nefnd kærandi K) hafi greint frá því að hún sé með gat á hljóðhimnu hægra eyra. Hún sé undir virku eftirliti hjá læknum og mögulega þurfi að framkvæma aðgerð á eyranu. Þá eigi hún bókaðan tíma þann 3. janúar 2019 á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans þar sem staða hennar verði metin og ákvörðun tekin um framhaldið. Kærendur telji að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn málsins og nauðsynlegt sé að skoða betur. Heilsu kæranda K verði stefnt í hættu verði fjölskyldunni vísað frá landi. Þá beri íslenskum stjórnvöldum m.a. að líta til þeirra sjónarmiða sem þjóni hagsmunum fjölskyldunnar best við mat á því hvort veita skuli fjölskyldunni alþjóðlega vernd hér á landi. Skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu því ótvírætt fyrir hendi. Kærendur telji að um sé að ræða upplýsingar sem kalli á nýtt mat í málinu og að það sé andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda veikan einstakling frá landinu sem til standi að framkvæma aðgerð á innan fárra vikna.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 9. október 2018, sbr. úrskurð nr. 419/2018. Þá hefur nefndin áður tekið afstöðu til beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa með úrskurði nr. 490/2018 frá 6. nóvember 2018. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nr. 419/2018 og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu. Meðal gagna málsins eru göngudeildarnótur, dags. 27. júní, 5. júlí og 4. október 2018. Í göngudeildarnótu, dags. 27. júní 2018, kemur fram að kærandi K sé með mánaðarsögu um blóð og leka frá hægra eyra og verki. Þá kemur fram að hún kveðist ekkert heyra með hægra eyra og að skoðun hafi leitt í ljós bólgu í miðeyra og lítið gat á hljóðhimnu. Þá hafi hún fengið ávísað lyfjum. Í göngudeildarnótu, dags. 5. júlí 2018, kemur fram að kærandi K hafi mætt í endurmat á eyra. Þar segir að ekkert hafi lekið úr eyra hennar, en hún sé enn með verki í eyra og finnist heyrnin vera slæm. Kemur fram að það sé enn gat á hægri hljóðhimnu og að þar sjáist bólgin slímhúð í miðeyra. Þá fékk kærandi K aukinn skammt lyfja. Í göngudeildarnótu, dags. 4. október 2018, kemur fram að hún sé enn með gat á hljóðhimnu en að það hafi minnkað mjög mikið frá fyrri heimsókn. Þá kemur fram að bíða eigi með frekari skoðun á kæranda K í þrjá mánuði.

Í úrskurði kærunefndar nr. 419/2018 kemur fram að kærandi K hafi greinst með langvinna lifrarbólgu B og að hún glími við þunglyndi. Var það niðurstaða kærunefndar að fjölskyldan í heild sinni teldist ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá lágu fyrir skýrslur varðandi aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Meðal þess sem kemur fram í skýrslum um aðstæður í Frakklandi er að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Í úrskurðinum kom fram að lagt væri til grundvallar að kærendur gætu leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi í Frakklandi og að gögn málanna hafi ekki borið það með sér að heilsufar kærenda væri með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsókna þeirra hafi í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar þeirra. Það var niðurstaða kærunefndar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál þeirra yrðu tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar breyta þau nýju gögn sem kærendur hafa lagt fram varðandi heilsufar kæranda K ekki grundvelli mála kærenda hjá kærunefnd. Þá er ekki um verulegar breytingar á atvikum málsins að ræða sem kalli á endurupptöku og nýtt mat í málum fjölskyldunnar. Þá fellst kærunefnd ekki á það mat kærenda að hin nýju gögn bendi til þess að heilsu kæranda K muni vera stefnt í hættu verði fjölskyldunni vísað frá landinu.

Að teknu tilliti til frásagnar kærenda og gagna málanna, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé unnt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 419/2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kærenda um endurupptöku málanna er því hafnað.  

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda er hafnað.

The request of the appellants is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                      Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum