Hoppa yfir valmynd
16. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Upplifun almennings á þjónustu stofnana könnuð

Á næstu vikum verður gerð þjónustukönnun til að meta upplifun almennings á þjónustu opinberra stofnana og tengist hún þeim markmiðum sem ríkisstjórnin kynnti í stjórnarsáttmála sínum. Er þetta í fyrsta sinn sem gerð er samræmd þjónustukönnun fyrir stofnanir ríkisins, en einstakar stofnanir hafa þó gert viðlíka kannanir um þarfir og viðhorf viðskiptavina sinna.

Mikilvægt er að þjónusta opinberra stofnana hafi þarfir notenda að leiðarljósi og uppfylli væntingar almennings um gæði og skilvirkni. Kröfur um þjónustu hins opinbera breytast hratt á tímum örra samfélagsbreytinga og því er mikilvægt að leggja mat á afstöðu og viðhorf notenda til hennar og gera umbætur þar sem þess er þörf.

Stofnanir ríkisins veita mjög fjölbreytta þjónustu og eru um margt ólíkar að stærð og gerð. Því hefur verið ákveðið að byrja á að gera könnun sem tekur til stofnana sem veita umfangsmikla þjónustu og líklegt er að almenningur hafi leitað til síðastliðið ár. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í samstarfi við forsætisráðuneytið gert samning við Gallup um framkvæmd verkefnisins og er von á niðurstöðum í byrjun næsta árs.

Þær stofnanir sem byrjað verður á eru eftirtaldar:

  • Sjúkratryggingar Íslands
  • Vinnumálastofnun
  • Tollstjórinn
  • Þjóðskrá Íslands
  • Tryggingastofnun ríkisins
  • Sýslumannsembættin
  • Heilsugæslustöðvar
  • Samgöngustofa
  • Ríkisskattstjóri
  • Vegagerðin
  • Veðurstofa Íslands

Á næsta ári er lagt upp með að kanna þjónustu fleiri stofnana ríkisins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum