Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 4. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 4. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 26. nóvember 2013, kl. 14-16.
  • Málsnúmer: VEL13060104
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga) og Kr. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) ásamt Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) sem ritaði fundargerð.
  • Forföll: Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins) og Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) voru fjarverandi.
  • Fundarritari: Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Staða greiningarvinnu ráðgjafafyrirtækja.

Fundarstjóri gerði grein fyrir stöðu greiningarvinnu ráðgjafafyrirtækjanna en gert er ráð fyrir að henni verði lokið fyrir jól. Í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur verið rætt um hvort ekki þurfi að framlengja þann frest sem teymum 1 og 4 var veittur til að skila tillögum sínum til samvinnuhópsins í heild sinni í ljósi þess að greiningarvinnan muni veita teymunum mikilvægar upplýsingar sem koma til með að nýtast við mótun tillagnanna. Fundarstjóri óskaði eftir því að fá afstöðu teymisins til þessa í lok fundar.

2. Kynning á framtíðarsýn Íbúðalánasjóðs.

Soffía Guðmundsdóttir, sviðsstjóri einstaklingssviðs hjá Íbúðalánasjóði, kynnti framtíðarsýn Íbúðalánasjóðs. Unnt er að nálgast kynninguna á eftirfarandi slóð: http://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarraduneyti-media/media/framtidarskipan-husnaedismala/Kynning-Soffiu-Gudmundsdottur-a-framtidarsyn-Ibudalanasjods_26.11.2013.pdf

Fram kom að kynningin lýsi framtíðarsýn sjóðsins eins og hún er í dag en ljóst er að sú sýni kann að taka breytingum í kjölfar þeirrar vinnu sem nú fer fram um framtíðarskipan húsnæðismála.

Í umræðum um kynninguna var meðal annars rætt um innheimtuaðgerðir sjóðsins, meðal annars með tilliti til þeirra sem eru í greiðsluaðlögun einstaklinga hjá umboðsmanni skuldara. Einnig var rætt um hvort skilyrði um að lánveitingar sjóðsins miðist við verðmæti fasteignar eins og það er metið af Íbúðalánasjóði geti leitt til stöðnunar á fasteignaverði á tilteknum svæðum þar sem mat Íbúðalánasjóðs á verðmæti fasteigna byggist á upplýsingum um verðmæti sambærilegra eigna á viðkomandi svæði. Í þessu sambandi var þó bent á að Íbúðalánasjóður taki við mat á verðmæti fasteignar mið af fleiri þáttum en verði sambærilegra eigna. Þannig sé litið til ýmissa þátta sem skýrt geta að viðkomandi eign sé verðmætari en sambærilegar eignir á sama svæði. Jafnframt var rætt um stærð íbúða á Íslandi, þ.e. að hér á landi tíðkist að byggja mjög stórar íbúðir samanborið við íbúðir í ýmsum nágrannaríkjum. Bent var á að gagnlegt gæti verið að fá upplýsingar um fermetrafjölda íbúða og með hvaða hætti meðalstærð íbúða hefur þróast á Íslandi á undanförnum árum eða áratugum. 

3. Framlenging á fresti sem teymið hefur til að skila tillögum sínum til samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála.

Fundarstjóri nefndi að nú hefði teymið fengið kynningu á helstu atriðum sem teymið þurfi að kynna sér til að geta mótað tillögur sínar um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Fram kom að nú þurfi teymið að hefjast handa við að ræða mögulegar sviðsmyndir og móta þær tillögur sem teyminu hefur verið falið að skila til samvinnuhópsins. Eins og rætt hafi verið á fyrsta fundi teymisins kom fram að verkefni teymis 1 (um fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána á Íslandi) og teymis 4 tengist mjög náið og því sé æskilegt að ákveðið samspil verði á milli tillagna þessara teyma. Rætt var um hvenær teymið telji tímabært að skila tillögum sínum til samvinnuhópsins, þ.e. annars vegar áður en niðurstöður greiningarvinnunnar liggja fyrir eða hins vegar þegar niðurstöðurnar liggja fyrir þannig að teymið geti tekið mið af niðurstöðum greiningarvinnunnar við mótun tillagna sinna. Samstaða var um að æskilegast væri að teymið biði eftir niðurstöðum greiningarvinnunnar og skili þannig tillögum sínum til samvinnuhópsins þegar það hefur fengið tækifæri til að kynna sér umræddar niðurstöður.

4. Næsti fundur.

Ákveðið var að næsti fundur verði haldinn í velferðarráðuneytinu þann 5. desember nk., kl. 14-16. Á þeim fundi verði farið yfir „sviðsmyndir“ um framtíðarskipan húsnæðismála. Rætt var um að taka þyrfti til skoðunar hvort ástæða sé til að kanna fleiri sviðsmyndir en þær fjórar sem kynntar hafa verið teyminu fram til þessa, svo sem möguleikann á að Íbúðalánasjóður starfi í breyttri mynd án ríkisábyrgðar. Einnig kom fram hvort ekki væri ástæða til að kanna nánar hvaða fyrirkomulag sé notast við í Noregi enda hafi nú þegar reynt á hvort lánveitingar Husbanken í Noregi samræmist ríkisaðstoðarreglum EES-réttar. Bent var á í því sambandi að heildsölubankaleiðin feli í sér eins konar norsk-íslenska útfærslu sem taka mætti upp hér á landi. Jafnframt komu fram sjónarmið um að rétt sé að bíða eftir niðurstöðum um hina svokölluðu „skuldaleiðréttingu“ sem til stendur að kynna í lok vikunnar áður en hafist er handa við mótun tillagna teymisins um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum