Hoppa yfir valmynd
17. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Hagstætt að semja við einkaaðila um heilsugæsluþjónustu

Ekkert bendir til annars en að það sé hagkvæmt fyrir heilbrigðisyfirvöld að semja við einkaaðila um að veita heilsugæsluþjónustu þegar horft er til kostnaðar og gæða. Þetta kom meðal annars fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn frá Ástu Möller, Sjálfstæðisflokki, um rekstrarkostnað og gæði heilbrigðisþjónustu sem einkaaðilar sinna borið saman við opinbera aðila. Ráðherra svaraði fyrst til um gæði þjónustunnar: “Því er til að svara að landlæknisembættið hefur lögum samkvæmt það hlutverk að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og hafa eftirlit með henni. Til þess að sinna þessu hlutverki gefur embættið út m.a. tilmæli, viðmið og leiðbeiningar, fylgist með því að faglegar kröfur hvarvetna í heilbrigðisþjónustunni séu uppfylltar og hefur eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki. Eitt af hlutverkum landlæknisembættisins er að hafa eftirlit með starfsemi heilbrigðisstofnana og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Unnið hefur verið að því að gera þetta eftirlit markvissara og skipulagðara. Við úttekt á heilbrigðisstofnunum eru notaðar kannanir meðal notenda heilbrigðisþjónustunnar, stjórnenda og starfsfólks. Einnig er farið í fyrirliggjandi tölulegar upplýsingar, kvartanir og kærur og þar að auki eru stofnanir heimsóttar. Í þeim athugunum sem landlæknisembættið hefur staðið fyrir á undanförnum árum hefur ekki komið fram munur á gæðum heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu opinberra aðila eða einkaaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Þess ber þó að geta að kannanir landlæknisembættisins hafa enn sem komið er fyrst og fremst beinst að hverri stofnun fyrir sig fremur en samanburði við aðra aðila á sama starfssviði. Viðhorfskannanir sem gerðar hafa verið meðal notenda heilsugæslunnar benda til þess að þeir séu almennt ánægðir með þjónustuna og enn frekar með þjónustu sem veitt er af einkaaðilum.”

Ásta Möller spurði heilbrigðisráðherra einnig um fjárhagslega hagkvæmni í rekstri  einkaaðila og opinberra aðila og ráðherra svaraði: “Því er til að svara, virðulegi forseti, að víðtækar rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni einstakra þátta heilbrigðisþjónustu eftir rekstrarformi liggi ekki fyrir hér á landi. Fyrir fáeinum árum gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem borinn er saman einingakostnaður vegna almennrar þjónustu heilsugæslulækna hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Á þeim tíma var kostnaður á hverja einingu nokkru hærri hjá heilsugæslunni, en hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Við skoðun ráðuneytisins á þjónustu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu bendir ekkert til annars en að hagkvæmt sé fyrir hið opinbera að gera samninga við einkaaðila um veitingu þjónustu í heilsugæslu hvort sem litið er til gæða eða rekstrarþátta.”

Í máli ráðherra kom síðar fram að samkvæmt stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum væri áformað að koma á fót heildstæðu árangursmatsferli á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og væru bundnar vonir við að þá yrði auðveldara að bera saman gæði heilbrigðisþjónustu sem veitt er af mismunandi aðilum á næstu árum. Kom fram hjá ráðherra að ný stofnun sjúkratrygginga tæki til starfa 1. september 2008 og myndi hún sjá um kaup og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu út frá ákveðnum gæða-, árangurs- og kostnaðarviðmiðunum. Stofnuninni væri ætlað að tryggja að magn, gæði og kostnaður yrði í samræmi við gerða samninga, hvort sem um væri að ræða opinberan rekstur eða einkarekstur. Þannig myndi þegar fram liðu stundir verða mögulegt að fá góðan samanburð á hagkvæmni og gæðum í heilbrigðisþjónustu og bera saman hvaða rekstraraðilar skila bestum árangri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum