Hoppa yfir valmynd
8. júní 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 5/2013.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. maí 2013

í máli nr. 5/2013:

Rafey ehf.

gegn

Vegagerðinni

 

Með bréfi mótteknu 14. febrúar 2013, kærði Rafey ehf. útboð Vegagerðarinnar „Fáskrúðsfjarðargöng – Endurbætur á rafkerfi 2013“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Þess er krafist að þegar verði kveðinn upp úrskurður um að stöðvuð verði samningsgerð varnaraðila Vegagerðarinnar við Rafmenn ehf. þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Þá er þess krafist að ákvörðun vararaðila um að vísa frá tilboði kæranda í verkið Fáskrúðsfjarðargögng: Endurnýjun á rafkerfi 2013; verði ógilt.

Til vara er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.

Þá er þess í öllum tilvikum krafist að nefndin geri varnaraðila að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“ 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun útboðsins yrði hafnað.

Með ákvörðun, dags. 11. mars 2013, var útboð kærða „Fáskrúðsfjarðargöng – Endurbætur á rafkerfi 2013“ stöðvað.

Í bréfi kærða, dags. 25. mars 2013, sagðist kærði una þeirri efnislegu niðurstöðu, sem falist hefði í stöðvunarákvörðun nefndarinnar. Kærði lýsti því yfir að hann mun meta kæranda með tilliti til þeirra gagna sem honum bar samkvæmt ákvörðun nefndarinnar og heimila kæranda að skila ársreikningi. Með vísan til þess krefst kærði þess nú eingöngu að kröfu kæranda um álit á skaðabótaskyldu verði hafnað. Þá sættir kærði sig við að verða úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar en krefst þess að sú ákvörðun verði hæfileg.     

Með bréfi kæranda, dags. 9. apríl 2013, ítrekaði kærandi kröfu sína um að nefndin myndi ógilda þá ákvörðun kærða um að vísa tilboði kæranda frá. Þá krafðist kærandi einnig málskostnaðar.

 I.

Í desember 2012 auglýsti kærði útboðið „Fáskrúðsfjarðargöng – Endurbætur á rafkerfi 2013“. Kafli 1.08 í útboðinu nefnist „Hæfi bjóðanda“ og þar segir m.a.:

„Bjóðandi skal uppfylla eftirfarandi fjárhagskröfur og leggja fram gögn þar að lútandi:

·         Meðalársvelta fyrirtækis bjóðanda hafi að lágmarki verið sem nemur 50% af tilboði bjóðanda í þetta verk síðastliðin 3 ár.

·         Eigið fé bjóðanda skal vera jákvætt, samkvæmt árituðum ársreikningi.

·         Bjóðandi skal vera í skilum með opinber gjöld eða standi við greiðsluáætlun eða greiðsluuppgjör við innheimtumenn.

·         Bjóðandi skal vera í skilum með lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna sinna.“ 

Kafli 2.02.2 í útboðinu nefndist „Tilboð opnuð – þóknun fyrir gerð tilboða“ og þar segir m.a.

            „Í stað 1. mgr. undirgreinar 2.5.4 í ÍST30:2012 kemur eftirfarandi texti:

Með tilboði sínu skulu bjóðendur leggja fram þær upplýsingar sem getið er um í undirgrein 2.5.4 b) og mun verkkaupi sannreyna þær eftir opnun tilboða.

Í stað undirgreinar 2.5.4 b) kemur eftirfarandi texti:

1.      Staðfestar upplýsingar síðastliðinna tveggja ára.

2.      Skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðilum ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að bjóðandi hafi greitt opinber gjöld undanfarin tvö ár og sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða standi við greiðsluáæætlun eða greiðsluuppgjör við innheimtumenn.“

Hinn 5. febrúar 2013 voru tilboð opnuð og átti kærandi lægsta tilboðið eða 79,1% af kostnaðaráætlun verksins. Rafmenn ehf. áttu næst lægsta tilboðið eða 103,6% af kostnaðaráætlun.

            Með bréfi kærða, dags. 5. febrúar 2013, var kæranda tilkynnt um val tilboða en í bréfinu sagði m.a.:

„Tilboðin hafa verið yfirfarin og leiðrétt eftir því sem við á. Þar sem ársreikning fyrir 2011 vantaði með tilboði yðar, eins og skilyrt er í útboðslýsingu í grein 2.02.2 Tilboð opnuð – þóknun fyrir gerð tilboða, er tilboði yðar vísað frá. Ákveðið hefur verið að hefja samningaviðræður við Rafmenn ehf. og áformað að bindandi samningur verði gerður að liðnum 10 dögum frá dagsetningu þessa bréfs.“

II.

Eins og fram er komið hefur kærði fallist á að ákvörðun hans um að vísa tilboði kæranda frá hafi verið röng og lýst því yfir að hann muni heimila kæranda að skila inn ársreikningi og meta tilboð kæranda með hliðsjón af því. Án tillits til þess hvort kærða var rétt að vísa tilboði kæranda frá, liggur þannig fyrir að fyrrgreind ákvörðun kærða hefur í reynd verið afturkölluð. Hefur kærandi þannig ekki lengur sjálfstæða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. Ágreiningslaust er að varakrafa kæranda um álit á skaðabótaskyldu kemur af þessum sökum ekki til álita. Að lokum er óumdeilt að kærða beri að greiða kæranda málskostnað við að hafa kröfuna uppi.

            Fallist er á kröfu um að kærði greiði málskostnað til kæranda en með hliðsjón af úrslitum málsins og umfangi þess er rétt að kærði greiði kæranda 300.000 krónur vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Rafeyjar ehf., um að ákvörðun kærða, Vegagerðarinnar, um að vísa frá tilboði kæranda í útboðinu „Fáskrúðsfjarðargöng – Endurbætur á rafkerfi 2013“, er vísað frá nefndinni.

Kærði greiði kæranda 300.000 krónur í málskostnað.

 

Reykjavík, 28. maí 2013.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,  28   maí 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum