Hoppa yfir valmynd
24. maí 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Davíð Á. Gunnarsson kosinn formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, var í morgun kosinn formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Íslendingur hefur ekki áður gegnt embætti sem þessu, en fjórir áratugir eru síðan Norðurlandabúi var síðast kosinn til sitja í forsæti framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf. Formaður framkvæmdastjórnar alþjóðasamtakanna er kosinn til árs í senn. Fráfarandi formaður stjórnar Dr Kwaku Afriyie, heilbrigðismálaráðherra Ghana.

Davíð Á. Gunnarsson var kosinn í stjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á þingi samtakanna í fyrra.

Í framkvæmdastjórn WHO sitja 32 fulltrúar 192 aðildarríkja samtakanna og eru framkvæmdastjórnarmenn kosnir til þriggja ára í senn. Stjórnin fer með æðsta vald samtakanna á milli alþjóðaþinga og sér meðal annars um að tilnefna forstjóra og framkvæmdastjóra WHO sem síðan er kosinn formlega á Alþjóðaheilbrigðismálaþinginu. Þar fyrir utan er það hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að hrinda í framkvæmd ákvörðunum alþjóðaheilbrigðisþingsins og sjá um stefnumótun samtakanna í heilbrigðismálum á alþjóðavettvangi.

Um 3500 manns eru starfandi á vegum skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á vegum sex svæðisskrifstofa og í aðildarlöndunum 192. Framkvæmdastjóri WHO er LEE Jong-wook.

Ríkin sem nú eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru auk Íslands: Bandaríkin, Bretland, Fillipseyjar, Frakkland, Egyptaland, Ekvador, Eritrea, Eþíópía, Gabon, Gambía, Gana, Gínea, Gínea-Bissá, Grenada, Kanada, Kasakstan, Kína, Kolombía, Kúba, Kúveit, Maldaví, Míanmar, Nepal, Pakistan, Rússland, S-Kórea, Sádí-Arabía, Spánn, Súdan, Tékkland og Víetnam.

Nánari upplýsingar veitir Helgi Már Arthursson í síma 861 3819



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum