Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Úrskurður vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að synja kæranda um rekstrarleyfi í flokki II og framlengingu bráðabirgðaleyfis með framlengdum gildistíma.​

Úrskurður, dags. 2. ágúst 2019, vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að synja kæranda um rekstrarleyfi í flokki II og framlengingu bráðabirgðaleyfis með framlengdum gildistíma.

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags. 26. júlí 2018, bar [L] lögmaður, fram kæru fyrir hönd [B ehf], vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Norðurlandi eystra (hér eftir sýslumaður) frá 13. júní 2018, um að synja kæranda útgáfu þriggja rekstrarleyfa vegna gististaðar í flokki II, sem og framlengingu bráðabirgðaleyfis til þriggja mánaða vegna sömu íbúða, að [A].

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.

Málsatvik

Þann 3. mars 2014 fékk kærandi útgefið rekstrarleyfi í flokki II (íbúðargisting) fyrir fyrrnefndum íbúðum að [A] með tímabundinn gildistíma til 18. maí 2018.

Þann 8. maí 2018 sótti kærandi um rekstrarleyfi í flokki II vegna sömu íbúða.

Á meðan umsókn kæranda var til meðferðar hjá sýslumanni féllst sýslumaður á beiðni kæranda (dags. 18. maí 2018) um útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða með gildistíma til 14. júní 2018, á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II laga nr. 85/2007. Þann 1. júní 2018 sótti kærandi um framlengdan gildistíma á umræddu bráðabirgðaleyfi.

Með ákvörðun sýslumanns, dags. 13. júní 2018, var umsókn kæranda um rekstrarleyfi í flokki II synjað. Sýslumaður byggði synjunina á þágildandi ákvæðum 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Samkvæmt ákvæði 4. mgr. 2. gr. var skilyrði að gististaðir, að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, væru starfræktir í samþykktu atvinnuhúsnæði, en samkvæmt 1. mgr. 12. gr. var skilyrði að útleiga íbúðar sem féll ekki undir heimagistingu skyldi fara fram í atvinnuhúsnæði. Í ákvörðuninni vísar sýslumaður meðal annars til neikvæðrar umsagnar byggingarfulltrúa Akureyrar (hér eftir byggingarfulltrúi) dags. 16. maí 2018, en þar segir að íbúðir kæranda hafi ekki verið skráðar sem „gististaður í atvinnuhúsnæði.“ Í umsögn byggingarfulltrúa er vísað til þágildandi skilyrða 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Sýslumaður byggði ákvörðun sína þar að auki á neikvæðum umsögnum Vinnueftirlits ríkisins (dags. 18 maí 2018) og slökkviliðs Akureyrar (11. júní 2018). Þá synjaði sýslumaður kæranda einnig um framlengingu á útgefnu bráðabirgðaleyfi með vísan til 4. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2007.

Þann 26. júní 2018 var skilyrði 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 fellt úr gildi með 1. gr. reglugerðar nr. 649/2018. Þá var skilyrði 1. mgr. 12 gr. reglugerðar nr. 1277/2016 fellt úr gildi með 1. gr. reglugerðar nr. 686/2018 þann 9. júlí 2018.

Þann 26. júlí 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra kæranda þar sem krafist er að ákvörðun sýslumanns frá 13. júní 2018, um að synja kæranda útgáfu rekstrarleyfis og framlengingu bráðabirgðaleyfis, sé felld úr gildi.

Kærandi var upplýstur um að skilyrði 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 hefði verið fellt úr gildi þann 26. júní 2018. Kærandi var einnig upplýstur um að skilyrði 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr.1277/2016 hefði verið fellt úr gildi þann 9. júlí 2018. Kæranda var leiðbeint af hálfu ráðuneytisins að sækja um rekstrarleyfi að nýju til sýslumanns. Kæranda var jafnframt bent á að ný umsókn til sýslumanns myndi ekki hafa áhrif á stjórnsýslukæruna meðan ný umsókn væri til meðferðar hjá sýslumanni. Þann 10. ágúst 2018 var kæranda í annað sinn bent á brottfall umræddra reglugerðarákvæða og leiðbeint að sækja að nýju um rekstrarleyfi til sýslumanns.

Þann 13. ágúst 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns um kæruna ásamt öllum gögnum er málið varða. Þann 22. ágúst 2018 barst ráðuneytinu umsögn sýslumanns ásamt gögnum málsins.

Andmæli kæranda vegna umsagnar sýslumanns bárust ráðuneytinu þann 11. september 2018. Þar áréttar kærandi sjónarmið sem fram komu í stjórnsýslukæru hvað varðar synjun á útgáfu rekstrarleyfis. Einnig mótmælir kærandi túlkun sýslumanns á 4. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2007 hvað varðar synjun sýslumanns á framlengdum gildistíma bráðabirgðaleyfis.

Í kjölfar andmælanna óskaði kærandi eftir öllum gögnum ráðuneytisins í tengslum við undirbúning lagasetningar er varð að lögum nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007, sem og öllum gögnum vegna setningu reglugerðar nr. 1277/2016 og umræddra breytingarreglugerða, þar sem skilyrðið um atvinnuhúsnæði var fellt út.

Þann 13. nóvember 2018 voru öll umbeðin gögn send kæranda.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun sýslumanns, um að synja útgáfu rekstrarleyfa í flokki II til gistingar að [A] sem og framlengingu bráðabirgðaleyfis fyrir sömu íbúðir, verði felld úr gildi.

Kærandi byggir á því að ráðuneytið hafi skort heimild til setningar þágildandi ákvæða 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Því hafi umrædd ákvæði verið að engu hafandi við hina kærðu ákvörðun. Kærandi telur að með setningu reglugerðar nr. 1277/2016, þá sér í lagi ákvæða 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, hafi atvinnufrelsi kæranda verið settar verulega íþyngjandi skorður. Telur kærandi að löng hefð sé fyrir gististarfsemi í íbúðarhúsnæði á Íslandi og kærandi hafi rekið slíka atvinnustarfsemi í átta ár með tilskildum leyfum og greiðslu opinberra gjalda.

Kærandi telur að eftir gildistöku reglugerðarinnar hafi kærandi orðið háður skipulagsráði bæjarfélags Akureyrar um ráðstöfunarrétt sinn á fyrrnefndum fasteignum sem rekstrarleyfi er sótt um. Í því samhengi vísar kærandi í fyrrnefnda umsögn byggingafulltrúa frá 16. maí 2018, þar sem segir að ólíklegt sé að skipulagsráð bæjarins muni samþykkja breytta skráningu umræddra fasteigna kæranda. Að mati kæranda binda umrædd skilyrði reglugerðar nr. 1277/2016 enda á atvinnustarfsemi kæranda. Kærandi vísar til þess að atvinnurekstur njóti verndar af ákvæðum 75. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og að einungis sé heimilt að setja atvinnufrelsi skorður krefjist almannahagsmunir þess og þá með settum lögum frá Alþingi. Löggjafinn geti ekki falið framkvæmdarvaldshafa óhefta heimild til ákvörðunar eða reglusetningar er setja atvinnufrelsi skorður.

Auk þess telur kærandi að draga megi þá ályktun af dómaframkvæmd Hæstaréttar að lagastoð reglugerða sem setja á atvinnufrelsi skorður þurfi að kveða á um markmið takmarkana á atvinnufrelsi, þær leiðir sem heimilt er að fara til að ná þeim markmiðum og leyfilegt umfang takmarkana. Vísar kærandi ofangreindum sjónarmiðum til stuðnings í dóma Hæstaréttar í málum nr. 239/1987 (Frami), 110/1995 (Samherji), 403/1998 (Óson), 15/2000 (Stjörnugrís) og 12/2000 (Vatnseyri).

Kærandi vísar enn fremur í markmið laga nr. 85/2007, um að tryggja allsherjarreglu í starfsemi veitinga- og gististaða, stuðla að stöðugleika í rekstri, sem og að starfsemi falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags. Kærandi vísar í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007, um að meginmarkmið laganna sé einföldun regluverks, að rekstrarleyfi verði ótímabundin og að tiltekin gisting verði skráningarskyld en ekki leyfisskyld. Kærandi leggur sérstaka áherslu á það markmið laganna að tryggja stöðugleika í rekstri og segir jafnframt umrædd ákvæði reglugerðar nr. 1277/2016 ganga þvert gegn markmiði þessu.

Kærandi bendir á að lagastoð reglugerða þurfi almennt að vera mun skýrari þeim mun meira íþyngjandi sem takmörkun atvinnufrelsis er. Kærandi telur að engin heimild sé til að setja atvinnufrelsi kæranda skorður á grundvelli laga nr. 85/2007. Þá sé ekki að finna ákvæði í lögunum um þær leiðir sem ráðuneytinu væri heimilt að fara til að takmarka atvinnufrelsi né um umfang þeirra takmarkana. Kærandi segir skilyrðin um að rekstur skuli fara fram í atvinnuhúsnæði séu auk þess íþyngjandi og fjarri því að tryggja markmið laganna um stöðugleika í rekstri.

Jafnframt vísar kærandi til þess að gögn sem ráðuneytið afhenti að beiðni kæranda, nánar tiltekið undirbúningsgögn reglugerðar nr. 1277/2016, sýni fram á að ekki hafi verið fullnægjandi lagastoð fyrir skilyrðum reglugerðar nr. 1277/2016 og að brotið hefði verið á réttmætum væntingum kæranda.

Þá vísar kærandi í lögmætisreglu og jafnræðisreglu, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar svo og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur jafnframt að umrætt skilyrði 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 hafi brotið í bága við almenna meðalhófsreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar, sem og meginreglu stjórnsýsluréttar um réttmætar væntingar.

Kærandi bendir á að með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009 hafi þjónustutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2006/123/EB, frá 12. desember 2006 verið tekin upp í EES-samninginn. Rekstrar- og starfsleyfi til veitingar þjónustu á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins eigi því að vera að meginreglu ótímabundin. Telur kærandi, með hliðsjón af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og þeirri meginreglu að skýra skuli landslög til samræmis við skuldbindingar að þjóðarétti, að rekstrarleyfi kæranda, sem útgefið var af sýslumanni 3. mars 2014, hafi átt að vera ótímabundið.

Þá telur kærandi að rekstrarleyfi hans hafi átt að vera ótímabundið og því sé það enn í gildi. Vísar kærandi til ákvæða laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins þessu til stuðnings. Samkvæmt kæranda gilda lögin um alla þjónustu sem ekki er sérstaklega undanskilin, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna og um þjónustuveitendur sem staðfestu hafa á Íslandi sbr. 3. tl. 3. mgr. 2. gr. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé óheimilt að veita leyfi til þjónustustarfsemi til takmarkaðs tíma nema tilgreindar undanþágur eigi við og svo sé ekki í tilfelli leyfisveitinga til gististarfsemi. Kærandi telur lög nr. 76/2011 auk þess vera sérlög og því eigi að skýra ákvæði laga nr. 85/2007 með hliðsjón af þeim. Þessu til stuðnings bendir kærandi á fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 477/2002 en þar komi fram að skýra skuli innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum sem sérreglur gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum, stangist þau á, nema löggjafinn taki annað sérstaklega fram, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993.

Þá bendir kærandi á að neikvæð umsögn Slökkviliðs Akureyrar frá 11. júní 2018, hafi verið órökstudd og því hafi skylda umsagnaraðila til rökstuðnings verið vanrækt, sbr. 4. mgr. 10 gr. laga nr. 76/2011 og 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1227/2016. Þannig hafi umsögn og afstaða slökkviliðsins brotið í bága við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum byggir kærandi á því að hann eigi rétt á útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um fyrra rekstrarleyfi hans sem gefið var út 3. mars 2014. Jafnframt skuli gildistími þess vera að minnsta kosti þrír mánuðir sbr. bráðabirgðaákvæði II laga nr. 85/2007 og bráðabirgðaákvæði II laga nr. 67/2016. Kærandi byggir á að tilgangur ákvæða sem þessa sé að framlengja fyrra rekstrarleyfi á meðan umsókn nýs rekstrarleyfis er til afgreiðslu hjá stjórnvöldum, bæði á neðra og æðra stjórnsýslustigi. Af því leiði að gildistími bráðabirgðaleyfis skuli vera að minnsta kosti þrír mánuðir með hliðsjón af kærufresti stjórnsýslulaga, sbr. 26. gr. laga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af ofangreindu fer kærandi fram á að gefið verði út bráðabirgðaleyfi til þriggja mánaða frá og með útgáfudegi leyfisins. Að mati kæranda var gildistími bráðabirgðaleyfis dagsett 18. maí 2018 of stuttur, með hliðsjón af 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Af tilvitnuðu ákvæði reglugerðar megi ráða að umsagnaraðilum séu veittir 45 dagar til að skila umsögnum en kærandi telur að gildistími bráðabirgðaleyfis ætti í stysta lagi að ná til þess tíma sem umsagnaraðilum er gefinn.

Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í málsgögnum.

Sjónarmið sýslumanns

Sýslumaður telur synjun á útgáfu rekstrarleyfis til kæranda vegna sölu gistingar í flokki II hafa verið í samræmi við lög nr. 85/2007 og reglugerð nr. 1277/2016. Ákvörðunin hafi verið byggð á reglugerð nr. 1277/2016 og þeim skilyrðum sem þá giltu um að allir gististaðir, að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, skyldu aðeins starfræktir í samþykktu atvinnuhúsnæði. Sýslumaður bendir jafnframt á að það komi ekki í hans hlut að skera úr um hvort einstaka reglugerðarákvæði stangist á við sett lög. Kærandi þurfi að leita úrlausnar ráðherra eða dómstóla um slík atriði.

Hvað varðar umsókn kæranda um bráðabirgðaleyfi þá vísar sýslumaður til þess að slík umsókn verði að berast fyrir lok gildistíma fyrra leyfis og að leyfishafi skuli sækja um nýtt leyfi á gildistíma bráðabirgðaleyfis.

Þá telur sýslumaður gildistíma bráðabirgðaleyfis eigi að miða við þann tíma þegar ný beiðni er lögð fram. Bráðabirgðaleyfi sé ekki ætlað að gilda í öllum tilfellum í þrjá mánuði né ná yfir mögulegan tíma sem tekur æðra stjórnvald að leysa úr kæru umsækjanda, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2007, bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 85/2007 og athugasemdir í frumvarpi er varð að lögum nr. 85/2007.

Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögn sýslumanns.

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr segir krefst kærandi þess að ákvörðun sýslumanns frá 13. maí 2018 verði felld úr gildi.

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sýslumanns, um að synja útgáfu rekstrarleyfis í flokki II fyrir umræddar íbúðir hafi einungis byggt á þágildandi skilyrðum 4. mgr. 2. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Kærandi byggir á því að ráðuneytið hafi skort lagaheimild til að setja þágildandi skilyrði um að allir gististaðir að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka skyldu vera í samþykktu atvinnuhúsnæði, sem og að útleiga íbúðar sem ekki fellur undir heimagistingu skuli vera í atvinnuhúsnæði, sbr. 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Enn fremur byggir kærandi á því að umrædd skilyrði hafi í raun „bundið enda“ á atvinnustarfsemi kæranda í þeim fasteignum sem um ræðir og ráðstöfunarrétti kæranda þar með settar verulega íþyngjandi skorður.

Stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu þann 26. júlí 2018, en af henni má ráða að kærandi hafi verið meðvitaður um að skilyrði reglugerðarinnar, sem sýslumaður lagði til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun, hafi verið fallin úr gildi. Sem fyrr segir var kæranda tvívegis leiðbeint af hálfu ráðuneytisins að sækja um rekstrarleyfi að nýju eftir að kæran barst ráðuneytinu, og að ný umsókn hefði ekki áhrif á afgreiðslu kærunnar, sem var þá í umsagnarferli og ekki tæk til úrskurðar.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna kæruheimild en þar segir í 1. mgr. að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að með stjórnsýslukæru sé átt við réttarúrræði þar sem aðili máls eða annar sá sem á kærurétt skjóti stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds sem þá sé skylt að endurskoða ákvörðunina. Í samræmi við það sem kemur fram í athugasemdunum verður því að ganga út frá því að aðild að kæru eigi þeir sem eiga beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Það er skylda æðra stjórnvalds að endurskoða hina kærðu ákvörðun þegar kæra hefur verið borin fram á formlega réttan hátt. Aðili máls verður þó að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið, en í því felst meðal annars að úrlausn stjórnsýslumáls verður að hafa þýðingu fyrir stöðu aðila að lögum. Gæta verður töluverðrar varfærni þegar tekin er afstaða til þess og nokkuð skýrt þyrfti að vera að úrlausn ágreinings hefði ekkert raunhæft gildi fyrir viðkomandi aðila til þess að hægt væri að fullyrða að hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þannig verður almennt að ganga út frá því að sé stjórnvaldsákvörðun tekin í máli aðila þá hafi hann lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðun æðra stjórnvalds í kærumáli á því hvort hún sé lögmæt og rétt að efni til.

Varðandi hvort lögvarðir hagsmunir aðila máls hafi liðið undir lok áður en hann kærði stjórnvaldsákvörðun eða undir rekstri málsins þarf að huga að þeim réttaröryggissjónarmiðum sem búa að baki stjórnsýslukærum og þeim úrræðum sem æðra stjórnvald hefur í kærumálum. Þá þarf auk þess að taka mið af þeirri sérstöku stöðu sem stjórnvöld eru í gagnvart borgurunum og þeim lagasjónarmiðum sem búa að baki skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins.

Stjórnvaldsákvarðanir vegna rekstrarleyfa varða atvinnurekstur fólks, atvinnufrelsi þess og eignarétt. Sá réttur nýtur verndar af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, á grundvelli 75. gr. og 72. gr. Því er eðlilegt og auk þess mikilvægt að slíkar ákvarðanir séu endurskoðaðar, telji aðili máls að þær byggist á ólögmætum forsendum.

Sem fyrr segir var ákvæði 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar fellt úr gildi þann 26. júní, og þann 9. júlí 2018 féll skilyrði 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar úr gildi. Þegar stjórnsýslukæra kæranda barst ráðuneytinu, þann 26. júlí 2018, voru ofangreind skilyrði, sem lögð voru til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, því ekki lengur fyrir hendi. Frá því að skilyrðin voru felld úr gildi mátti kæranda vera ljóst að honum var í lófa lagið að leggja inn nýja umsókn um rekstrarleyfi hjá sýslumanni.

Kærandi sótti ekki um rekstrarleyfi að nýju eftir að skilyrði reglugerðarinnar voru felld úr gildi. Þá óskaði kærandi heldur ekki eftir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga eftir ákvörðun sýslumanns. Hvað sem því líður, er ljóst að frá því að umrædd skilyrði reglugerðar nr. 1277/2016 voru felld úr gildi hefði réttarstaða kæranda orðið sú sama hvort sem fallist yrði á kröfur kæranda eða ekki hjá ráðuneytinu. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að umrædd, þágildandi skilyrði 2. og 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, sem kærandi telur ráðuneytið ekki hafa haft heimild til að setja, hafi á einn eða annan hátt komið í veg fyrir að kærandi hefði geta sótt um og fengið útgefið rekstrarleyfi að nýju að [A] eftir að skilyrðin voru felld úr gildi.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Hvað varðar framlengingu bráðabirgðaleyfis og túlkun ákvæðis 4. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2007, nánar tiltekið röksemdir kæranda að ákvæðið eigi við eftir að máli lýkur hjá leyfisveitanda, bendir ráðuneytið á 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í ákvæðinu er lögfest sú meginregla sem gilti áður en stjórnsýslulögin voru sett, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar, sé þess óskað, og mæli ástæður með því. Þar af leiðandi getur ráðuneytið ekki fallist á þær röksemdir kæranda að ákvæði 4. mgr. 12. gr. eigi við umfram þann tíma sem umsókn er til efnislegrar meðferðar hjá leyfisveitanda.

Kærandi hefur ekki sýnt fram á að tímabundinn gildistími rekstrarleyfis kæranda (3. mars 2014 til til 18. maí 2018) hafi bundið enda á atvinnurekstur kæranda. Vísað er til sjónarmiða hér að framan, auk þess sem ráðuneytið bendir á, að samkvæmt aðalskipulagi Akureyrar árið 2018-2030, fyrir það svæði sem fasteignir kæranda eru staðsettar, er heimilt að gefa út nýtt leyfi fyrir skammtímaleigu í húsnæði á íbúðasvæðum til samræmis við áður útgefin leyfi, þar á meðal leyfi útgefin árið 2014, miðað við að umfang starfseminnar aukist ekki frá því sem áður var heimilt. Skipulagið tekur til þess svæðis sem umræddar fasteignir kæranda eru staðsettar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess kærumáls sem hér er fjallað um. Því er stjórnsýslukæru [B ehf.] dags. 26. júlí 2018, vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, dags. 13. maí 2018, um að synja umsókn kæranda um þrjú rekstrarleyfi í flokki II, vísað frá ráðuneytinu.

Vegna mikilla starfsanna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Kröfu [B ehf.] um að fella úr gildi þá ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, um að synja kæranda um rekstrarleyfi í flokki II og framlengingu bráðabirgðaleyfis með framlengdum gildistíma, er hér með vísað frá ráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum