Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2011 Félagsmálaráðuneytið

Fólki á hlutabótum tryggðar fullar greiðslur í ágúst

Velferðarráðherra áformar, að tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að setja reglugerð sem tryggir að þeir sem átt hafa rétt á hlutabótum samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar fái fullar greiðslur sem þeim rétti nemur í byrjun ágúst næstkomandi. Ráðherra mun leggja fram drög að reglugerð á næsta ríkisstjórnarfundi.

Gildistími bráðabirgðaákvæða laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, sem heimila greiðslu atvinnuleysisbóta, hafi starfshlutfall fólks verið skert sem nemur að minnsta kosti 30%, rann út 30. júní síðastliðinn. Á vorþingi lagði velferðarráðherra fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið var á um framlengingu gildistíma bráðabirgðaákvæða um hlutabætur til ársloka 2011. Samstaða var um málið á Alþingi en við þinglok í vor var þriðju atkvæðagreiðslu um frumvarpið ólokið og það varð því ekki að lögum. 

Þeir sem hafa átt rétt á hlutabótum samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laganna fengu þær greiddar að fullu 1. júlí, fyrir tímabilið 20. maí–19. júní. Að óbreyttu hefðu viðkomandi fengið greiddar hlutabætur í byrjun ágúst sem svarar um þriðjungi af fullum bótum, þ.e. fyrir tímabilið 20. júní til loka mánaðarins þegar bráðabirgðaákvæði laganna rann út.

Með setningu reglugerðarinnar verður kveðið á styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 17. eða 22. greinar laga um atvinnuleysistryggingar og fengu greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laganna þann 1. júlí síðastliðinn. Með greiðslu styrkjanna er hverjum og einum tryggð sama fjárhæð til útborgunar 1. ágúst næstkomandi og orðið hefði ef framangrein frumvarp um framlengingu bráðabirgðaákvæðanna hefði orðið að lögum í vor líkt og áformað var. Auk þessa mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða sem nemur 8% af styrkfjárhæð hvers og eins til lífeyrissjóðs hans.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að með reglugerðinni sé fólkinu sem um ræðir tryggðar þær tekjur í ágúst sem það hafði treyst á að fá sér til framfærslu:

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraStjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs lagði til að þessi leið yrði farin til að leysa vanda fólksins sem um ræðir en lýsti jafnframt óánægju sinni með það að fyrirhuguð lagasetning dagaði uppi í þinginu í vor og að ekki skyldu sett bráðabirgðalög þegar afleiðingar þess voru ljósar. Vissulega hefði verið best að málið hlyti afgreiðslu á vorþinginu eins og til stóð og varðandi setningu bráðabirgðalaga reyndist ekki nægur vilji fyrir því. Nú finnst mér hins vegar mestu skipta að vandi þeirra sem málið varðar fyrst og fremst verður leystur og fólkið gengur að greiðslum vísum í byrjun ágúst.

Alls munu tæplega 1.100 manns fá greiðslur samkvæmt reglugerðinni um mánaðamótin.

Frumvarp um framlengingu bráðabirgðaákvæða um hlutabætur verður lagt fyrir Alþingi strax og það kemur saman í haust og segist ráðherra reikna með að unnt verði að greiða út hlutabætur samkvæmt þeim ákvæðum í september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira