Hoppa yfir valmynd
4. maí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Bætt aðgengi að háskólanámi á Austurlandi

Frá undirritun samstarfssamningsins: Einar Már Sigurðarson formaður Austurbrúar, Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd/Gunnar Gunnarsson - mynd
Frá og með næsta hausti mun Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á undirbúningsnám fyrir háskólanám á Austurlandi, í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Námið verður sveigjanlegt, blanda af hefðbundnu og stafrænu námi, með kennslu og aðstöðu í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

„Ég fagna samstarfinu og þakka fyrir þá góðu vinnu sem unnin var í stýrihópnum sem settur var á fót á grunni samningsins sem undirritaður var í haust. Það von mín að þetta skref greiði götu íbúa Austurlands sem áhuga hafa á að hefja háskólanám, en skortir grunninn. Þetta markar ný spor í aðgengi að háskólanámi á Austurlandi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samstarfssamningur um undirbúning þessa var undirritaður í september síðastliðnum og á grunni hans hefur stýrihópur unnið að verkefninu með fulltrúum frá Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri, sveitarfélögunum Fjarðabyggð, Múlaþingi, Austurbrúar/SSA og fulltrúum úr sjávarútvegi og iðnaði á Austurlandi.

Samkvæmt samningnum verður boðið upp á nám í Háskólagrunni HR í háskólaútibúinu haustið 2021 og hefur nú þegar verið opnað fyrir umsóknir. Háskólagrunnur er fyrir þau sem vilja hefja háskólanám en vantar tilskilinn undirbúning. Hægt er að ljúka lokaprófi úr háskólagrunni eða viðbótarnámi við stúdentspróf og nýta sem leið inn í nám á háskólastigi. Háskólagrunnur HR er fyrsti áfanginn í uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi en langtímamarkmiðið er að efla virkt þekkingarsamfélag á Austurlandi.

Rektorar háskólanna, þeir Ari Kristinn Jónsson og Eyjólfur Guðmundsson, fagna þessu mikilvæga skrefi til að bæta aðgengi að háskólanámi og efla tengsl við atvinnulífið á Austurlandi. Þeir segja að skólarnir bjóði upp á fjölbreytt nám sem geti stutt við þróun þekkingarsamfélags og atvinnulíf í landshlutanum. Það sé einkar ánægjulegt að taka þátt í samhentu átaki samfélagsins, fyrirtækja, sveitarfélaga sem og ráðuneytis menntamála við að bæta aðgengi að tækninámi utan höfuðborgarsvæðisins.

Framundan er kynning á námsframboði Háskólagrunns HR á Austurlandi og á næstu dögum verður auglýst eftir verkefnisstjóra í útibú háskólanna á Reyðarfirði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum