Hoppa yfir valmynd
14. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra lýsir áhyggjum vegna ólögmætra kosninga á Krím

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lýsir þungum áhyggjum vegna kosninga sem fyrirhugaðar eru á Krímskaga næstkomandi sunnudag, 16. mars, en þá verður kosið um hvort íbúar skagans vilji segja sig úr lögum við Úkraínu og sameinast Rússlandi.

„Fyrirhugaðar kosningar á Krímskaga í skjóli hernáms Rússa stríða gegn alþjóðalögum og eru aðeins til þess fallnar að auka á spennuna á svæðinu. Það segir sig sjálft að niðurstöður  slíkra kosninga geta ekki verið marktækar," segir Gunnar Bragi. „Rússnesk stjórnvöld verða sýna ábyrgð og kalla herlið sitt til baka og vinna með alþjóðasamfélaginu og stjórnvöldum í Úkraínu."

Íslensk stjórnvöld taka jafnframt undir yfirlýsingu Evrópusambandsins og G-7 ríkjanna þ.e. Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japan, Bretlands og Bandaríkjanna. Í henni eru rússnesk stjórnvöld hvött til að láta af stuðningi sínum við fyrirhugaðar kosningar um sameiningu Krímskaga og Rússlands. Kosningarnar brjóti í bága við stjórnskrá Úkraínu, gangi þvert á alþjóðasamninga og standist ekki grundvallakröfur um lýðræðislega framkvæmd kosninga.

Yfirlýsing G-7 ríkjanna:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum