Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 257/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 257/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050038

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 6. mars 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. janúar 2018, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. mars 2018. Þann 20. mars 2018 framsendi Útlendingastofnun til kærunefndar tölvupóst, dagsettan 19. mars 2018, sem sendur hafði verið til stofnunarinnar fyrir hönd kæranda þar sem farið var fram á frest til þess að leggja fram gögn varðandi beiðni um frestun réttaráhrifa. Með tölvupósti dags. 20. mars 2018 staðfesti kærunefnd móttöku á beiðni aðila um frestun réttaráhrifa. Með tölvupósti þann 26. mars 2018 barst kærunefnd beiðni um frestun réttaráhrifa. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 4. maí 2018.

Þann 18. maí 2018 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 31. maí 2018. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur m.a. fram að hann hafi verið fluttur á bráðamóttöku Landspítalans þann 26. apríl sl. eftir að liðið hafi yfir hann í viðtali hjá þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða en talið hafi verið að hann hefði innbyrt mikið magn lyfja. Hann hafi síðar verið fluttur til geðlæknateymis Landsspítalans og á endanum verið lagður inn á bráðamóttöku geðsviðs þar sem hann hafi dvalið í nokkra daga. Hann hafi verið útskrifaður af spítala þann 30. apríl sl. og sé nú í eftirliti og áframhaldandi meðferð og lyfjagjöf hjá Göngudeild sóttvarna. Kærandi telji að þar sem andlegri heilsu hans hafi hrakað mikið undanfarna mánuði þá sé ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að málsatvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður var kveðinn upp í máli hans.

Þá bendir kærandi á að í máli hans séu uppi sérstakar ástæður sem gera það að verkum að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til lögskýringargagna, úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. 410/2017 og nýlegrar reglugerðarbreytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 máli sínu til stuðnings.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 6. mars 2018, sbr. úrskurð nr. 104/2018. Þá hefur nefndin áður tekið afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa með úrskurði nr. 225/2018 frá 4. maí 2018. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nr. 104/2018 og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu. Meðal gagna málsins eru göngudeildarnóta […] læknis, dags. 27. apríl 2018, læknabréf […] sérfræðilæknis, dags. 30. apríl 2018, komunótur Göngudeildar sóttvarna, dags. 21. mars til 16. maí 2018, og nóta […], sérfræðilæknis, dags. 24. maí 2018. Í framangreindri göngudeildarnótu, dags. 27. apríl 2018, kemur fram að samkvæmt stuðningsfulltrúa hafi kærandi virst undir áhrifum lyfja og að liðið hafi yfir hann. Einnig kemur fram að það sé álit læknisins að miðað við sögu sé ólíklegt að um sé að ræða áfallastreituröskun eða að kærandi sé að þróa með sér „acute pshycosu“ en að greinileg vanlíðan sé til staðar. Í framangreindu læknabréfi, dags. 30. apríl 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið lagður inn á móttökugeðdeild frá 27. til 30. apríl 2018. Kærandi hafi sýnt mikla leikræna tilburði á slysadeildinni, hafi verið einkennilegur í háttum og stjarfur í hreyfingum og tali. Þá kemur fram að lengri dvöl á móttökugeðdeild sé óþörf og að haft hafi verið samband við stjórnvöld og þeim ráðlagt að flýta fyrir brottflutningi kæranda til viðtökuríkis. Þá kemur fram í nótu sérfræðilæknis, dags. 24. maí 2018, að kærandi hafi komið á spítalann vegna þess að hann hafi fundið fyrir verkjum fyrir brjósti. Kærandi hafi m.a. greint frá því að honum líði ekki vel og hann sé kvíðinn. Þá kemur ennfremur fram að líkur séu til þess að kærandi sé að gera sér upp einhver einkenni. Var það m.a. niðurstaða læknisins að ávísa tilteknum lyfjum til kæranda.

Í úrskurði kærunefndar nr. 104/2018 kemur fram að kærandi hafi greinst með þunglyndi hér á landi. Enn fremur var kærandi ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu enda var það mat nefndarinnar að gögn málsins gæfu ekki til kynna að andlegir kvillar kæranda næðu því alvarleikastigi. Þá var ekki talið að kærandi hefði sérstakar þarfir sem taka þyrfti tillit til við meðferð máls hans hér á landi. Þá lágu fyrir skýrslur varðandi aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Meðal þess sem kemur fram í skýrslum um aðstæður í Þýskalandi er að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Lagt var til grundvallar að kærandi gæti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi í Þýskalandi og að gögn málsins hafi ekki borið það með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar hans hafi í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Það var niðurstaða kærunefndar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar breyta þau nýju gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi heilsufar hans ekki grundvelli máls kæranda hjá kærunefnd.

Að mati kærunefndar benda gögnin ekki til þess að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða séu þess eðlis að aðstæður kæranda teljist hafa breyst verulega frá því að ákvörðun kærunefndar var tekin. Við þetta mat hefur kærunefnd m.a. litið til 4. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 104/2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

Hjörtur Bragi Sverrisson                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum