Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra kynnir sér árangur þróunarsamvinnu í Malaví

Guðlaugur Þór Þórðarson er í vinnuheimsókn í Malaví þessa vikuna.  - myndUtanríkisráðuneytið
Þróunarsamvinna, mannréttindamál og efnahagsmál á breiðum grunni voru efst á baugi á fundum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra með embættismönnum í Malaví í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í vinnuheimsókn í Malaví til að kynna sér árangur af þróunarsamvinnu Íslands og Malaví, sem hófst fyrir þrjátíu árum. Þá tekur hann þátt í opnun nýrrar fæðingarálmu héraðssjúkrahússins í Manochi en íslensk stjórnvöld fjármögnuðu framkvæmdirnar.  

Utanríkisráðherra varði stærstum hluta dagsins í Monkey Bay í Mangochi-héraði þar sem Íslendingar hófu þróunarstarf árið 1989, fyrir réttum þrjátíu árum. Þar fundaði hann með Moses Chimphepo héraðsstjóra og Twaha Salanje, forseta héraðsstjórnarinnar. Fundurinn fór fram í menningarmiðstöðinni í Monkey Bay en bygging hennar í upphafi aldarinnar var liður í þróunarsamvinnuverkefni íslenskra stjórnvalda.  

„Móttökurnar sem við höfum fengið hér í Monkey Bay eru einstakar og hafa heimamenn látið í ljós einskæra ánægju með árangursríkt samstarf í gegnum tíðina. Þótt sú uppbygging sem hér hefur átt sér stað komi mér ekki að öllu leyti á óvart þá er ómetanlegt að sjá hana með eigin augum og finna velvilja okkar góða samstarfsfólks á sviði þróunarsamvinnunnar,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.

Á fundinum í Monkey Bay vakti Guðlaugur Þór athygli á setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og áréttaði að áherslur Íslands snerust ekki hvað síst um valdeflingu kvenna, en einnig um réttindi barna og hinsegin fólks. Þá bauð ráðherra fram aðstoð Íslands við að draga úr kynbundnu ofbeldi í Malaví.

Síðari viðkomustaður utanríkisráðherra í Monkey Bay var á sveitasjúkrahúsinu sem Íslendingar afhentu stjórnvöldum í Malaví árið 2012 eftir áralanga uppbyggingu. Á sínum tíma var sjúkrahúsið langstærsta einstaka verkefni í íslenskri þróunarsamvinnu. Það þjónar samfélögum rúmlega hundrað þúsund íbúa á svæðinu og á fæðingardeildinni koma að jafnaði tíu börn í heiminn dag hvern. Spítalinn hefur haft mikil áhrif til lækkunar á mæðra- og barnadauða, auk þess að bæta almenna lýðheilsu.

„Samstarf okkar við malavísk stjórnvöld hefur borið góðan ávöxt eins og nýleg úttekt á verkefnum okkar hér staðfestir,” sagði Guðlaugur Þór. „Um hundrað þúsund manns hafa fengið aðgang að hreinu vatni og fæðingarhjálp hefur verið styrkt með byggingu fæðingardeildar í Mangochi-bæ þar sem yfir tuttugu þúsund börn koma árlega í heiminn. Þá styrkja íslensk stjórnvöld tólf grunnskóla sem sóttir eru af tvöfalt fleiri nemendum en eru í grunnskólum Reykjavíkur. Þessi dæmi sýna svart á hvítu hvernig þróunarsamvinna skilar árangri.“

Í morgun átti Guðlaugur Þór fund með Goodall E. Gondwe fjármálaráðherra í höfuðborginni Lilongwe. Á fundinum voru efnahagsmál ofarlega á baugi og kom þar meðal annars fram að yfirborðsrannsóknir á hita í jörðu bentu til möguleika á jarðhitanýtingu á nokkrum stöðum í Malaví. Rannsóknirnar voru kostaðar af íslensku þróunarfé og framlagi Norræna þróunarsjóðsins. Guðlaugur Þór kom einnig inn á áherslur Íslands á mannréttindamál, meðal annars með sérstakri áherslu á mannréttindi í nýrri þróunarsamvinnustefnu. 

Á morgun kynnir utanríkisráðherra sér ýmis þróunarverkefni sem íslensk stjórnvöld hafa stutt við í héraðinu. Á fimmtudag opnar hann nýja fæðingarálmu héraðssjúkrahússins í Mangochi en framkvæmdirnar voru fjármagnaðar með íslensku þróunarfé.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson er í vinnuheimsókn í Malaví þessa vikuna.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi í Malaví í dag

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið Sþ: 1 Engin fátækt
Heimsmarkmið Sþ: 3 Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira