Hoppa yfir valmynd
18. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 221/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 221/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020059

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. febrúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. október 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 12. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 27. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. mars 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn frá kæranda þann 2. júní 2020. Með tölvupósti þann 16. júní s.á. var kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum og barst svar ásamt viðbótargögnum sama dag. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í Rússlandi vegna áreitis af hálfu glæpasamtaka. Þá sé hann í hættu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í [...]. Kærandi hafi flutt til Rússlands þegar hann hafi verið um tvítugur til að stunda nám og sé núna rússneskur ríkisborgari. Kærandi hafi rekið fyrirtæki í verslunarrekstri í Rússlandi sem hafi vegnað vel, hann hafi haft góðar tekjur og átt eignir en ofsóknir í hans garð hafi gert það að verkum að hann hafi neyðst til að flýja.

Kærandi hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að skipulögð glæpasamtök hafi farið að krefja hann um reglubundnar greiðslur vegna verslunarinnar. Í fyrstu hafi hann greitt þeim en svo hafi komið að því að hann hafi ekki náð að standa í skilum. Hann hafi í eitt skipti verið stöðvaður af meðlimum glæpasamtakanna þegar hann hafi verið akandi og hafi hann gefið þeim þá peninga sem hann hafi haft á sér. Tveimur til þremur mánuðum síðar hafi þeir komið aftur, krafið hann um frekari greiðslur og haft í hótunum við hann. Árið 2014 hafi hann verið skotinn af meðlimi samtakanna. Kærandi hafi þá ferðast með fjölskyldu sína til [...] til að tryggja öryggi þeirra og ferðast sjálfur á milli landanna til að halda rekstri verslananna gangandi. Eftir að hafa verið á flótta um tíma hafi kærandi talið óhætt að snúa til baka með fjölskyldu sína til Rússlands árið 2017. Skömmu síðar hafi kærandi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás þegar að fjórir menn hafi ráðist á hann vopnaðir járnrörum. Kærandi hafi þá aftur flutt fjölskyldu sína til [...] og sjálfur ferðast á milli landanna til að vernda fjölskyldu sína. Síðasta skiptið sem glæpasamtökin hafi haft í hótunum við kæranda hafi verið þegar að maður hafi hótað að stinga hann með sprautu sem að hans sögn innihéldi eyðniveiru.

Kærandi kveður glæpasamtökin beina athygli sinni að fólki sem beri það með sér að vera innflytjendur, t.a.m. [...] eins og hann. Kærandi hafi leitað til lögreglunnar en hún hafi ekki veitt honum neina vernd. Kærandi telji að lögreglan tengist samtökunum og sú staðreynd að kærandi [...] geri það að verkum að hann eigi erfitt með að fá vernd. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa orðið fyrir áreiti í [...] en meðlimir trúarlegrar hreyfingar hafi haft í hótunum við hann og fjölskyldu hans.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Rússlandi og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísar kærandi til skýrslna og frétta, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Rússlandi og skýrslu mannréttindasamtakanna Freedom House, en heimildir beri með sér að í landinu tíðkist alvarleg mannréttindabrot. Þá fjallar kærandi um skipulögð glæpasamtök í Rússlandi en þau séu stórt og víðtækt vandamál þar í landi. Slík samtök standi m.a. á bak við fjárkúganir, fíkniefnasölu, fjárhættuspil og vændi. Kveður kæranda að fyrirtæki séu reglulega tekin fyrir með skipulögðum hætti og þau beitt fjárkúgun af lögreglumönnum og skipulögðum glæpahópum. Þá sé spilling landlæg innan löggæslustofnana og lögreglan sé ekki í stakk búinn til að vernda fyrirtæki fyrir glæpum. Þá fjallar kærandi jafnframt um stöðu múslima í Rússlandi.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Hann telji t.a.m. að Útlendingastofnun hafi gefið fyrirliggjandi sönnunargögnum of lítið vægi. Kærandi sé ósammála því mati Útlendingastofnunar að gögn sem kærandi hafi aflað frá [...] hafi ekkert sönnunargildi og vísar í því sambandi til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og umfjöllunar um sönnunarbyrði sem þar komi fram. Þá gerir kærandi athugasemd við hugtakanotkun Útlendingastofnunar en hún hafi lýst framburði kæranda á þann veg að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu skipulagðra glæpasamtaka. Kærandi hafi ítrekað orðið fyrir stórfelldum lífshættulegum líkamsárásum og hótunum af hálfu samtakanna og telji kærandi því ljóst að hann hafi greint frá ofsóknum á hendur sér. Kærandi gerir einnig athugasemd við dræma umfjöllun Útlendingastofnunar um skipulögð glæpasamtök og að ekki sé lagt til grundvallar að viðkvæmir hópar, s.s. innflytjendur og trúarlegir minnihlutahópar, séu auðveldari skotmörk fyrir skipulögð glæpasamtök. Að lokum gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki rökstutt það með fullnægjandi hætti að kærandi geti notið verndar lögreglu eða annarra yfirvalda í heimaríki vegna ofsókna af hálfu skipulagðra glæpasamtaka.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann sé flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi óttist ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi sem einstaklingur sem ofsóttur sé af skipulögðum glæpasamtökum. Því til stuðnings vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um umsóknir um alþjóðlega vernd vegna gengjaofbeldis og d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið kúgaður af glæpasamtökum í heimaborg sinni og þurft að þola hótanir og ofbeldi af þeirra hálfu. Þá beri heimildir með sér að skipulögð glæpasamtök séu algeng í Rússlandi og að þau kúgi fólk, einkum þá sem stundi atvinnurekstur, og beiti hótunum, ofbeldi og morðum. Samkvæmt framangreindu telji kærandi skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er varðar aðild að tilteknum þjóðfélagshópi sem óttist ofsóknir vera uppfyllt. Kærandi byggir einnig á að hafa sætt ofsóknum með samsafni athafna samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þær ofsóknir sem kærandi hafi orðið fyrir, s.s. líkamlegt ofbeldi, hótanir, kúgun og alvarleg mismunun, feli í sér athafnir sem í eðli sínu og vegna þess að þær séu endurteknar feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi telji jafnframt að þeir sem hann óttist falli undir ákvæði c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga en frásögn hans af aðgerðarleysi lögreglu og heimildir beri með sér að yfirvöld í Rússlandi hafi hvorki getu né vilja til að veita honum vernd. Með vísan til framangreinds, frásagnar kæranda, framlagðra sönnunargagna og tilvísaðra heimilda um ástand mannréttindamála í Rússlandi telji kærandi sannað að ótti hans við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna samsafns athafna sé ástæðuríkur og að hann eigi ekki möguleika á fullnægjandi vernd yfirvalda í Rússlandi. Kærandi teljist því vera flóttamaður samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og að veita beri honum alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá telji kærandi að með því að senda hann til Rússlands yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga auk þess sem að slík ákvörðun myndi brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Varakrafa kæranda er reist á því að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess sem hafi verið rakið í tengslum við aðalkröfu kæranda byggir hann á því að hann uppfylli skilyrði umræddar greinar þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu.

Auk þess telji kærandi að hann geti ekki búið annars staðar í Rússlandi og verið öruggur. Heimildir beri með sér að skipulögð glæpasamtök hafi mikil völd í Rússlandi og hafti tengsl við opinbera embættismenn. Þá séu löggæslustofnanir spilltar og veikburða gagnvart skipulögðum glæpasamtökum og beri að leggja til grundvallar að þau hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd, hvort sem það er í heimaborg hans eða annarsstaðar. Með hliðsjón af þessu sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn gagnvart kæranda en hann telji að gera verði ráð fyrir því að skipulögð glæpasamtök í heimaborg hans starfi víðar í heimaríki hans og hafi tengsl víðsvegar um landið.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti útlendingur einnig þurft á vernd að halda vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Vísar kærandi í þessu sambandi til aðstæðna í heimaríki sínu og persónulegra aðstæðna sinna, en kærandi tilheyri fleiri en einum minnihlutahópi í heimaríki og heimildir beri með sér [...] verði fyrir áreiti og árásum sem stafi í sumum tilvikum frá yfirvöldum. Auk þess eigi kærandi ekki traust bakland í heimaríki en fjölskylda hans sé á flótta í [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað rússnesku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé rússneskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Civic Freedom Monitor. Russia (International Center for Not-for-Profit Law (ICNL), síðast uppfært 20. apríl 2020);
  • Concluding observations on the sixth periodic report of the Russian Federation (United Nations Committee against torture, 8. ágúst 2018);
  • Concluding observations on the twenty-third and twenty-fourth periodic reports of the Russian Federation (Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 20. september 2017);
  • Corruption Perception Index 2019 – Russia (Transparency International, skoðað 17. apríl 2020);
  • Country Reports on Human Rights Practices 2019 – Russia (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Reports on Terrorism 2018 – Russia (United States Department of State, október 2019);
  • Criminal Acticity of the Ultra-Right. Hate Crimes and Counteraction to Them in Russia in 2019 (SOVA Center for Information and Analysis, 5. febrúar 2020);
  • EASO Country of Origin Information Report. Russian Federation State Actors of Protection (European Asylum Support Office, mars 2017);
  • Freedom in the World 2020 – Russia (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Human Rights and Democracy Report 2017 – Russia (United Kingdom, Foreign and Commonwealth Office, 16. júlí 2018)
  • In Brief – Human Rights and Democracy in Russia (Helsinki Commission Report, 20. september 2017);
  • Human Rights in Eastern Europe and Central Asia – Review of 2019 (Amnesty International, 16. apríl 2020);
  • Laws of Attrition, Crackdown on Russia´s Civil Society after Putin´s Return to the Presidency (Human Rights Watch, apríl 2013);
  • Nations in Transit 2018 – Russia Country Profile (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Russia country profile (BBC News, 26. apríl 2019);
  • Russian 2019 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
  • The UN reviews dramatic crackdown on civil and political rights in Russia (International Federation for Human Rights, 16. mars 2015) og
  • World Report 2020 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 146 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1973. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá er Rússland aðili að Evrópuráðinu og samþykkti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1998.

Í framangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í Rússlandi hafi versnað í kjölfar endurkjörs Vladímírs Pútíns sem forseta Rússlands árið 2012. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi allt til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Með aðstoð lögreglu, áróðri og löggjöf kúgi stjórnvöld íbúa landsins. Yfirvöld hafi þrengt að borgaralegum réttindum í Rússlandi m.a. með lagasetningu sem takmarki möguleika erlendra stofnana og jafnvel frjálsra félagasamtaka til að aðhafast í landinu þar sem yfirvöld líti á starfsemi þeirra sem ógn við ríkið. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands tryggi sjálfstæði dómstóla landsins þá sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins. Samkvæmt framangreindum gögnum sé algengt að dómarar láti undan pólitískum þrýstingi þegar dæmt sé í málum andófsmanna sitjandi yfirvalda í Rússlandi. Rússneska stjórnsýslukerfið einkennist að miklu leyti af óhagkvæmni, geðþóttaákvörðunum og spillingu. Þrátt fyrir að Rússland hafi samþykkt samning Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum árið 2012 þá sjáist engar marktækar framfarir í þeim efnum þar sem stjórnvöld hafi ekki framfylgt samningnum með fullnægjandi hætti. Þessi víðtæka spilling grafi undan trausti almennings á stjórnkerfi landsins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hann hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands. Borgarar geti beint kvörtunum til embættisins ef þeir telja að brotið sé gegn réttindum þeirra af hálfu ríkisins, þ. á m. embættismanna. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð (e. Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmannsins.

Alríkislögregla Rússlands nefnist FSB og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt framangreindum gögnum beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Rannsóknarnefndin ber m.a. ábyrgð á því að rannsaka spillingu og misferli innan lögreglunnar en árið 2012 hafi verið stofnuð undirnefnd innan rannsóknarnefndarinnar sem sérhæfi sig í rannsókn mála þar sem lögreglumenn hafi mögulega brotið af sér í starfi. Sama ár hafi nefndin sent frá sér 174 sakamál til dómstóla ríkisins. Almennir borgarar geti tilkynnt misferli lögreglunnar til nefndarinnar án takmarkana ef þeir telji brotið á réttindum sínum og hægt sé að áfrýja ákvörðunum nefndarinnar til dómstóla. Alþjóðleg samtök hafi þó gagnrýnt það hvernig unnið sé úr tilkynningunum.

Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá Rússlands banni pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það gefi heimildir til kynna að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem gerist brotlegir í starfi sjaldan sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá beri heimildir með sér að fjárkúgun sé vandamál í Rússlandi og að skipulagðir glæpahópar og lögreglumenn beiti einkarekin fyrirtæki reglulega fjárkúgunum. Þrátt fyrir að í rússneskum lögum sé lagt bann við mismunun á grundvelli þjóðernis þá benda heimildir til þess að slík mismunun viðgangist í Rússlandi. Dæmi séu um að embættismenn, þ. á m. lögreglumenn, mismuni minnihlutahópum. Þá séu hatursglæpir gagnvart minnihlutahópum vandamál í Rússlandi en slíkum glæpum hafi þó farið fækkandi þökk sé aðgerðum yfirvalda gagnvart hópum sem ýti undir kynþáttafordóma.

Þá kemur jafnframt fram í framangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þ.m.t. frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. Ýmis umræðuefni á veraldarvefnum, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. öfgahreyfingum, landráði og hryðjuverkum hafi verið notuð til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Í stjórnarskrá Rússlands er mælt fyrir um trúfrelsi, jöfn réttindi þegna óháð trúarlegum skoðunum sínum og rétt hvers og eins til þess að iðka trú sína. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í Rússlandi geri landslög ráð fyrir að kristin trú, íslamstrú, gyðingdómur og búddatrú séu hin hefðbundnu (e. traditional) trúarbrögð landsins. Þá bera framangreindar heimildir með sér að [...].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína m.a. á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem einstaklingur sem ofsóttur sé af skipulögðum glæpahópi. Byggir kærandi á því að sem [...]sé hann sérlega útsettur fyrir ofsóknum af hálfu glæpasamtaka og að af þeim ástæðum eigi hann jafnframt erfiðara um vik með að fá vernd yfirvalda. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurriti af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann hafi rekið fyrirtæki í verslunarrekstri í Rússlandi sem hafi vegnað vel, hann hafi haft góðar tekjur og átt eignir. Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram gögn sem hann kveður renna stoðum undir frásögn hans af verslunarrekstri í Rússlandi, s.s. ljósmyndir og skjöl sem tengjast rekstri fyrirtækisins. Með vísan til þessa telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi verið með fyrirtækjarekstur í Rússlandi.

Þá hefur kærandi greint frá því að hann hafi sætt ofsóknum og að hann óttist ofsóknir af hálfu skipulagðra glæpasamtaka sem hafi haft í hótunum við hann og beitt hann fjárkúgun og ofbeldi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. janúar 2020 kvaðst kærandi ekki geta lagt fram nein gögn sem sýni fram á að honum hafi verið hótað eða hann beittur fjárkúgun af hálfu glæpasamtakanna. Í sama viðtali lýsti kærandi tveimur tilvikum þar sem hann hafi verið beittur ofbeldi í Rússlandi. Kvað kærandi að árið 2014 hafi hann verið skotinn af meðlimi glæpasamtakanna í kjölfar hótana þeirra og árið 2017 hafi hann orðið fyrir líkamsárás. Í viðtalinu var kærandi m.a. spurður nánar út í árásina sem hafi átt sér stað árið 2017 og hann spurður að því hvort hann vissi hvers vegna ráðist hefði verið á hann. Kærandi svaraði því til að hann vissi ekki hvaða ástæða væri að baki árásinni en að hann hefði hugsað með sér að það væri vegna [...] og trúar auk þess sem að hann ætti forsögu við glæpasamtök í Rússlandi.

Til stuðnings frásögn sinni af ofbeldi af hálfu glæpasamtaka hefur kærandi lagt fram tiltekin gögn. Meðal gagnanna er afrit af lögregluskýrslu sem kærandi kvaðst hafa fyllt út hjá lögreglunni í [...] í [...] vegna atburða í Rússlandi og eiga, að sögn kæranda, að bera með sér staðfestingu á því áreiti og ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir af hálfu glæpasamtakanna. Að mati kærunefndar er sönnunargildi umræddrar lögregluskýrslu takmarkað er varðar meinta atburði en skýrslan hefur að geyma sjálfstæða frásögn kæranda af atburðum í Rússlandi fyrir [...] lögregluyfirvöldum. Kærandi hefur einnig lagt fram afrit af læknisvottorði, útgefnu af lækni í [...], sem kveði á um að kærandi hafi fengið meðferð á brjóstkassa og öxl af og til vegna skotárásar og síðar hafi hann fengið meðferð hjá sama lækni vegna höfuðmeiðsla. Þá hefur kærandi lagt fram ljósmyndir sem sýni ör sem kærandi hafi fengið eftir umrætt ofbeldi. Með tölvupósti kærunefndar, dags. 15. maí sl., var kæranda m.a. gefið tækifæri á að leggja fram gögn sem sýni fram á að hann hafi leitað til lögreglunnar og á sjúkrahús í Rússlandi og barst svar frá kæranda þann 2. og 16. júní 2020 þar sem hann lagði fram afrit af bréfi frá lögreglunni í Sankti Pétursborg og tvö vottorð frá sjúkrahúsi. Aflaði kærunefnd þýðingar á bréfinu frá lögreglunni en þar kemur fram að kærandi hafi í tvígang leitað til lögreglu vegna ofbeldis ótilgreindra aðila.

Kærunefnd telur að leggja megi til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir einhverju ofbeldi í heimaríki af hálfu ótilgreindra aðila. Kveður kærandi að um sé að ræða atvik sem hafi átt sér stað árin 2014 og 2017, en í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi eins og áður segir ekki vita um ástæður árásarinnar árið 2017. Í afriti af bréfi frá lögreglunni í Sankti Pétursborg sem kærandi lagði fram með tölvupósti til nefndarinnar þann 2. júní 2020 kemur fram að kærandi hafi leitað til lögreglu vegna hótana og árásar aðila árið 2017 sem kærandi hafi ekki þekkt og hafi jafnframt verið að hóta honum og krefja um greiðslur.

Að virtum framburði kæranda um framangreindar árásir og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram máli sínu til stuðnings er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki leitt nægilegar líkur að því að umrædd atvik tengist skipulögðum glæpasamtökum. Við meðferð málsins hefur kærandi ekki lagt fram nein haldbær gögn til stuðnings frásögn sinni af ofsóknum af hálfu glæpasamtaka í Rússlandi. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu skipulagðra glæpasamtaka.

Þá hefur kærandi borið því við að ótti hans byggist einnig á samsafni athafna í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga en þær ofsóknir, áreiti og mismunun sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki stafi af trú hans og uppruna. Líkt og fram hefur komið gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til kynna að einstaklingar geti orðið fyrir mismunun á grundvelli trúar og uppruna í heimaríki kæranda. Þrátt fyrir það bendir heildarmat á gögnum málsins ekki til þess að slík mismunun nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu rússneskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Af framburði kæranda má þó ráða að hann telji sig ekki geta fengið aðstoð hjá yfirvöldum vegna áreitis, hótana og ofbeldis af hálfu skipulagðra glæpasamtaka. Af gögnum málsins, þ. á m. framburði kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun, og þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat nefndarinnar að kærandi, líkt og aðrir ríkisborgarar Rússlands sem telja á réttindum sínum brotið, geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Þá bera gögn um heimaríki kæranda með sér að til staðar sé kerfi sem kærandi geti leitað til telji hann að lögregla bregðist ekki rétt við leiti hann til þeirra og ef hann telji sig hafa verið beittan órétti af lögreglu. Þó svo að kærandi kunni að verða fyrir einhverri mismunun í heimaríki vegna uppruna síns og trúar þá telji kærunefnd að aðgengi hans að viðeigandi vernd stjórnvalda sé ekki takmörkuð af þeim sökum. Kærandi hefur m.a. lagt fram afrit af bréfi frá lögreglunni í Sankti Pétursborg þar sem fram kemur að hann hafi leitað til lögreglunnar vegna ofbeldis af hálfu ótilgreindra aðila og að lögreglan hafi skoðað allar þær upplýsingar sem hún hafi fengið frá kæranda. Hvorki hefur verið sýnt fram á að lögregla hafi verið óviljug að bregðast við né að kærandi geti ekki notið verndar lögreglu verði hann fyrir áreiti eða mismunun í heimaríki. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 2. og 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi því raunhæfan möguleika á því að leita ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telji sig þurfa á aðstoð að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindadómstóls Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Umsækjandi um alþjóðlega vernd verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn umsækjanda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna ótta við glæpasamtök og að stjórnvöld geti ekki veitt viðeigandi vernd. Í athugasemdum við framvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við rannsókn Útlendingastofnunar

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð og úrlausn Útlendingastofnunar í máli hans. Meðal annars hafi kærandi gert athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um skipulögð glæpasamtök og að skort hafi á rökstuðningi við umfjöllun um að kærandi geti notið verndar lögreglu eða annarra yfirvalda í Rússlandi vegna ofsókna. Þá hafi stofnunin gefið fyrirliggjandi gögnum of lítið vægi.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 14. október 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum