Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 529/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 529/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19080034

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. ágúst 2019 kærði maður sem kveðst heita […], vera fæddur […] í Eþíópíu og vera ríkisfangslaus (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júlí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. september 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 19. mars 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 20. ágúst 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 3. september 2019.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og að hann sé ríkisfangslaus.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtals við hann hjá Útlendingastofnun. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í Eþíópíu, en foreldrar hans verið sómalskir ríkisborgarar sem hafi lagt á flótta og haldið til Eþíópíu áður en kærandi hafi fæðst. Kærandi sé hins vegar ekki ríkisborgari Eþíópíu og hafi ekki réttindi sem slíkur. Um ástæður flótta kemur fram að bróðir kæranda hafi myrt mann í Eþíópíu, en fólk á vegum þessa manns hafi síðan myrt bróður kæranda til að ná fram réttlæti og einnig viljað myrða kæranda. Kærandi hafi flúið milli staða í Eþíópíu þar til hann hafi farið til Evrópu. Kveður kærandi að hann geti ekki leitað til lögreglu þar sem lögreglumenn tilheyri sama ættbálki og maðurinn sem hafi látist í átökum við bróður hans, en ættbálkur kæranda sé einskis virði í þeirra augum. Þeir aðilar sem séu á eftir honum þekki fólk víða í Eþíópíu og hann geti því hvergi falið sig fyrir þeim. Fram kemur að kærandi geti ekki búið í Sómalíu vegna þeirra ættbálkaerja sem hafi orðið til þess að foreldrar hans hafi lagt á flótta á sínum tíma, en fólk hafi mikla fordóma gegn ættbálki hans sem sé lægra settur en dýr þar í landi. Kveður kærandi að hann hafi upplifað mikið hatur og vanvirðingu vegna uppruna síns. Í greinargerð byggir kærandi á því að með vísan til framangreinds, auk niðurstöðu tungumála- og staðháttaprófs sem kærandi hafi gengið undir, sé ljóst að Sómalía sé heimaríki kæranda.

Í framhaldinu er fjallað um almennt öryggisástand og aðstæður í Sómalíu, en þar segir m.a. að síðustu 25 ár hafi ástandið þar einkennst af stríðsátökum og ættbálkaerjum. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar hafi verið fallist á að öryggisástandið í landinu sé með þeim hætti að ekki sé tækt að endursenda umsækjendur þangað. Þá vísar kærandi til þess að með ákvörðun Útlendingastofnunar frá því í júní 2018 hafi stofnunin veitt umsækjanda frá Puntland, í norðurhluta Sómalíu, alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kveður að heimildir beri með sér að einstaklingar úr ættbálki hans, Gabooye, verði fyrir verulegri mismunun alls staðar í Sómalíu. Ættbálkurinn sé afar jaðarsettur hópur í samfélaginu og að almenningur líti niður á þá sem tilheyri ættbálknum. Að því er varðar aðstæður vegalausra í Sómalíu kemur fram að heimildir séu skýrar um að þessu hópur geti ekki treyst á að nálgast húsnæði eða aðra grunnþjónustu. Vegalausir einstaklingar séu meðal allra viðkvæmustu og jaðarsettustu hópa innan Sómalíu.

Kærandi byggir aðalkröfu á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna kynþáttar og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, n.t.t. sem meðlimur Gabooye ættbálksins. Vísar kærandi jafnframt til þess að öryggisástand í landinu sé afar ótryggt og að stjórnvöld hafi enga getu til að vernda borgara sína. Varakrafa kæranda er reist á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann verði fyrir alvarlegum skaða verði honum gert að snúa aftur til Sómalíu. Þá er það mat kæranda að ómögulegt sé að ætlast til þess að hann flytjist um set í Sómalíu, en hann hafi engin tengsl innan landsins og yrði berskjaldaður fyrir hvers kyns mismunun og ofbeldi. Þrautavarakrafa kæranda er byggð á því að af fyrrgreindum ástæðum séu almennar og félagslegar aðstæður í heimaríki kæranda erfiðar. Þá telur kærandi að með því að endursenda hann til Sómalíu yrði brotið gróflega gegn meginreglunni um non-refoulement, sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi vísar m.a. til þess að foreldrar hans hafi verið ríkisborgarar Sómalíu, en formlega séð séu börn sem fædd séu utan Sómalíu ríkisborgarar landsins ef faðirinn er sómalskur ríkisborgari. Þá byggir kærandi á því að niðurstöður tungumála- og staðháttaprófs segi ekkert til um ríkisfang kæranda, en niðurstöðurnar renni stoðum undir að hann hafi alist upp í Ogaden í Eþíópíu. Gerir kærandi jafnframt athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að líklegt sé að kærandi sé ríkisborgari Eþíópíu, en stofnunin hafi byggt á því að kærandi hafi getað áunnið sér ríkisborgararétt í landinu. Telur kærandi að með vísan til framangreinds sé Útlendingastofnun ekki fært að ætla að kærandi hafi eþíópískt ríkisfang. Þá gerir kærandi einnig athugasemdir við trúverðugleikamat frásagnar hans.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. sömu laga sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í 1. mgr. 74. gr. laganna að heimilt sé að veita útlendingi sem staddur sé hér á landi dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Af athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga verður jafnframt ráðið að rétturinn til alþjóðlegrar verndar nái ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins. Verða ákvæðin ekki skilin öðruvísi en svo að réttur umsækjenda til alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé háð því ófrávíkjanlega skilyrði að umsækjandi sé utan heimaríkis og staddur hér á landi eða komi hér að landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Ljóst er því að kæranda var heimilt að dvelja á landinu á meðan mál hans var til meðferðar hjá kærunefnd. Þann 23. september 2019 barst kærunefnd tölvupóstur frá fulltrúa Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi væri hugsanlega farinn af landinu. Af þessari ástæðu hafði kærunefnd samband við talsmann kæranda og óskaði eftir því að kærandi sendi staðfestingu á því að hann væri enn á landinu. Þann 23. október s.á. barst tölvupóstur frá talsmanni þar sem staðfest var að kærandi sé ekki á landinu.

Ekkert bendir til annars en að brottför kæranda af landinu hafi verið sjálfviljug en eins og áður hefur komið fram frestuðust réttaráhrif ákvörðunar Útlendingastofnunar við kæru til kærunefndar. Með vísan til þess og þar sem kærandi er ekki staddur hér á landi er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði laga um útlendinga til að verða veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi á grundvelli þeirrar verndar, sbr. 40. og 73. gr. laga um útlendinga. Þá telur nefndin að 42. gr. laga um útlendinga komi ekki til skoðunar þar sem kærandi hefur sjálfur yfirgefið landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Árni Helgason

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum