Hoppa yfir valmynd
12. desember 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Seðlabanka Íslands

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Seðlabanki Íslands auglýsti í apríl 2012 laust starf sérfræðings í lánamálum ríkisins. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærunefnd jafnréttismála taldi kæranda hafa verið að minnsta kosti jafn hæfa til að gegna starfinu og sá er ráðinn var. Konur í starfi sérfræðings hjá kærða voru umtalsvert færri og bar því kærða, með vísan til 18. gr. laga nr. 10/2008 að leitast við að jafna stöðu kynjanna hvað þau störf varðar. Seðlabanki Íslands taldist því hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. desember 2012 er tekið fyrir mál nr. 6/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 26. júlí 2012, kærði A ákvörðun Seðlabanka Íslands um að ráða karl í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hjá bankanum. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Seðlabankinn brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2012. Kærði óskaði eftir fresti til að skila greinargerð sem barst 27. september 2012 og kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. september 2012.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 9. október 2012, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. október 2012. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 31. október 2012.
 5. Með bréfi, dagsettu 13. nóvember 2012, upplýsti kærði hverjir umsækjenda hefðu komið til viðtals og hverjir tóku þau viðtöl af hálfu kærða. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir þá umsækjendur sem boðaðir voru til viðtals og samantektir þess sem fram kom í viðtölum kæranda og þess sem ráðinn var. Bréf þetta og gögn voru kynnt kæranda með bréfi, dagsettu 16. nóvember 2012.
 6. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, dagsettu 22. nóvember 2012, sem sent var kærða til kynningar þann 30. nóvember 2012. Kærði kom á framfæri athugasemdum með bréfi, dagsettu 7. desember 2012.
 7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 8. Kærði auglýsti 21. apríl 2012 laust til umsóknar starf sérfræðings í lánamálum ríkisins og voru gerðar ákveðnar hæfniskröfur auk þess sem gerð var grein fyrir inntaki starfsins. Helstu verkefni voru talin: Útgáfa ríkisbréfa og lántaka á erlendum mörkuðum, skjalagerð vegna erlendra lána ríkissjóðs, samskipti við erlenda banka, fjárfesta og aðra lánveitendur til ríkissjóðs og Seðlabankans, greiningar og skýrslugerð og aðstoð við önnur verkefni, svo sem framkvæmd útboða. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Háskólamenntun (BS/BA) í hagfræði, verkfræði eða sambærilegum greinum, þekking og reynsla af fjármálastarfsemi væri mjög æskileg, mjög gott vald á ensku og íslensku, bæði á töluðu og rituðu máli, góð almenn tölvukunnátta, frumkvæði, nákvæmni og metnaður í starfi, sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í mannlegum samskiptum og geta til að halda kynningar og erindi á íslensku og ensku. 
 9. Alls bárust 58 umsóknir en eftir að þær höfðu verið yfirfarnar með tilliti til menntunar, starfsreynslu og annarra kosta umsækjenda var ákveðið að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtöl. Að því loknu var ákveðið að bjóða karlmanni starfið sem hann þáði.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 10. Kærandi kærir þá athöfn kærða að ráða karlmann í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins þar sem sú ráðning hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá gerir kærandi að auki kröfu um að nefndin úrskurði kæranda kærumálskostnað.
 11. Kærandi telur kærða hafa brotið gegn jafnréttislögum með því að hafa gengið fram hjá henni sem umsækjanda og ráðið minna hæfan karl í starfið. Kærandi telur sig hæfari hvað varðar menntun og starfsreynslu sem nýtist beint í umræddu starfi, auk þess sem hún telur sig uppfylla betur þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið. Hæfni hennar til að gegna umræddu starfi blasi við þegar horft er til ferils, starfsreynslu og menntunar hennar. Því til viðbótar hafi hún haft framúrskarandi meðmæli.
 12. Kærandi rekur að hún hafi gegnt yfirmannsstöðu sem verðbréfamiðlari í tæp fjögur ár. Þá hafi hún einnig starfað í mörg ár við fjármögnun Landsvirkjunar sem yfirmaður lánamála og sé sú reynsla ómetanleg fyrir hið auglýsta starf. Starfið sem auglýst hafi verið sé starf svokallaðs fjárfestatengils. Í slíku starfi felist samskipti við erlenda banka sem gefa út skuldabréf fyrir kærða og öll vinna í kringum það. Meðal annars eigi þar undir samskipti við opinbera aðila, til dæmis fjármálaráðuneytið og lánshæfismatsfyrirtæki, svo sem Standard & Poors og Moody's.
 13. Kærandi bendir á að verkefni eins og í umræddu starfi, hafi hún áður sinnt í starfi sínu hjá Landsvirkjun. Þar hafi hún unnið í mörg ár sem yfirmaður lánamála en undir hana áttu þar með málefni fjárfestatengsla. Kærandi hafi því afar mikla og góða starfsreynslu af starfi á sviði fjárfestatengsla enda hafi hún þar séð um allar útgáfur á innlendum og erlendum skuldabréfum og lánum fyrir Landsvirkjun í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, sem var eitt stærsta verkefni sem ráðist hafði verið í á þeim tíma, sem og aðrar framkvæmdir.
 14. Kærandi rekur að í starfi hennar hafi falist meðal annars skjalagerð og gerð lánapappíra vegna skuldabréfa og annarra lána. Einnig hafi hún annast samskipti við opinbera aðila, þar á meðal fjármálaráðuneytið og Seðlabankann, lánshæfismatsfyrirtæki, meðal annars Standard & Poors og Moody‘s, sem og þáverandi og mögulega lánveitendur til kynningar á Landsvirkjun. Hafi kærandi því þurft í starfi sínu að halda mjög góðum tengslum við lánveitendur á alþjóðlegum fjármálamarkaði og upplýsa þá um það sem var á döfinni hjá Landsvirkjun hverju sinni.
 15. Kærandi hafi einnig séð um ákvörðunartöku hvað varðar lengd lána, stefnu í lánamálum og að ákveða hvað Landsvirkjun væri reiðubúin að greiða í álag ofan á erlenda vexti. Flest lán Landsvirkjunar voru tekin undir svokölluðum EMTN alþjóðlegum rammasamningi/lánssamningi sem þurfti að endurnýja á hverju ári og hafi kærandi annast uppfærslu á honum í samráði við erlenda lögfræðistofu. Þá hafi það verið hluti af starfi kæranda að semja um lánaskilmála í samráði við lögfræðinga og lánveitendur sem og að greina innlenda og erlenda lánamarkaði og skila skýrslu um lánamál Landsvirkjunar til eigenda, opinberra aðila og annarra hagsmunaaðila.
 16. Kærandi telur að samanburður á starfi hennar hjá Landsvirkjun og hinu auglýsta starfi leiði í ljós að um sambærileg störf sé að ræða. Í viðtali kæranda við starfsfólk kærða vegna atvinnuumsóknar hennar var meðal annars ítarlega farið yfir framangreint og rætt um þá erlendu bankamenn sem sinna málefnum Íslands. Í ljós hafi komið að um sömu einstaklinga hafi verið að ræða og kærandi var í sem mestum samskiptum við í starfi sínu hjá Landsvirkjun. Því sé reynsla hennar úr starfinu hjá Landsvirkjun í raun eins og allra best verður á kosið.
 17. Til viðbótar við starfsreynslu kæranda sem yfirmaður lánamála Landsvirkjunar og starfsreynslu hennar sem verðbréfamiðlari bætist að hún hafi unnið í tæp tvö ár í New York í Bandaríkjunum hjá Kaupthing Bank sem sérfræðingur.
 18. Kærandi gerir grein fyrir að menntun hennar sé víðtæk og hæfi hinu auglýsta starfi fullkomlega. Hún hafi BS gráðu í viðskiptafræði, diplómagráðu í viðskiptafræði, sem og meistaragráðu í viðskiptafræði (master of Business Administration, Finance and Strategy) frá Hult School of Management í Boston í Bandaríkjunum. Kærandi hafi þannig lokið framhaldsnámi frá virtum bandarískum háskóla á því sviði sem hentar hinu auglýsta starfi. Þá hafi kærandi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og sótt ýmis námskeið.
 19. Þegar borin er saman starfsreynsla og menntun kæranda og þess sem starfið hlaut verður að mati kæranda vart komist að annarri niðurstöðu en að hún hafi staðið honum mun framar. Við samanburð á starfsferilsyfirlitum telur kærandi það furðu sæta að sá sem starfið hlaut hafi verið tekinn fram fyrir hana.
 20. Kærandi rekur að af starfsferilsyfirliti þess sem starfið fékk verði ekki ráðið hvers konar framhaldsgráðu hann hafi hlotið eða hvort hann hafi slíka gráðu. Þó komi fram að hann hafi sótt nám í Odense Universitet, Ökonomi-linien veturinn 1996–1997. Af rökstuðningi kærða megi helst ráða að hann hafi ekki lokið því framhaldsnámi. Starfsferilsyfirlit hans og rökstuðningur kærða bendir eindregið til þess að hann hafi aldrei lokið framhaldsgráðu. Jafnvel þó svo hefði verið, að námi hafi lokið með framhaldsgráðu, þá standi kærandi framar þeim er starfið hlaut, hvað menntun snertir. Án framhaldsgráðu verði ráðning hans umfram kæranda enn óskiljanlegri. Staðreyndin virðist sú að karlmaður sem ekki hefur aflað sér framhaldsgráðu var tekinn fram yfir kæranda sem er kona með framhaldsmenntun.
 21. Kærandi vekur sérstaka athygli á því að hún hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum en sá sem starfið hlaut hafi ekki lokið slíku prófi.
 22. Að mati kæranda verði ekki komist að þeirri niðurstöðu að sá sem starfið hlaut hafi betri starfsreynslu en kærandi sem nýtist betur í umræddu starfi. Eins og þegar hefur verið rakið sinnti kærandi nákvæmlega sambærilegu starfi fyrir Landsvirkjun um margra ára skeið. Sá sem starfið hlaut hefur enga slíka starfsreynslu af fjárfestatengilsvinnu heldur hafi hann aðallega unnið við fjárstýringu í sparisjóði en það starf sé annars eðlis.
 23. Kærandi vekur sérstaka athygli á því að í auglýsingunni um starfið hafi verið krafist að umsækjendur þyrftu að hafa gott vald á ensku og íslensku, bæði á töluðu og rituðu máli. Ekki hafi verið gerð slík sérkrafa um kunnáttu í öðrum tungumálum. Kærandi lærði í Bandaríkjunum og starfaði einnig um nokkurra ára skeið í New York. Því til viðbótar komi fram í starfsferilsyfirliti hennar að hún sé afar vel að sér í dönsku og var það staðfest í viðtali við hana að færni hennar í dönsku væri það góð að hún geti haldið erindi og kynningar á danskri tungu.
 24. Að mati kæranda megi óbeint ráða það af starfsferilsyfirliti þess sem starfið hlaut að hann búi yfir kunnáttu í dönsku, vegna dvalar sinnar í Danmörku veturinn 1996–1997. Að öðru leyti komi ekkert fram um tungumálakunnáttu. Kærandi metur það sem svo að sá sem starfið hlaut uppfylli ekki sömu kröfur og færni og kærandi um kunnáttu í enskri tungu enda nam hann hvorki né starfaði í Bandaríkjunum, líkt hún gerði. Að mati kæranda standi hún mun framar en sá sem starfið hlaut hvað sérkröfu starfsauglýsingarinnar um kunnáttu í ensku snertir.
 25. Kærandi áréttar að þar sem kærða hafi hugnast að ráða aðila sem ekki hefur yfir sambærilegri menntun og reynslu að ráða og kærandi, þá hefði kærði átt að færa fyrir því málefnaleg rök sem stæðust skoðun. Hið sama gildi reyndar þótt um jafn hæfa einstaklinga sé að ræða. Samanburður sé því nauðsynlegur, en að mati kæranda hafi kærði ekki gert slíkan samanburð, þrátt fyrir að hún hafi sérstaklega óskað eftir rökstuðningi.
 26. Að mati kæranda geti kærði ekki fært málefnaleg rök fyrir því af hverju umsækjandi með minni reynslu og menntun en hún hafi verið valinn til starfans. Að mati kæranda hafi kærði í engu fært fram nothæf rök sem felist í samanburði á hæfi umsækjenda en slíkt væri þó í samræmi við lög, jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun kærða. Kærandi leggur sérstaka áherslu á að þegar kringumstæður eru líkt og í þessu máli, að ráðinn sé karlmaður með enga framhaldsgráðu umfram konu með framhaldsmenntun, hefði þurft að færa sérstök málefnaleg rök fyrir slíkri ráðningu en slíkt hafi ekki verið gert.
 27. Kærandi tekur fram að hún hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni. Henni hafi borist umbeðinn rökstuðningur með bréfi en þar sé ekkert að finna sem varpað geti ljósi á það af hverju sá sem starfið hlaut hafi verið valinn fram yfir hana. Í bréfinu sé enginn samanburður á hæfni þess sem starfið hlaut og hæfni hennar. Fyrir utan endurtekningu á ferilskrá þess sem starfið hlaut eru í raun aðeins nefnd tvö atriði sem skýra eiga ráðningu hans umfram kæranda, þ.e. að „falla inn í starfsmannahópinn“ annars vegar og „heildstætt mat“ hins vegar. Það sé ómögulegt að ráða í hvað það þýðir að falla inn í starfsmannahópinn og hvergi að finna neina skilgreiningu eða útskýringu á því hugtaki.
 28. Hvorugt atriðið sem nefnt hafi verið í rökstuðningnum vegi þyngra en lagaleg skylda kærða að ráða þann sem hæfastur er í starfið. Hvorugt atriðið vegi þyngra en lagaleg skylda kærða að ef tveir einstaklingar sem sækja um starfið séu jafn hæfir, þá skuli sá valinn sem er af því kyni sem hallar á í starfsmannahópi þeirrar ríkisstofnunar sem um ræðir. Að mati kæranda hafi kærði ekki aðeins ráðið þann aðila í starfið sem er minna hæfur til að gegna því, heldur hafi kærði einnig gengið fram hjá kæranda sem konu. Það er ólögmæt háttsemi við starfsmannaráðningar kærða.
 29. Að sama skapi vísar kærandi til verðleikareglu stjórnsýsluréttar, þ.e. að til staðar sé sú skylda að velja þann umsækjanda um starf sem hæfastur er, með tilliti til þeirra lögmætu sjónarmiða sem lögð eru til grundvallar ákvörðun. Stjórnvaldi sé að lögum óheimilt að synja hæfasta umsækjanda um starf og ráða annan í hans stað sem ekki telst jafn hæfur. Hvað þetta varðar vísar kærandi til dómafordæma Hæstaréttar Íslands, til dæmis mál nr. 121/2002 auk fjölmargra álita umboðsmanns Alþingis, til dæmis nr. 1391/1995 og 4210/2004.
 30. Kærandi bendir á að hún hafi fengið sendan lista yfir starfandi sérfræðinga frá kærða. Fram komi í þeim upplýsingum að það starfi 106 sérfræðingar hjá kærða, þar af séu 66 karlmenn og 40 konur. Það þýði að einungis 37% starfandi sérfræðinga kærða séu konur. Kærandi telur það afar slælega frammistöðu hjá opinberri stofnun sem hefur meira að segja samþykkt jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun.
 31. Að mati kæranda blasi því við að til að ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla væri fylgt hefði kærða verið nauðsynlegt að ráða kvenkyns umsækjanda umfram jafn hæfan karlkyns umsækjanda en kærandi sé raunar hæfari.
 32. Kærandi byggir á því að henni sé sem konu tryggður jafn réttur í hvívetna á við karla, sbr. 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. Kærandi vísar til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 þar sem fram komi að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Til þess sé kærði skuldbundinn að sinna, bæði samkvæmt tilvísuðum lögum en einnig skv. 3. mgr. jafnréttisstefnu kærða.
 33. Þá vísar kærandi sérstaklega til IV. kafla laga nr. 10/2008 um bann við mismunun á grundvelli kyns, en 26. gr. laganna bannar atvinnurekendum að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. skal atvinnurekandi sýna fram á, ef leiddar eru líkur að því að við ráðningu í starf hafi einstaklingum verið mismunað, meðal annars á grundvelli kyns, að aðrar ástæður hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Telur kærandi að með því að benda á hinn augljósa mun á menntun og starfsreynslu hennar og þess sem ráðinn var í starfið hafi hún a.m.k. leitt líkur að slíkri mismunun á grundvelli kyns. Sönnunarbyrðin hvíli því á kærða um framangreint.
 34. Kærandi byggir á því að hún hafi verið hæfari til að gegna starfinu. Um fordæmi hvað slíkar málsástæður varðar er meðal annars vísað til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 7/2008 (A gegn Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi). Þá bendir kærandi á að jafnvel þótt talið yrði að hún og sá sem ráðinn var í starfið teldust jafn hæf hefði samt sem áður átt að veita henni starfið með vísan til laga nr. 10/2008 og fordæma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í málum nr. 339/1990 og nr. 431/1995. Til þess að ráðningin yrði talin standast lög yrði nefndin að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi væri minna hæf en sá sem ráðinn var en slík niðurstaða sé útilokuð, að mati kæranda.
 35. Með vísan til framangreinds fer kærandi því fram á það að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort ráðning þess sem ráðinn var í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hjá kærða og að synja kæranda um starfið sé ólögmæt og brjóti gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA
 36. Kærði krefst þess að kærunefnd úrskurði að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar karl var ráðinn í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hjá kærða. Kærði byggir á því að umrædd ráðning í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hafi hvorki brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 né öðrum réttarreglum.
 37. Kærði rekur að í auglýsingu um starfið hafi verið gerðar ákveðnar hæfniskröfur. Þegar umsóknir höfðu verið yfirfarnar með tilliti til menntunar, starfsreynslu og annarra kosta umsækjenda hafi kærði ákveðið að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtal. Að loknu heildstæðu mati á umsækjendum var ákveðið að bjóða þeim sem ráðinn var umrætt starf sérfræðings í lánamálum ríkisins.
 38. Kærði rekur að það sé meginregla vinnuréttar, að atvinnurekandi hafi um það frjálsar hendur hvern hann velur til að starfa í sína þágu. Því vali séu þó settar þær skorður sem leiddar verða af ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar þannig háttar til að kona og karl sækja um sama starfið.
 39. Að mati kærða liggja engar vísbendingar fyrir um það í þessu máli að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns þegar umrædd ráðning átti sér stað, en hún beri sönnunarbyrðina fyrir því að slík mismunun hafi átt sér stað. Að mati kærða sýni gögn málsins þvert á móti fram á að ráðningarferlið hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og að fram hafi farið málefnalegt mat á umsækjendum óháð kyni þeirra. Kæranda hafi þannig ekki tekist að sýna fram á að ákvörðun kærða við umrædda ráðningu hafi byggst á því að sá sem ráðinn var sé karl en kærandi kona. Þegar af þeirri ástæðu séu engar forsendur fyrir því að kærði beri hallann af sönnunarskorti eða beri sönnunarbyrði að því er varðar þessi atriði. Megi í þessu sambandi vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 121/2002, 330/2003 og 686/2008.
 40. Þrátt fyrir framangreint vill kærði taka fram um hæfi þess sem ráðinn var og ástæður þess að hann var ráðinn í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins fremur en kærandi. Sá sem ráðinn var hafi útskrifast með BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1991. Hann hafi afar umfangsmikla og samfellda rúmlega tuttugu ára starfsreynslu af fjármálastarfsemi, meðal annars sem forstöðumaður hagdeildar Sparisjóðs vélstjóra á árunum 1992–1995, sem forstöðumaður fjárstýringar Sparisjóðs vélstjóra á árunum 1998–1999, sem forstöðumaður fjárstýringar, forstöðumaður áhættustýringar og sérfræðingur í greiningardeild Sparisjóðabanka Íslands á árunum 2000–2007 og sem sérfræðingur í fjárstýringu hjá Sparisjóðnum í Keflavík (síðar SpKef og Landsbankanum) á árunum 2007–2011. Einnig hafi hann starfað í sjö mánuði hjá Þjóðhagsstofnun við greiningu og endurbætur á spálíkani. Hann hafi sótt ýmis námskeið tengd fjármálastarfsemi og fjármálamörkuðum, bæði á vegum Endurmenntun Háskóla Íslands og annarra aðila, þar með talið en þó ekki eingöngu í áhættustýringu, IFRS (alþjóðlegir reikningsskilastaðlar), Basel II (alþjóðlegar reglur og staðlar um eiginfjárhlutföll og áhættustýringu fjármálafyrirtækja), gerð og lestri ársreikninga, notkun og verðlagningu á afleiðum, vilnunum o.fl. og svo verðbréfamiðlun. Enn fremur sé tölvukunnátta hans víðtæk og með ágætum.
 41. Í kæru hafi það verið staðhæft að sá sem ráðinn var uppfylli ekki sömu kröfur og færni og kærandi um kunnáttu í enskri tungu og standi henni að baki hvað þessa færniskröfu varðar enda hafi hann hvorki numið né starfað í Bandaríkjunum, líkt og kærandi gerði. Sá sem ráðinn var gæti ekki hafa starfað við fjármálastarfsemi í rúmlega tvo áratugi auk þess að sækja fjölbreytt námskeið í tengslum við störf sín nema hafa afar góð tök á enskri tungu bæði í ræðu og rituðu máli. Auk þess hafi hann búið og numið erlendis þótt ekki hafi það verið í Bandaríkjunum. Kærði hafni þar af leiðandi þessum málsástæðum sem tilhæfulausum og órökstuddum.
 42. Í máli þessu hafi kærandi lagt til grundvallar að sá sem ráðinn var hafi hvorki lokið framhaldsnámi né tekið próf í verðbréfaviðskiptum og enn fremur að kærandi standi honum framar að því er varðar dönskukunnáttu. Það, hvort hann hafi lokið framhaldsnámi eða prófi í verðbréfaviðskiptum, hefur ekki vægi í málinu, enda ekki gerð krafa um slíkt af hálfu kærða í auglýsingu um starfið.
 43. Kærði bendir á að sá sem ráðinn var hafi verið við nám í þrjár annir af fjórum við Odense Universitet (Cand. Oecon. - Økonomisk linie) í Danmörku og hafi lokið þar öllum námskeiðum, án þess þó að ljúka við lokaritgerð. Því megi segja að hann hafi ekki lokið umræddri prófgráðu, en eins og komi fram hér að framan hafi sú staðreynd ekki vægi í fyrirliggjandi máli, enda þess ekki krafist í auglýsingu. Hið sama á við varðandi færni í dönsku, en ekki var gerð krafa um að umsækjendur hefðu vald á dönsku.
 44. Kærði rekur að kærandi hafi haldið því fram að menntun hennar hæfi hinu auglýsta starfi fullkomlega og jafnframt að kærandi hafi, um margra ára skeið, sinnt nákvæmlega sambærilegu starfi hjá Landsvirkjun og kærði auglýsti laust til umsóknar. Hvað þessa staðhæfingu varðar tekur kærandi fram að matið sé hans hvort menntun og starfsreynsla umsækjenda henti því starfi sem auglýst er í hvert og eitt skipti. Mat hvers og eins umsækjanda á eigin menntun og starfsreynslu og/eða menntun og starfsreynslu annarra umsækjenda séu ekki haldbær rök.
 45. Kærði geti ekki skilið málatilbúnað kæranda á annan hátt en að með honum sé leitast við að draga úr hæfni þess sem ráðinn var eins og frekast sé unnt. Þessar málsástæður standist hins vegar ekki athugun enda sé ljóst að hann uppfylli allar þær hlutlægu hæfniskröfur sem kærði hafi gert til umsækjenda um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins og vel það. Þegar hlutlægum hæfniskröfum sleppi verði að játa þeim aðila sem ræður í starf, í þessu tilviki kærða, eðlilegt svigrúm til að vega og meta persónulega eiginleika og kosti umsækjenda. Þegar metið er hver sé hæfasti einstaklingurinn í tiltekið starf hljóti atvinnurekandi að meta heildstætt starfshæfni umsækjanda með því að líta til menntunar, reynslu, starfsviðtala og annarra eiginleika umsækjanda og hvernig þessir þættir falla að þeim verkefnum sem falla undir starf það sem sótt er um.
 46. Kærði áréttar að í kjölfar heildarmats á umsækjendum hafi það verið niðurstaða kærða að sá sem ráðinn var hafi verið hæfasti umsækjandi í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins. Það sem hafi vegið hvað þyngst í því heildarmati sé sú víðfeðma kunnátta sem hann hafi öðlast á rúmlega tuttugu ára ferli innan fjármálafyrirtækja og þar af lengst sem forstöðumaður sinna deilda. Umfangsmikil þekking hans á málefnum fjármálastofnana er að mati kærða óumdeild, jafnframt því er þekking hans á efnahagsmálum framúrskarandi, en slík þekking sé afar mikilvæg í samskiptum við innlenda og erlenda viðskiptamenn kærða.
 47. Byggir kærði enn fremur á því að mat á vægi frammistöðu í starfsviðtölum hafi að réttum lögum mikla þýðingu við slíkt heildarmat en slík sjónarmið séu að öllu leyti málefnaleg. Telji kærði þannig að fyrir liggi að heildarmat þetta hafi verið málefnalegt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Að mati kærða hafi kæranda ekki tekist að sýna fram á að henni hafi borið starfið umfram þann sem ráðinn var.
 48. Kærði rekur að í jafnréttisstefnu hans segi meðal annars að kynjunum skuli ekki mismunað við ráðningu í störf, ákvörðun launa og fríðinda, úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum, uppsagnir eða þjálfun og endurmenntun. Í jafnréttisáætlun kærða segi svo meðal annars að leitast skuli við að hafa sem jafnasta kynjaskiptingu í starfsliði kærða og einnig að þar sem halli á konur í ábyrgðarmeiri störfum skuli þess gætt að þær hafi sömu möguleika og karlar til að axla krefjandi og ábyrgðarmeiri verkefni.
 49. Kærði fer yfir að kærandi hafi haldið því fram að sú tölfræði að af 106 starfandi sérfræðingum hjá kærða séu einungis 40 konur en 66 karlar sýni svart á hvítu að jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun kærða sé einungis í orði en alls ekki í verki. Að mati kærða hafi við túlkun jafnréttislaga og jafnréttishugtaksins verið miðað við það hvort konur séu fáar, en ekki endilega hvort þær séu færri. Byggist það á því að ekki hafi verið talið raunhæft að ganga út frá því að jafnrétti sé einungis fyrir hendi þegar hnífjafnt sé milli kynjanna.
 50. Kærði hafnar því alfarið að hafa, með umræddri ráðningu, hegðað sér í andstöðu við jafnréttisstefnu sína og jafnréttisáætlun. Þótt kærði leitist við að hafa sem jafnasta kynjaskiptingu þýði það ekki að skiptingin skuli á hverjum tíma vera algjörlega jöfn. Það væri mjög erfitt, og nánast ómögulegt, að viðhalda slíkri skiptingu á svo stórum vinnustað. Í framhaldi af þessu vill kærði þó benda á að af tíu framkvæmdastjórum innan hans eru fimm konur og fimm karlar. Kærði starfi í samræmi við jafnréttisstefnu sína og jafnréttisáætlun þótt mestu máli skipti að ráða hæfasta einstaklinginn í hvert og eitt skipti. Við umrædda ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hafi það verið gert.
 51. Þegar eitt starf er auglýst til umsóknar verður það, eðli málsins samkvæmt, ekki veitt öllum hæfum umsækjendum heldur þarf að velja einn, þ.e. þann hæfasta. Þar ráði mat og samanburður á hæfni þeirra á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lögð eru til grundvallar í ráðningarferlinu. Þegar heildarmat hafði farið fram á umsækjendum hafi niðurstaðan verið sú að sá sem ráðinn var hafi verið hæfasti umsækjandinn.
 52. Með hliðsjón af öllu framangreindu hafnar kærði því að hafa mismunað kæranda á grundvelli kyns, og þar með brotið gegn lögum nr. 10/2008 þegar staðið var að ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins. Þvert á móti byggi kærði á því að ráðningarferlið hafi verið málefnalegt og í samræmi við góðar stjórnsýsluvenjur.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 53. Kærandi mótmælir því að engar vísbendingar séu um það að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns þegar umrædd ráðning átti sér stað eins og kærði haldi fram. Kærandi telur að þegar ferill, starfsreynsla og menntun hennar, ásamt öðrum atriðum sem líta má til, hefur verið borin saman við samsvarandi atriði hins ráðna sé ljóst að hún sé hæfari til starfans.
 54. Kærandi telur að í samanburði þeim sem hún hafi gert í rökstuðningi sínum felist lýsing á því hvernig kærði sneiddi framhjá henni sem hæfari umsækjanda um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins. Með þeim samanburði sé sönnunarkröfu 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 uppfyllt og hafi kærandi þannig leitt að því líkur að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ákvörðun kærða. Kærða beri því að sanna að hann hafi ekki mismunað umsækjendum á grundvelli kyns, kæranda í óhag.
 55. Kærandi hafnar því jafnframt að slík sönnun hafi tekist með rökstuðningi kærða. Þá sé því hafnað að túlkun laga nr. 10/2008 og jafnréttishugtaksins hafi „miðað við það hvort konur séu fáar, en ekki endilega hvort þær séu færri“. Kærandi vísar í þessum efnum til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, sbr. úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli A gegn innanríkisráðherra í máli nr. 2/2012 frá 28. ágúst 2012, sem laut að skipun sýslumanns á Húsavík. Í málinu hafi kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðuneytinu hefði borið að leitast við að jafna stöðu kynjanna. Verði hins vegar lögð til grundvallar sú túlkun kærða að konur verði að vera fáar til að tekið verði tillit til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, ítrekar kærandi að 40 af 106 sérfræðingum sem starfa hjá kærða séu konur. Kvenkyns sérfræðingar kærða séu því einungis 37,7% sérfræðinga kærða. Sem sagt, fáar.
 56. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála nr. 2/2012 frá 28. ágúst 2012 hafi kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu að embætti sýslumanna væru að miklum minnihluta skipuð konum, en af sýslumönnum sem ekki væru jafnframt lögreglustjórar væru fjórar konur en heildarfjöldinn væri 11. Hlutfall kvenkyns sýslumanna sem ekki séu jafnframt lögreglustjórar sé 36,4% sem sé nánast sama hlutfall og heildarfjöldi kvenkyns sérfræðinga kærða.
 57. Kærandi telur að í rökstuðningi kærða sé engin tilraun gerð til samanburðar, kærði geri einungis grein fyrir menntun, starfsreynslu og tölvukunnáttu hins ráðna án þess þó að rökstyðja frekar hvernig hinn ráðni standi kæranda framar er varðar þessi atriði.
 58. Kærandi bendir á að kærði fjalli um enskukunnáttu hins ráðna í rökstuðningi sínum en mótmælir því að sú umfjöllun leiði til þess að málsástæður kæranda í þessum efnum séu tilhæfulausar og órökstuddar eins og haldið sé fram í rökstuðningi kærða. Í öðru lagi er það mat kæranda að röksemdarfærsla kærða um að almenn reynsla hins ráðna úr starfi og vegna námskeiðasóknar geti ekki talist vega þyngra en nám og störf kæranda í ensku málumhverfi. Þá er vakin athygli á því að krafa um enskukunnáttu telst sérkrafa, sbr. auglýsingu um starfið. Að mati kæranda á þetta atriði að vega þungt, kæranda í hag.
 59. Kærandi bendir á að í rökstuðningi kærða sé það sérstaklega reifað að hinn ráðni hafi ekki lokið framhaldsnámi sem hann lagði stund á. Kærði hafi hins vegar ekki talið það hafa vægi þar sem framhaldsmenntunar hafi ekki verið krafist í auglýsingu. Kærði virðist því ekki leggja framhaldsmenntun kæranda til grundvallar mati á hæfni hennar þar sem ekki hafi verið gerð krafa um framhaldsmenntun í auglýsingu. Slík niðurstaða sé á skjön við lagaframkvæmd enda sé meiri menntun kæranda einn þeirra þátta sem geri hana að hæfari umsækjanda en sá sem ráðinn var.
 60. Kærandi mótmælir því að framhaldsnám eða námskeið hafi ekki vægi, þrátt fyrir að ekki hafi verið gerð krafa um framhaldsnám eða próf í verðbréfaviðskiptum í auglýsingu. Slík niðurstaða væri enda í andstöðu við 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 sem kveður á um að taka skuli tillit til menntunar við mat á hæfni umsækjenda, sbr. einnig úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli A gegn forsætisráðherra, nr. 3/2010, dagsettan 22. mars 2011.
 61. Að mati kæranda hafi kærði engan reka gert að því að meta hvort framhaldsmenntun og réttindi kæranda, sem óumdeilanlega séu meiri en þess sem ráðinn var, hafi verið til þess fallin að nýtast betur í starfi sérfræðings í lánamálum ríkisins en menntun hins ráðna. Þvert á móti hafi kærði haft grunnmenntun kæranda að engu og ekki eytt einu orði á framhaldsmenntun hennar.
 62. Kærandi vekur athygli á því að kærði virðist hafa lagt þunga áherslu á enskukunnáttu hins ráðna vegna þátttöku hans í hinum ýmsu námskeiðum. Það sé hrópandi ósamræmi í mati kærða, kæranda í óhag, þar sem námskeið sem hinn ráðni virðist hafa sótt séu til þess fallin að styrkja enskukunnáttu en framhaldsnám og próf kæranda í verðbréfaviðskiptum sé að engu hafandi hvort sem mat kærða lúti að menntun eða enskukunnáttu.
 63. Kærandi vekur athygli á því að kærði hafi ekki gert reka að því að bera saman reynslu kæranda við reynslu hins ráðna. Telur kærandi að slíkur samanburður myndi leiða til þess að kærandi yrði talin hæfari eða að minnsta kosti jafn hæf hinum ráðna þegar litið sé til hennar yfirgripsmiklu reynslu og þekkingar af fjármálastarfsemi.
 64. Þá mótmælir kærandi að kærði hafi mátt leggja slíka áherslu á reynslu hins ráðna. Kærandi telur að kærði hafi ekki getað lagt slíka áherslu á kunnáttu og þekkingu hins ráðna á fjármálafyrirtækjum, málefnum þeirra og efnahagsmálum og byggt svo á þeim sem ákvörðunarástæðu þess heildarmats sem kærði vísar ítrekað til. Slíkt samræmist ekki kröfum sem gerðar voru í auglýsingu til starfans þar sem reynsla og þekking af fjármálastarfsemi var talin mjög æskileg. Ef kæranda hefði verið ljóst að slík ofuráhersla yrði lögð á þekkingu umsækjenda af málefnum fjármálastofnana og efnahagsmálum hefði kærandi einnig getað vakið frekari athygli og dregið fram með enn frekari hætti yfirgripsmikla þekkingu sína á fjármálafyrirtækjum og málefnum fjármálastofnana. Kærði virðist hafa lagt þunga áherslu á eina hæfniskröfu umfram aðrar án þess að kærandi væri um það upplýst og án þess að auglýsing kærða gæfi það til kynna.
 65. Kærandi bendir á að þessi leynda áhersla kærða á reynslu og þekkingu hins ráðna sýni fram á hið ómálefnalega mat kærða og að svo virðist sem hér sé um eftiráskýringu að ræða til að réttlæta ráðningu sem sé á skjön við lög. Að mati kæranda sé enginn reki gerður af hálfu kærða að því að reifa með viðlíka hætti menntun, þekkingu eða reynslu kæranda eins og gert hafi verið í tilfelli hins ráðna. Kærandi telji að í öllu falli hafi verið gert meira úr þekkingu og reynslu hins ráðna en efni standi til og með ómálefnalegum hætti verið reynt að draga úr þekkingu og reynslu kæranda.
 66. Kærandi hafnar því að mat hennar á eigin menntun séu óhaldbær rök, eins og kærði haldi fram. Mat kæranda í þessum efnum hafi byggt á hefðbundnum viðmiðum um inntak framhaldsnáms kæranda. Kærði hafi slík almenn viðmið að engu þegar kærði hafi komist að þeirri niðurstöðu að framhaldsnám kæranda í viðskiptum, fjármálum og stjórnun séu að engu hafandi.
 67. Kærandi áréttar að hún hafi vísað í umsókn sinni til fyrrum samstarfsmanna sinna sem hafi verið reiðubúnir að veita kærða umsögn sína um kæranda og meðmæli, meðal annars með tilliti til starfsreynslu. Kærði virðist hins vegar ekki hafa gert neinn reka að því að til leita til umsagnaraðila kæranda meðan á ráðningarferlinu stóð en umsagnaraðilar hafi staðfest við kæranda að kærði hafi ekki haft samband við þá.
 68. Kærandi mótmælir málsástæðum kærða þar sem vísað sé til frammistöðu hins ráðna í starfsviðtali sem óhaldbærum enda hafi ekki verið gerð tilraun til þess af hálfu hins kærða að sýna fram á betri frammistöðu hins ráðna en kæranda, svo sem krefjast verður í samræmi við úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli A gegn innanríkisráðherra í máli nr. 2/2012 frá 28. ágúst 2012.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA
 69. Kærði gerir athugasemdir við það að með samanburði á kæranda annars vegar og þeim sem ráðinn var hafi kærandi sýnt fram á hvernig sneitt hafi verið framhjá kæranda sem hæfari umsækjanda um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins og að með þeim samanburði hafi sönnunarkröfu 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 verið fullnægt. Slíkur samanburður jafngildi ekki sönnun líkt og kærandi virðist ganga út frá. Að mati kærða virðist samanburður kæranda vera tilraun til að gera lítið úr námi, starfsreynslu og öðrum kostum þess sem ráðinn var.
 70. Að því er varðar athugasemdir um að skort hafi á samanburð á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var, bendir kærði á að í málinu liggi fyrir ferilskrár auk annarra gagna þar sem menntun, starfsreynsla og önnur kunnátta þeirra sé tilgreind með ítarlegum hætti. Með hliðsjón af þessari staðreynd hafi ekki verið talin ástæða til að birta heildstæð yfirlit yfir menntun, starfsreynslu og aðra kosti þeirra í greinargerðinni. Þess í stað hafi verið lögð sérstök áhersla á ástæður þess af hverju sá sem ráðinn var hafi verið ráðinn, þ.e. þær staðreyndir sem gerðu það að verkum að hann hafi verið metinn hæfari en kærandi að loknu málefnalegu ráðningarferli. Kærði hafi litið svo á að hagfræðimenntun hans og löng víðtæk starfsreynsla félli betur að þeim hæfniskröfum sem gerðar voru.
 71. Að mati kærða virðist ákveðins misskilnings gæta hjá kæranda varðandi hugtakið framhaldsnám. Í kæru hafi verið lagt til grundvallar að sá sem ráðinn var hafi aldrei lokið framhaldsnámi og í rökstuðningi kæranda hafi það verið gefið til kynna að kærði hafi ekki gert kröfu til umsækjenda um að þeir hefðu lokið slíku námi. Hefðbundið sé að telja hvers kyns háskólanám sem framhaldsnám. Það sé því rangt hjá kæranda að halda því fram að kærði hafi ekki gert kröfu um framhaldsnám og að sá sem ráðinn var hafi aldrei lokið slíku námi. Í þessum efnum bendir kærði á að hagfræðimenntun þess sem ráðinn var falli fullkomlega að þeim kröfum sem kærði hafi gert til framhaldsmenntunar umsækjenda.
 72. Við mat á umsækjendum um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hafi verið tekið mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum þeirra, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Í rökstuðningi kæranda hafi verið látið að því liggja að ráðningarferlið hafi verið í andstöðu við umrætt ákvæði þar sem ekki hafi verið tekið tillit til menntunar við mat á hæfni umsækjenda. Kærði hafnar þessu því ekki eingöngu hafi verið tekið tillit til menntunar við mat á umsækjendum heldur hafi það verið ein af hæfniskröfum að umsækjendur væru háskólamenntaðir (BS/BA) í hagfræði, verkfræði eða sambærilegum greinum. Líkt og komi fram í ákvæðinu hafi umsækjendur þó ekki eingöngu verið metnir á grundvelli menntunar heldur einnig starfsreynslu, sérþekkingar og annarra sérstakra kosta.
 73. Varðandi staðhæfingar um að kærði hafi byggt á einni hæfniskröfu, þ.e. reynslu af fjármálastarfsemi, umfram aðrar án þess að auglýsing bankans hafi gefið það til kynna bendir kærði á að við mat á hæfni umsækjenda um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hafi þekking og reynsla af fjármálastarfsemi mikið vægi þótt slík reynsla sé, ein og sér, ekki ákvörðunarástæða. Kærði hafi ekki talið sérstaka ástæðu til að upplýsa umsækjendur um það, að meira marki en gert var með auglýsingunni, að reynsla þeirra af fjármálastarfsemi skipti máli.
 74. Kærði áréttar að við ráðningu sé tekið mið af menntun, starfsreynslu og öðrum kostum umsækjenda. Samkvæmt öllu framangreindu sé niðurstaðan því sú að í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins hafi verið ráðinn hagfræðingur með mikla reynslu af fjármálastarfsemi en ekki viðskiptafræðingur með minni reynslu af fjármálastarfsemi.
 75. Í ljósi umfjöllunar kæranda um þá staðreynd að færri konur séu í störfum háskólamenntaðra sérfræðinga en karlar hjá kærða, er því komið á framfæri að árið 2012 starfa hjá kærða 149 starfsmenn, þar af séu 80 karlar og 69 konur, hlutfall kvenna sé 46,3%. Framkvæmdastjórar kærða árið 2012 séu tíu, þar af séu fimm karlar og fimm konur, hlutfall kvenna sé 50%. 
 76. Tilvísun kæranda til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála nr. 2/2012 eigi ekki við rök að styðjast enda aðstæður í því máli ekki hæfar til samanburðar. Tölfræði um fjölda sýslumanna sé ekki samanburðarhæf við fjölda starfsmanna kærða og fjölda háskólamenntaðra sérfræðinga.

  NIÐURSTAÐA
 77. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 78. Kröfur til umsækjenda um starf sérfræðings í lánamálum ríkisins voru skilgreindar af hálfu kærða í auglýsingu um starfið. Í auglýsingunni var þannig áskilið að umsækjendur þyrftu að fullnægja hæfniskröfum sem fólust í að hafa háskólamenntun, BS eða BA gráðu, í hagfræði, verkfræði eða sambærilegum greinum, þá var þekking og reynsla af fjármálastarfsemi talin mjög æskileg, mjög gott vald á íslensku og ensku, bæði rituðu og töluðu máli, nauðsynlegt og góð almenn tölvukunnátta. Þá yrðu umsækjendur að búa að frumkvæði, nákvæmni og metnaði í starfi, sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í mannlegum samskiptum og búa yfir getu til að halda kynningar og erindi á íslensku eða ensku.
 79. Starfinu sjálfu var lýst svo í auglýsingu að það lyti að útgáfu ríkisbréfa og lántöku á erlendum mörkuðum, skjalagerð vegna slíkra lána og samskipti við erlenda banka, fjárfesta og aðra lánveitendur ríkissjóðs og Seðlabankans. Þá fælist í starfinu greiningar og skýrslugerð og aðstoð við önnur verkefni, svo sem framkvæmd útboða.
 80. Af hálfu kærða virðist sérstök skrifleg samantekt um hæfi umsækjenda ekki hafa verið gerð en kærði vísaði til samanburðar á umsóknargögnum umsækjenda. Báðir umsækjendur, kærandi og sá sem starfið hlaut, voru í hópi þeirra fimm umsækjenda sem komu til viðtals hjá kærða sem ákvað í kjölfar þess að ráða karlmann til starfsins að sögn á grundvelli heildarmats. Kærði greindi frá því að miklu hafi varðað í þeim efnum starfsreynsla þess sem starfið hlaut innan fjármálafyrirtækja og þar af lengst sem forstöðumaður sinna deilda um tuttugu ára skeið en á þeim tíma hafi hann öðlast víðfeðma kunnáttu. Hann búi að umfangsmikilli þekkingu á málefnum fjármálastofnana og þá sé þekking hans á efnahagsmálum framúrskarandi. Slík þekking sé afar mikilvæg í samskiptum við innlenda og erlenda viðskiptamenn kærða. Byggir kærði enn fremur á því að mat á vægi frammistöðu í starfsviðtölum hafi að réttum lögum mikla þýðingu við slíkt heildarmat en slík sjónarmið séu að öllu leyti málefnaleg. Af fyrirliggjandi samantektum frá starfsviðtölum kæranda og þess sem starfið hlaut má ráða að um nokkuð ólíka einstaklinga sé að ræða. Verður þó ekki ráðið af samantektunum að þar halli á kæranda hvað persónulega eiginleika eða hæfni snertir.
 81. Kærði hefur hvorki í rökstuðningi til kæranda né í athugasemdum sínum til kærunefndar jafnréttismála tekið afstöðu til starfsreynslu kæranda eða menntunar hennar. Þá er af hálfu kærða ekki tekin afstaða til frammistöðu kæranda eða þess sem starfið hlaut í starfsviðtölum. Kærði hefur ekki gert grein fyrir mati sínu á hæfni kæranda út frá menntun og starfsreynslu til þess að gegna starfi sérfræðings í lánamálum ríkisins.
 82. Þá hefur kærði ekki látið í té gögn sem fela í sér umfjöllun um mat á nokkrum af skilgreindum hæfnisþáttum samkvæmt auglýsingu um starfið, svo sem frumkvæði umsækjenda, nákvæmni og metnað í starfi, sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í mannlegum samskiptum og því að búa yfir getu til að halda kynningar og erindi á íslensku eða ensku. Í athugasemdum til kærunefndar hefur kærði ekki vikið að samanburði á kæranda og þeim sem starfið hlaut í þessum efnum. Liggur þannig ekki fyrir kærunefnd jafnréttismála á hvern hátt þessir hæfnisþættir hafa komið til skoðunar í heildarmati á umsækjendum af hálfu kærða.
 83. Kærandi og sá sem starfið hlaut hafa bæði lokið háskólaprófi. Kærandi hafði lokið BSc-námi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst, auk mastersgráðu frá Hult School of Management í Boston í Bandaríkjunum. Þá hefur hún einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum auk þess sem hún hefur sótt ýmis námskeið. Sá sem starfið hlaut lauk námi í hagfræði frá Háskóla Íslands og lagði auk þess stund á hagfræðinám við Odense Universitet í Danmörku án þess að ljúka námi. Þá sótti hann einnig ýmis námskeið. Kærði fullyrðir að menntun þess sem ráðinn var falli betur að þeim hæfniskröfum sem gerðar voru til starfsins en ekki liggur fyrir að hvaða leyti hagfræðimenntun þess sem ráðinn var félli betur að starfinu en menntun kæranda. Að mati kærunefndarinnar hafði kærandi meiri menntun en sá sem starfið hlaut þegar ákvörðun um ráðningu var tekin en ótvírætt er að nám í viðskiptafræði fellur undir kröfur um menntun sem gerðar voru í auglýsingu um starfið.
 84. Varðandi reynslu af þeim verkefnum sem kærði skilgreindi að fælust í starfinu hefur kærandi greint frá því að hún hafi gegnt starfi hjá Landsvirkjun þar sem hún hafi unnið um fjögurra ára skeið að sambærilegum verkefnum við lánsfjármögnun og átt í því starfi í miklum samskiptum við erlenda banka sem gefa út skuldabréf fyrir Landsvirkjun. Þar á meðal hafi hún átt hlut að útgáfu skuldabréfa vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þá hafi hún einnig átt í samskiptum við opinbera aðila og erlend lánshæfismatsfyrirtæki og annast ýmsar kynningar á Landsvirkjun fyrir lánveitendur. Þá hafi hún jafnframt starfað hjá Kaupþingi banka hf. bæði í Bandaríkjunum og hérlendis og hjá verðbréfafyrirtækjum um nokkurra ára skeið, einkum við verðbréfamiðlun og þar af sem yfirmaður í tæp fjögur ár. Sá sem starfið hlaut hefur víðfeðma starfsreynslu af vettvangi fjármálastofnana, einkum hjá sparisjóðum og Sparisjóðabanka Íslands. Í störfum sínum gegndi hann meðal annars forstöðumannsstörfum hagdeilda og fjárstýringa. Þau síðarnefndu fólu í sér ábyrgð á lausafjárstöðu viðkomandi fjármálastofnunar og samskipti við innlendar og erlendar fjármálastofnanir. Að mati kærunefndar stóðu kærandi og sá sem starfið hlaut nokkuð jafnt að vígi varðandi starfsreynslu. Kærandi býr að starfsreynslu sem lýtur að hluta til beinlínis að helstu verkefnum sérfræðings í lánamálum ríkisins, sá sem starfið hlaut býr að samfelldri reynslu hjá fjármálastofnunum sem nýtist án vafa vel í þessu starfi.
 85. Kærði hefur ekki gert grein fyrir á hvern hátt aðrir hæfnisþættir hafi verið metnir sem hluti þess heildstæða mats sem hafi verið grundvöllur ráðningar. Við þær aðstæður verða ekki aðrar ályktanir dregnar en þær að það sem fram hafi komið í viðtölum hafi ekki haft sérstök áhrif á niðurstöðu um hæfni umsækjenda. Þó má ætla að tungumálakunnátta kæranda sé meiri en þess sem starfið hlaut þar sem fyrir liggur í umsóknargögnum að kærandi lagði stund á nám og starfaði um nokkurra ára skeið í Bandaríkjunum. Í starfsviðtali greindi hún jafnframt frá því að hafa búið um átta ára skeið í Danmörku og tali dönsku reiprennandi. Sá sem starfið hlaut greinir frá sæmilegri kunnáttu í ensku og að hann sé þokkalegur í dönsku eftir námsdvöl í Danmörku.
 86. Eins og fram er komið er starfsreynsla bæði þess sem starfið hlaut og kæranda áþekk um sumt og eftirsóknarverð í hið auglýsta starf. Þó virðist sem starfsreynsla kæranda kunni að hafa staðið starfinu nær. Þegar til þess er horft og að ekki liggur fyrir hvað það er í menntun þess sem starfið hlaut sem nýtist betur í starfinu og meiri menntunar kæranda telur kærunefndin að kærandi hafi verið að minnsta kosti jafn hæf til að gegna starfinu og sá er ráðinn var.
 87. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum kærða voru starfandi sérfræðingar þegar hin umdeilda ráðning átti sér stað 106, þar af voru 66 karlmenn og 40 konur. Samkvæmt þessu eru konur í starfi sérfræðings hjá kærða talsvert færri. Bar því kærða, með vísan til 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að leitast við að jafna stöðu kynjanna hvað slík störf varðar. Hlutföll kynja í starfi framkvæmdastjóra eða í heildarfjölda starfsmanna kærða breyta því ekki.
 88. Kærði hefur rökstutt ráðningu sérfræðings með því að þegar hlutlægum hæfniskröfum sleppi verði að játa þeim aðila sem ræður í starf eðlilegt svigrúm til að vega og meta persónulega eiginleika og kosti umsækjenda. Þegar metið er hver sé hæfasti einstaklingurinn hljóti atvinnurekandi að meta heildstætt starfshæfni umsækjenda með tilliti til menntunar, reynslu, starfsviðtala og annarra eiginleika. Við þær aðstæður sem raktar hafa verið, að umsækjendur stóðu nokkuð jafnt að vígi varðandi hlutlæga þætti hæfnismatsins, var nauðsynlegt að kærði gætti sérstakrar varkárni við huglægt mat á hæfni sem í auglýsingu var lýst, sem svo að umsækjendur yrðu að búa að frumkvæði, nákvæmni og metnaði í starfi, sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í mannlegum samskiptum og búa yfir getu til að halda kynningar og erindi á íslensku eða ensku. Kærði hefur ekki gert grein fyrir á hvern hátt þessir matsþættir hafi haft áhrif við heildarmat á umsækjendum. Af þeim sökum getur skírskotun til slíkra matsþátta ekki ráðið úrslitum í máli þessu.
 89. Þá var af hálfu kærða ekki leitað álits umsagnaraðila kæranda og er raunar ekki upplýst hvort leitað hafi verið til umsagnaraðila þess sem starfið hlaut. Kærði hefur ekki, svo séð verði, lagt málefnalegt mat á hæfni kæranda að þessu leyti og vegið hana á móti hæfni þess er ráðinn var. Hann hefur heldur ekki tiltekið atriði sem komið hafi fram í viðtölum við umsækjendur eða að öðru leyti fært fram einhver þau sjónarmið sem geri það að verkum að kærandi hafi ekki verið metin jafn hæf og sá er ráðinn var til að fást við hið auglýsta starf. Hefur kærði því að mati kærunefndar ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einnig 5. mgr. sömu greinar.
 90. Með vísan til framangreinds hefur kærði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Seðlabanki Íslands braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins.

Seðlabanki Íslands greiði kæranda, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Björn L. Bergsson

Grímur Sigurðsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira