Hoppa yfir valmynd
7. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Sameining heilbrigðisstofnana

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni með því að ráðast í sameiningu heilbrigðisstofnana á fjórum svæðum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. 

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka og styrkja  þjónustu við íbúana, nýta betur þekkingu fagfólks og skapa sterkari rekstrareiningar. Sameiningin skapar sömuleiðis möguleika á því að auka nærþjónustu við íbúana, t.d. með reglubundnum komum sérfræðilækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til hinna ýmsu starfsstöðva á viðkomandi svæðum.

Heilbrigðisráðherra hefur falið embættismönnum ráðuneytisins að vinna að sameiningunni í náinni samvinnu við heimamenn á næstu mánuðum. Fulltrúar ráðuneytisins munu á næstu vikum heimsækja og funda með fulltrúum viðkomandi sveitarfélaga, forsvarsmönnum stofnana, fagfólki og fleirum. Stefnt er að því að tillögur um framkvæmd sameininganna liggi fyrir í byrjun júní og að þær verði að fullu komnar til framkvæmda um næstu áramót.  Af þessu tilefni var í morgun haldinn fundur í heilbrigðisráðuneytinu með forstöðumönnum viðkomandi heilbrigðisstofnana um hvernig best væri að standa að sameiningunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum