Hoppa yfir valmynd
18. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 585/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 585/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23070092

 

Kæra [...]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. júlí 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 14. júlí 2023, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Vín, Austurríki, 13. júlí 2023. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum 14. júlí 2023 var kæranda vísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið vísað frá Íslandi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í rökstuðningi lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar, dags. 24. júlí 2023, kemur fram að ákvörðun lögreglunnar um frávísun kæranda við komu hans til landsins hafi byggt á upplýsingum úr lögreglukerfinu þess efnis að kærandi væri í skuld við íslenska ríkið vegna framkvæmdar fyrri frávísunar. Hinn 10. október 2019 hafi kæranda verið vísað frá landinu á grundvelli e-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi hafi ekki farið af landi brott sjálfviljugur hafi stoðdeild fylgt honum til Albaníu 26. nóvember 2019. Við þann flutning hafi stofnast kostnaður hins opinbera og hafi kærandi undirritað skuldaviðurkenningu vegna framkvæmdar frávísunarinnar. Á skuldaviðurkenningunni komi skilmerkilega fram að verði skuldin ekki greidd sé hún grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-liður 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki greitt af skuldinni og í samræmi við h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga hafi honum verið frávísað við komuna til landsins 14. júlí 2023.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 14. júlí 2023. Eftirfarandi rökstuðningur lögreglustjórans á Suðurnesjum barst nefndinni 24. júlí 2023 og var sendur talsmanni kæranda sama dag.

III.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur ekki skilað inn greinargerð vegna málsins en í tölvubréfi kæranda til kærunefndar, dags. 15. júlí 2023, kemur fram að lögregla hafi greint kæranda frá því að hann stæði í skuld við íslenska ríkið. Kærandi hafi viljað borga upp skuldina en lögregla hafi ekki gefið honum tækifæri til þess. Enginn frekari rökstuðningur hefur borist kærunefnd.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á b-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, með síðari breytingum.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar honum hefur verið vísað úr landi hér eða í öðru norrænu ríki, endurkomubann sé enn í gildi og honum hafi ekki verið veitt heimild til að koma til landsins, sbr. einnig c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins samkvæmt a-j-lið 1. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Samkvæmt eftirfarandi rökstuðningi lögreglustjórans á Suðurnesjum stóð til að frávísa kæranda á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga vegna skuldar við íslenska ríkið vegna framkvæmdar fyrri frávísunar. Hin kærða ákvörðun kveður hins vegar á um frávísun á grundvelli b-liðar ákvæðisins. Gögn málsins benda ekki til þess að kærandi sé í endurkomubanni til landsins eða á Schengen-svæðið og voru skilyrði b-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga því ekki uppfyllt við komu kæranda til landsins 13. júlí 2023.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga felld úr gildi.

 


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er felld úr gildi.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is vacated.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum