Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Árétting vegna umfjöllunar í Kastljósi 17. apríl

Vegna umfjöllunar í Kastljósi í gær, miðvikudaginn 17. apríl, um siglingar Herjólfs og Landeyjahöfn, vilja innanríkisráðherra og vegamálastjóri koma eftirfarandi á framfæri.

Landeyjahöfn hefur þegar sannað gildi sitt sem stórkostleg samgöngubót. Farþegafjöldi og áhrif á samfélagið í Vestmannaeyjum hefur verið framar björtustu vonum, þótt náttúruöflin hafi vissulega sýnt mátt sinn og átt þátt í að höfnin nýtist ekki allt árið eins kostur væri. Stærsti einstaki þátturinn sem skýrir það ástand er samt ekki höfnin heldur ferjan. Þegar höfnin var hönnuð á sínum tíma var samtímis hönnuð ferja sem hentaði þessari höfn. Efnahagshrunið varð til þess að áformum um ferjusmíði þurfti að skjóta á frest, en sem betur fer kom í ljós að unnt var til bráðabirgða að nota Herjólf, þá ferju sem fyrir var og sigldi til Þorlákshafnar. Frá upphafi hefur verið ljóst að sú ferja myndi takmarka nýtingu hafnarinnar, miðað við ferju sem hönnuð er sérstaklega miðað við aðstæðurnar.

Undanfarið hefur verið unnið ötullega að undirbúningi að smíði nýrrar ferju, ásamt því að skoða hvað þarf að gera í höfninni, fyrst og fremst til að halda dýpinu sem stöðugustu með sanddælingum. Reiknað er með að skýrt verði frá ákvörðunum hvað þetta varðar á fundi í Vestmannaeyjum á þriðjudag í næstu viku.

Við viljum strax koma því rækilega til skila að við höfum fulla trú á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn með öruggum siglingum milli lands og Eyja um leið og ný sérhönnuð ferja verður tekin í notkun. Fram að því muni takast að nýta Herjólf til öruggra siglinga á þessari leið stærstan hluta ársins. Vert er að taka fram að Herjólfur hefur reynst ákaflega traust og gott sjóskip sem gagnast hefur Eyjamönnum mjög vel síðan hann kom til landsins.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra            Hreinn Haraldsson vegamálastjóri

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira