Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Tillaga Íslands samþykkt

Framkvæmastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hefur samþykkt tillögu Íslands sem felur í sér að stofnunin beinir nú sjónum sínum að aðstæðum og stöðu fatlaðra í heiminum. Davíð Á. Gunnarsson bar tillöguna upp, sem eitt af áhersluatriðum í stjórn samtakanna, og meðflutningsmenn voru svo fulltrúar Kína, Rússlands og Tékklands.

Í tillögunni felur framkvæmdastjórnin forstjóra og aðalskrifstofu samtakanna að beita sér fyrir samræmdu átaki á vettvangi WHO í því skyni að halda fram réttindum fatlaðra í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar aðildarríkjanna.

Hvatt er til þess að WHO veiti aðildarríkjunum stuðning og sérfræðiaðstoð við að setja saman og hrinda í framkvæmd endurhæfingaráætlunum í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Þá er forstjóra og aðalskrifstofu WHO falið að draga saman upplýsingar um fatlaða og aðstæður þeirra í aðildarríkjunum, að draga saman upplýsingar um viðurkennda meðferð og meðferðarúrræði og að leggja fram yfirgripsmikla skýrslu um alla þessa þætti á vettvangi framkvæmdastjórnar og á alþjóðaheilbrigðismálaþinginu að tveimur árum liðnum.

Davíð Á. Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar WHO, lagði tillöguna fram eins og áður sagði. Hún fékk góðar undirtektir og víðtækan stuðning á fundi framkvæmdastjórnar. Með þessari samþykkt framkvæmdastjórnarinnar eru þau mál sem fulltrúi Íslands kynnti á síðasta framkvæmdastjórnarfundi WHO komin á dagskrá samtakanna, þ.e. heilbrigðir lífshættir og nú málefni fatlaðra.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira