Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2018 Forsætisráðuneytið

Dómsmálaráðherra sótti Kaupmannahafnarráðstefnu Evrópuráðsins

Dagana 11-13. apríl sótti Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ráðherrafund Evrópuráðsins í Kaupmannahöfn en Danir fara nú með forystu innan þess. Á ráðstefnunni samþykktu dómsmálaráðherrar allra aðildarríkja Evrópuráðsins, þar á meðal Ísland, yfirlýsingu um afstöðu þeirra til Mannréttindasáttmála Evrópu og stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu.

Tilefni fundarins í Kaupmannahöfn var áframhald á umbótaferli sem aðildarríki Evrópuráðsins hafa unnið að undanfarin ár með það að markmiði að létta álagi af Mannréttindadómstól Evrópu þannig að fleiri mál fái úrlausn í aðildarríkjunum. Þá er einnig horft til þess að Mannréttindadómstóllinn hefur gert stjórnvöldum margra ríkja Evrópu erfitt fyrir að grípa til ráðstafana sem þau hafa talið réttlætanleg til að halda uppi allsherjarreglu, t.d. að vísa erlendum afbrotamönnum, talsmönnum hryðjuverka og hatursorðræðu til síns heima.

Danir, sem nýverið tóku við forystu Evrópuráðsins, lögðu fram tillögu að ráðherrayfirlýsingu á fundinum sem fólst í því að dómstóllinn skyldi minnka málafjöldann enn frekar og gera aðildarríkjum kleift að vísa mikilvægum málum til Yfirdeildar dómstólsins (e. Grand Chamber) til að tryggja að fordæmisgefandi mál fái ítarlega umfjöllun. Þá ætti dómstóllinn ekki að setja ný lög með framsækinni túlkun heldur dæma eftir gildandi réttarástandi og eftirláta aðildarríkjunum aukið svigrúm til túlkunar á efnisreglum Mannréttindasáttmálans.

Þessi upphaflega tillaga Dana hlaut nokkra gagnrýni og tiltekin aðildarríki lögðu fram breytingartillögur. Íslensk stjórnvöld kusu hvorki með né á móti þeim breytingartillögum sem lagðar voru fram. Eftir nokkrar breytingar var Kaupmannahafnaryfirlýsingin svo samþykkt föstudaginn 13. apríl 2018 af hálfu allra aðildarríkja Evrópuráðsins.

Á meðan það er ástæða til að gjalda varhug við skapandi túlkun dómstólsins af þeirri ástæðu að dómarar eiga ekki að setja lög er ekki vilji til þess innan ríkisstjórnar Íslands að grafa undan þýðingu Mannréttindasáttmála Evrópu og dómstóls hans á nokkurn hátt. Dómsmálaráðherra minnti því á það á fundinum að Ísland hefði á sumum sviðum verið í forystu fyrir aukinni mannréttindavernd í Evrópu og legði mikla áherslu á mikilvægi réttarríkisins. Ráðherrann sagði mannréttindi vera óháð landamærum, trúarbrögðum eða tímabundnum aðstæðum einstaklinga. Mannréttindi væru órofa tengd rétti einstaklinga til frelsis sem ætti að vera baráttumál allra stjórnmálamanna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum