Hoppa yfir valmynd
22. desember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 557/2016 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. desember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 557/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16110031

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 10. nóvember 2016, kærði […], kt. […], ríkisborgari […], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. október 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst veitt dvalarleyfi hér á landi fyrir barn Íslendings eða maka hans 24. nóvember 2008 með gildistíma til 24. nóvember 2009. Kærandi fékk veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 24. ágúst 2011 með gildistíma til 1. september 2012. Kærandi sótti að nýju um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið 3. júlí 2013 og fékk veitt leyfi 3. desember 2013 með gildistíma til 1. september 2014. Kærandi sótti síðan um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla að nýju með umsókn sem móttekin var hjá Útlendingastofnun 23. september 2014 og fékk veitt leyfi 26. janúar 2015 með gildistíma til 1. september 2015. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi 3. september 2016. Umsókn kæranda var hafnað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. október 2016.

Þann 7. nóvember 2016 var ákvörðun stofnunarinnar kærð til kærunefndar og barst nefndinni kæran þann 10. nóvember 2016. Greinargerð kæranda var meðfylgjandi kæru. Þann sama dag barst kærunefnd afrit af gögnum málsins frá Útlendingastofnun.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að fylgigögn umsóknar kæranda um dvalarleyfi væru ófullnægjandi. Stofnunin kvaðst hafa ítrekað kallað eftir gögnum frá kæranda en þrátt fyrir það hafi þau ekki borist og þar af leiðandi hafi kærandi ekki uppfyllt ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væri því ekki unnt að leggja heildstætt mat á forsendur umsóknar og gæti stofnunin því ekki metið hvort kærandi fullnægði öllum skilyrðum 12. gr. f laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Þar af leiðandi hafnaði stofnunin umsókn kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi greinir frá því í greinargerð að umsókn hans hafi verið synjað af Útlendingastofnun vegna þess að hann hafi ekki sýnt fram á framfærslu og gilt vegabréf. Á þeim tíma hafi kærandi ekki verið með vinnu og ekki vitað hvernig hann hafi átt að sýna fram á framfærslu því hann hafi ekki verið á atvinnuleysisbótum og hafi því ekki haft neina framfærslu. Kærandi kveðst nú vera kominn með vinnu og geti því sýnt fram á framfærslu. Kærandi kveðst hafa verið í erfiðleikum með að endurnýja vegabréf sitt því hann viti ekki hvernig hann eigi að gera það. Það sé útrunnið og greinir kærandi frá því að hann hefði viljað liðsinni Útlendingastofnunar við endurnýjun vegabréfs hans.

Kærandi byggir kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga á því að ákvæðið eigi að túlka rúmt með tilliti til mannréttinda og hagsmuna sinna. Kærandi kveðst eiga […] dóttur hér á landi og séu það hennar réttindi og hagsmunir að hafa föður sinn hjá sér. Kærandi kveður alla fjölskyldu sína vera hér á landi, þ.e. móðir, bróðir og fósturfaðir og muni hann verða viðskila við þau fari hann af landi brott. Þá kveðst kærandi hafa dvalið hér í átta ár og byggt upp líf sitt hér og tengsl hans við landið því óumflýjanlega sterk. Kærandi kveðst ekkert þekkja til heimalands lengur, eigi ekki fjölskyldu þar og hafi ekki komið þangað síðan árið 2008 þegar hann hafi verið […].

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f. laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið.

Kæranda var með ákvörðun Útlendingastofnunar synjað um útgáfu dvalarleyfis vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn. Taldi stofnunin ekki unnt að leggja heildstætt mat á forsendur umsóknar og gæti stofnunin því ekki metið hvort kærandi fullnægði öllum skilyrðum 12. gr. f laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þar sem enn hafi vantað framfærslugögn og ljósrit úr gildu vegabréfi. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi uppfylli hann tiltekin grunnskilyrði, þar á meðal skilyrði um framfærslu. Í 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga er sérstaklega tiltekið að víkja megi frá skilyrðum 11. gr. laganna standi rík mannúðarsjónarmið til þess eða vegna sérstakra tengsla við landið.

Þar af leiðandi er það mat kærunefndar að fara þurfi fram efnislegt mat á því hvort kærandi uppfylli framangreind skilyrði 1. mgr. 12. gr. f laganna þrátt fyrir að hafa ekki lagt fram gögn um framfærslu. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að ekki er afdráttarlaust skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga að fyrir liggi gögn um að framfærsla sé tryggð, sbr. 11. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem kemur til landsins hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 skal umsækjandi um dvalarleyfi sanna á sér deili með því að leggja fram vegabréf eða annað viðurkennt kennivottorð sem gefið er út af þar til bærum yfirvöldum. Þá segir í 2. mgr. 40. gr. reglugerðarinnar að ferðaskilríki útlendings skuli að jafnaði gilda að minnsta kosti þrjá mánuði umfram þann tíma er dvalarleyfið gildir.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur lagt fram hjá íslenskum stjórnvöldum vegabréf útgefið af yfirvöldum […], með gildistíma frá 1. apríl 2008 til 31. mars 2013. Gildistími vegabréfsins var síðar framlengdur til 19. mars 2016. Kæranda var fyrst veitt dvalarleyfi hér á landi í nóvember 2008 og hefur alls þrisvar sinnum fengið útgefið dvalarleyfi. Af framansögðu leiðir að kærandi hefur uppfyllt þá skyldu sem leiðir af 1. mgr. 5. gr. laga um útlendinga, að hafa komið hingað til lands á grundvelli vegabréfs. Þar sem kærandi hefur í þrígang fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar með vísan til vegabréfs, sem þá var í gildi, er það afstaða kærunefndar að fyrir liggi sönnun á deili hans, sbr. 4. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan greinir segir í 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga að ferðaskilríki útlendings skuli að jafnaði gilda að minnsta kosti í þrjá mánuði umfram þann tíma er dvalarleyfið gildir. Í ljósi þess að orðalag framangreinds ákvæðis ber með sér að gildistími ferðaskilríkis skuli að jafnaði gilda að minnsta kosti í þrjá mánuði umfram þann tíma er dvalarleyfið gildir, er það mat kærunefndar að gildistími þessi feli ekki í sér afdráttarlaust skilyrði þess að umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga sé tekin til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að gera þá kröfu að gilt vegabréf væri meðal þeirra gagna sem fylgdu umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þá er það mat nefndarinnar að gilt vegabréf geti ekki verið skilyrði þess að efnislegt mat sé lagt á umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga, þ.m.t. hvort efni séu til að gefa út dvalarleyfi þótt vegabréf kæranda sé ekki í gildi, sbr. 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

 

Laufey Helga Guðmundsdóttir                                                                                                                           Pétur Dam Leifsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum