Hoppa yfir valmynd
14. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Tilkynning forstjóra og lækningaforstjóra LSH til starfsmanna

Í tilkynningunni frá Magnúsi Péturssyni til starfsmanna segir:

“Núna í lok marsmánaðar 2008 læt ég af störfum sem forstjóri Landspítala, samkvæmt samkomulagi milli mín og heilbrigðisráðherra.

Starfsmönnum spítalans þakka ég afar farsælt og ánægjulegt níu ára samstarf. Landspítali hefur tekið mikilvægum breytingum á þessum tíma fyrir atbeina stjórnvalda og starfsfólks. Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík var gæfuspor og góðan árangur af henni má fyrst og síðast þakka samstöðu starfsfólksins sem sá í henni stórbættar aðstæður fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, nemendur í heilbrigðisvísindum og mun betri vinnuaðstöðu.  Eftir þrotlaust undirbúningsstarf stjórnvalda á undanförnum árum, mörg hundruð starfsmanna Landspítala og Háskóla Íslands og fleira fólks liggur loks fyrir að nýtt háskólasjúkrahús verður byggt og þannig skapast tækifæri til að efla starfsemina enn frekar.

Landsmönnum er hlýtt til Landspítala og bera til hans mikið traust,  eins og ráða má af skoðanakönnunum og umsögnum.  Þetta traust hefur verið okkur öllum ánægjulegt og styrkur að finna fyrir því.  Það er mikilvægt að glata ekki slíku trausti en viðhalda því áfram með góðum verkum, öflugri þjónustu og samstöðu starfsfólks.

Á næstu dögum mun ég ganga frá eða beina í farveg ýmsum málum sem hafa sérstaklega snúið að mér en er ólokið við.  Að því loknu sný ég mér að öðrum verkefnum. Ég ítreka þakkir mínar til starfsfólksins sérstaklega fyrir einkar ánægjulegt samstarf á undanförnum árum og vonast til þess að eiga ykkur áfram að sem kunningja og vini í störfum og leik.”

Jóhannes M. Gunnarsson, segir í tilkynningu sinni til starfsmanna þetta:

“Í dag er minn síðasti starfsdagur um sinn sem framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala. Að samkomulagi hefur orðið að ég fari í leyfi næstu fimm ár frá starfi mínu til þess að vinna að áframhaldandi undirbúningi byggingar og skipulagningu nýs háskólaspítala. Þetta verkefni er mikil ögrun og verður einkar ánægjulegt að taka þátt í því að efna það fyrirheit sem gefið var þegar tekin var ákvörðun um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík, þ.e. að byggt yrði undir einu þaki nútímalegt háskólasjúkrahús sem hefði nægjanlega burði sem slíkt hvað varðar stærð, fjölbreytileika í þjónustu og vísindalegan grunn. Án þessa fyrirheits hefði sameining aldrei getað orðið að veruleika.

Ég stend í mikilli þakkarskuld við fjölmarga samstarfsmenn innan spítalans, sem tekið hafa þátt í flóknu skipulagsferli tveggja sameininga sjúkrahúsa síðustu 15 árin. Allt orkar tvímælis þá gert er og engin undur að svo hafi orðið þegar ólíkum menningarheimum er steypt saman. Þetta hefur orðið mér mikill lærdómur sem vonandi nýtist í nýju verkefni. Vænti ég áfram góðrar samvinnu við starfsmenn spítalans sem munu taka virkan þátt í verkefninu.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum