Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2020 - Úrskurður

Mál nr. 5/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

biskupi Íslands

 

Skipun í embætti. Hæfnismat. Sönnun. Leynileg atkvæðagreiðsla.

Kærandi, sem er kona, taldi að kærði, biskup Íslands, hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að skipa karl í embætti sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli. Kærunefndin leit til þess að um opinbert embætti hefði verið að ræða. Á þeim tíma hefðu því gilt sambærilegar réttaröryggisreglur stjórnsýsluréttarins um skipanir í prestsembætti hjá þjóðkirkjunni og um umsækjendur um opinber störf eða embætti hjá ríkinu. Til viðbótar hefðu jafnframt gilt ýmsar óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana um slíkar skipanir, þar á meðal reglan um að velja skyldi þann hæfasta úr hópi umsækjenda. Kærandi taldist hafa leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því kom það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Kærunefndin taldi kærða ekki hafa tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ákvörðun um skipun í embættið, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 9. júlí 2020 er tekið fyrir mál nr. 5/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 26. febrúar 2020, kærði A ákvörðun biskups Íslands við veitingu embættis sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli. Kærandi telur að með skipuninni hafi biskup Íslands brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Með tölvubréfi kærunefndar, sendu 28. febrúar 2020, var kæranda gefinn kostur á að skýra kröfugerð sína nánar og barst uppfærð kröfugerð með tölvubréfi sama dag. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 3. mars 2020, þar sem óskað var eftir afstöðu hans. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. apríl 2020, var kærða veittur frestur til 14. apríl 2020 til þess að skila greinargerð með vísan til 4. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 220/2017 um málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Greinargerð kærða, dagsett 3. apríl 2020, barst kærunefnd 7. apríl 2020 og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. apríl 2020.
  4. Kærandi óskaði eftir framlengdum fresti til þess að skila athugasemdum við greinargerð kærða og var hann veittur til 11. maí 2020. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 11. maí 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. maí 2020. Í samræmi við beiðnir kærða var frestur til þess að skila athugasemdum framlengdur til 5. júní 2020 og síðar 10. júní 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 10. júní 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 10. júní 2020. Með sama bréfi var kærandi upplýstur um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust til umsóknar embætti sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmis, 27. maí 2019. Í auglýsingunni kemur fram að um val á umsækjendum sé vísað til starfsreglna kirkjuþings nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta og reglna nr. 1011/2011 um presta, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tekið var fram að með því að sækja um embættið staðfestu umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur sem væri að finna á vef kirkjunnar. Í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli séu fjórar sóknir, Akranessókn, Innri-Hólmssókn, Leirársókn og Saurbæjarsókn, samtals með rúmlega 8.000 íbúa og fjórar kirkjur, Akraneskirkju, Saurbæjarkirkju, Leirárkirkju og Innri-Hólmskirkju.
  6. Í auglýsingunni var vísað til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið og segir að auglýsingin og þarfagreining séu birtar á vef kirkjunnar undir laus störf. Þá var bent á vef Akranessóknar. Tekið var fram að allar gildar umsóknir færu til þriggja manna matsnefndar sem mæti hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefndin velji að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skili skýrslu þar að lútandi til biskups. Kjörnefnd Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls kjósi sóknarprest úr hópi framangreindra umsækjenda að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. Báðum þessum nefndum sé veittur tímabundinn, rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim.
  7. Tekið var fram í auglýsingunni að umsækjendur ættu að gera skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óskuðu eftir að taka fram. Þá skyldi fylgja umsókninni staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við ætti. Einnig skyldi fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. Þá bæri umsækjendum að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varðaði embættið. Tekið var fram að umsækjendum bæri að fylla út eyðublað þar sem biskupi væri heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna.
  8. Þá var tekið fram í auglýsingunni að heimilt væri að óska eftir því að almennar prestkosningar færu fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skyldi hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið hefði verið auglýst laust til umsóknar.
  9. Fram kom að um embættið giltu lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setji og samþykki um innri málefni kirkjunnar. Sé einkum vísað til starfsreglna um presta. Um laun og önnur kjör fari samkvæmt ákvörðun kjararáðs. Þá var vísað til laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  10. Alls bárust fjórar umsóknir um embættið en einn umsækjenda dró umsókn sína til baka. Þrír umsækjendur, tveir karlar og ein kona, voru fyrst metnir af þriggja manna matsnefnd um hæfni til prestsembættis. Umsækjendurnir voru boðaðir í viðtal hjá matsnefndinni sem beindi sömu spurningum til þeirra allra. Samkvæmt umsögn matsnefndarinnar, dagsettri 29. júlí 2019, voru allir umsækjendur taldir hæfir til að gegna embættinu. Á fyrri fundi kjörnefndar Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls 27. ágúst 2019 var farið yfir umsóknir, fylgigögn varðandi umsækjendur og niðurstöðu matsnefndar. Þá var rætt um þær spurningar sem kjörnefnd hugðist leggja fyrir umsækjendur á síðari fundi sínum sama dag og þær samþykktar. Umsækjendur voru boðaðir á seinni fund kjörnefndar, einn í einu, í viðtal þar sem sömu spurningar voru lagðar fyrir þá. Að lokum fór fram leynileg kosning kjörnefndar um umsækjendur. Í þeirri kosningu hlaut sá sem skipaður var 14 atkvæði, kærandi tvö atkvæði og þriðji umsækjandinn eitt atkvæði. Að þessu afstöðnu var sá sem hlaut flest atkvæði skipaður í embættið, sbr. fyrirliggjandi skipunarbréf kærða, dagsett 30. ágúst 2019.
  11. Í kæru segir að kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi kærða fyrir veitingu embættisins en að ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  12. Kærandi og tveir karlar hafi sótt um embættið en þau hafi einnig sótt um embætti prests í sama prestakalli í janúar 2015. Sú skipan hafi verið kærð til kærunefndar jafnréttismála, sbr. mál nr. 8/2015, og úrskurður nefndarinnar verið kæranda í vil. Kjörnefndin hafi aftur kosið karlmanninn fram yfir kæranda þótt hún hafi meiri stjórnunarreynslu og stjórnunarmenntun og að mjög halli á konur í embættum sóknarpresta á landsvísu þar sem karlar séu 51 en konur 28. Þar sem um sé að ræða sóknarprestsstöðu og stjórnunarstöðu sé munur á reynslu og menntun umsækjenda meiri en hafi verið í fyrrnefndu máli nr. 8/2015.
  13. Prófastur hafi boðað til kjörnefndarfundar 27. ágúst 2019. Kjörnefndarmenn séu 17 talsins, kosnir á aðalsafnaðarfundi sóknanna. Nefndin fundi um umsækjendur og starfandi prestur fái að gefa sitt álit á þeim. Síðan kalli nefndin umsækjendur, einn í einu eftir stafrófsröð, til um það bil 30 mínútna viðtals þar sem þeir svari um tíu fyrir fram sömdum spurningum sem prófastur beri upp. Eftir viðtölin ræði kjörnefndarmenn frammistöðu umsækjenda og gangi síðan til atkvæðagreiðslu. Sá sem skipaður hafi verið hafi hlotið flest atkvæði en hann hafi verið starfandi prestur í prestakallinu og í kjörnefnd hafi meðal annarra verið starfsmenn prestakallsins, kórfélagar og makar þeirra. Meiri hlutinn hafi verið samstarfsmenn þess sem skipaður hafi verið. Öðrum umsækjendum hafi verið óheimilt að hafa samband við kjörnefndarmenn.
  14. Á þeim fjórum árum sem hafi liðið frá úrskurði í máli nr. 8/2015 hafi kærandi og sá sem embættið hlaut verið starfandi prestar. Frá árinu 2015 hafi kærandi lokið meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Ekki sé vitað til þess að sá sem skipaður hafi verið hafi bætt við sig námsgráðu.
  15. Árið 2015 hafi starfsreglur við val og veitingu prestsembætta verið þannig að valnefnd hafi valið prest og rökstutt valið. Nokkuð hafi verið um kærur og þjóðkirkjan greitt konum, sem brotið hafi verið á, bætur sem hafi numið um þreföldum mánaðarlaunum. Kirkjuþing hafi breytt starfsreglunum þannig að nú sé það kjörnefnd sem kjósi prest með leynilegri kosningu og matsnefnd meti umsækjendur áður. Kjörnefnd sé óskylt að fara eftir mati matsnefndar og þurfi ekki að rökstyðja val sitt. Að öðru leyti sé ráðningarferlið óbreytt. Því hafi verið haldið fram að ekki sé hægt að kæra leynilega kosningu og þar með komist kjörnefndirnar fram hjá því að virða jafnréttislög. Í valnefnd og kjörnefnd Garðaprestakalls hafi að stórum hluta verið sama fólkið árin 2015 og 2019. Þó hafi nefndarmönnum verið fjölgað, valnefnd verið skipuð ellefu mönnum en kjörnefnd sautján. Framkvæmd valnefndarfunda og kjörnefndarfunda sé nákvæmlega eins nema í stað handauppréttingar riti kjörnefndarmaður nafn umsækjenda sem hann kjósi á blað og síðan séu atkvæði talin.
  16. Kærandi sé að minnsta kosti jafn hæf og sá sem skipaður hafi verið til þess að gegna embættinu og því hafi einnig verið brotið gegn dómafordæmi Hæstaréttar um túlkun jafnréttislaga á þann veg að þegar umsækjendur um embætti/stöðu séu að minnsta kosti jafn hæf skuli velja þann af því kyni sem séu færri í viðkomandi starfsstétt. Á skipunartíma hafi karl starfað sem sóknarprestur við Garðaprestakall. Konur séu færri í embættum sóknarpresta á landsvísu; 65% séu karlar og 35% konur. Því hafi átt að skipa kæranda í embættið með vísan til dómafordæma Hæstaréttar og jafnréttislaga.
  17. Valinn hafi verið karl sem sé bæði með minni menntun og skemmri starfsreynslu en kærandi. Hún hljóti því að vera að minnsta kosti jafn hæf og hann. Bæði héraðsprestur Vesturlandsprófastsdæmis og prófastur séu karlar. Í Vesturlandsprófastsdæmi starfi samtals tíu sóknarprestar, þar af séu átta karlar og tvær konur. Því sé ljóst að bæði við Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakall, í Vesturlandsprófastsdæmi og á landsvísu halli verulega á konur í sóknarprestsembættum.
  18. Kærandi sé með rúmlega ellefu ára starfsreynslu sem prestur innan kirkjunnar, þar af sjö ár sem sóknarprestur. Sá sem skipaður hafi verið sé með um það bil sex mánaða reynslu sem sóknarprestur og fjögurra ára reynslu sem prestur. Þá hafi hann starfað sem kapellán (aðstoðarprestur) við norsku kirkjuna í þrjú og hálft ár.
  19. Kærandi hafi mun lengri starfsreynslu sem prestur, sóknarprestur, sérþjónustuprestur fatlaðra og á almennum vinnumarkaði en sá sem hafi fengið embættið. Hún sé með mjög góð meðmæli frá vígslubiskupi, prófasti, fyrrverandi prófasti, meðhjálpara og sóknarnefndarformanni þar sem hún hafi áður starfað.
  20. Kærandi sé með sérmenntun á háskólastigi í sálgæslu, diplóma 35 ECTS, og hafi í starfi sínu sem sóknarprestur annast sálgæslu og áfallahjálp. Einnig hafi hún starfað með samráðshópi áfallahjálpar í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi og áfallateymi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Starfsferill hennar beri því vitni að hún hafi ítrekað verið valin til stjórnunarstarfa, stýrt vinnuhópum og fengið orð fyrir að hafa góða og þægilega nærveru.
  21. Kærandi hafi verið sóknarprestur í sjö ár með meðfylgjandi stjórnun innan prestakalla. Þar fyrir utan hafi hún stjórnunarreynslu af hinum almenna vinnumarkaði, bæði sem verkstjóri í banka með starfsmannahald og sem skrifstofustjóri í Neskirkju með starfsmannahald og verkefnastjórn í kirkju. Einnig hafi hún rekið eigið verslunarfyrirtæki með fimmtán starfsmenn. Ljóst sé því að stjórnunarreynsla hennar sé umtalsverð. Sá sem embættið hafi fengið hafi stýrt Garðaprestakalli sem settur sóknarprestur í sex mánuði.
  22. Kærandi hafi lokið MLM prófgráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst, sem sé 90 ECTS-eininga meistaranám. Hún hafi lokið diplómagráðu á meistarastigi í sálgæslu frá Endurmenntun Háskóla Íslands, 35 ECTS-einingum. Jafnframt hafi hún tekið fleiri námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, svo sem sáttamiðlun, textaritun, samfylgd til hinstu stundar og fleira, auk námskeiðs með sjúkraflutningamönnum; „Segja hið rétta og gera hið rétta“. Í umsókn þess sem skipaður hafi verið komi fram að hann hafi sex stig í söng og hafi tekið námskeið í sálgæslu barna og unglinga en ekkert prófskírteini fylgi því námi. Því sé óljóst hvort því námi sé lokið, hvort það sé á háskólastigi og svo framvegis.
  23. Kærandi hafi sinnt fræðslustarfi sem kennari í grunnskóla í tæp tvö ár, annað árið sem bekkjarkennari og hitt árið sem afleysingakennari í hlutastöðu. Hún hafi verið umsjónarmaður Vinnuskóla Akraness í eitt sumar með unglinga frá 14-16 ára. Hún hafi sinnt umönnunarstarfi á dvalarheimili aldraðra í tvö sumur í afleysingum.
  24. Varðandi almannatengsl hafi hún haft mannaforráð sem skrifstofustjóri í fjölmennri og athafnamikilli kirkju og einnig sem aðstoðarútibússtjóri í banka. Hún hafi einnig stýrt fjölmennu starfsliði í eigin verslunarfyrirtæki með ágætum árangri. Sá sem embættið hafi hlotið hafi verið starfsmaður á unglingageðdeild Landspítalans í tvö sumur í afleysingum og einnig verið leiðtogi í KFUM.
  25. Kærandi hafi sérstöðu umfram aðra umsækjendur hvað varði það að þekkja Garða- og Hvalfjarðarprestakall mjög vel, enda fædd þar og uppalin og hafi búið þar nánast alla tíð, auk þess að hafa starfað þar í tæpt ár við góðan orðstír. Sem sóknarbarn og reynslumikill starfsmaður þjóðkirkjunnar geri hún sér mjög vel grein fyrir möguleikum, styrkleikum og veikleikum svo og þjónustuþörf safnaðanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit.
  26. Kærandi hafi fimm ára samfellda reynslu í barna- og unglingastarfi sem sóknarprestur og eins árs reynslu sem prestur fatlaðra. Hún hafi einnig kennt grunnskólabörnum, setið nám til kennsluréttinda hjá Kennaraháskóla Íslands og tekið þátt í barna- og unglingastarfi í frjálsum félagasamtökum sem leiðtogi. Varðandi hæfni í mannlegum samskiptum hafi hún starfað við þjónustustörf nánast alla sína starfsævi og oftast sem stjórnandi með mannaforráð og fjármálaábyrgð við góðan orðstír. Slík reynsla segi margt um hæfni í mannlegum samskiptum. Sem sóknarprestur hafi hún þurft að takast á við margvíslegar áskoranir varðandi mannleg samskipti og farnast vel í því.
  27. Preststarfið hafi breyst mikið á síðustu árum og áratug. Í dag sé áætlað að um 80% þess sé sálgæsla við fullorðið fólk, meðal annars vegna kynferðisofbeldis, einnig sálgæsla við aldraða og vegna áfalla af ýmsu tagi. Þess vegna sé mjög mikilvægt að bæði kynin starfi saman sé þess nokkur kostur. Sálgæsla vegna ofbeldis gegn börnum og konum sé oftast í höndum kvenpresta, sbr. kvenráðgjafa hjá Stígamótum. Kærandi hafi bæði meiri menntun og reynslu af sálgæslu en sá sem skipaður hafi verið. Þá vísi kærandi máli sínu til stuðnings til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 5/2014.
  28. Óskað sé eftir því að meint brot kærða á jafnréttislögum verði tekið til úrskurðar en kærandi hafi að minnsta kosti verið jafn hæf þeim karli sem hafi fengið embættið og því hefði átt að skipa hana í embættið, sbr. ákvæði laga nr. 10/2008, einkum 1. mgr. 18. gr. laganna, kynjahlutfall í sóknarprestastétt, stöðu kynjanna í sókninni, úrskurð kærunefndar jafnréttismála nr. 5/2014 og dómafordæmi Hæstaréttar.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  29. Kærði segir að við undirbúning, auglýsingu og skipunina hafi verið unnið eftir ákvæðum starfsreglna kirkjuþings nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta, með síðari breytingum. Umræddar starfsreglur eigi sér stoð í 2. mgr. 39. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 78/1997 um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. starfsreglnanna hafi kærði gefið út leiðbeinandi reglur fyrir umsækjendur um laus prestsembætti nr. 1/2017 og fyrir kjörnefndir prestakalla nr. 3/2017. Þegar kærði ákveði að auglýsa embætti sóknarprests eða prests í prestakalli, fari um málsmeðferð eftir því sem fyrrnefndar starfsreglur og leiðbeinandi reglur kveði á um og þegar þeirri málsmeðferð ljúki, kjósi kjörnefnd prestakalls í leynilegri kosningu einn umsækjanda, sbr. 8. gr. starfsreglnanna.
  30. Samkvæmt reglunum hafi matsnefnd borið að velja að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna, en þó aldrei fleiri en fimm, og skila skýrslu þar að lútandi til kærða. Umsækjendur hafi aðeins verið þrír og allir talist hæfir.
  31. Samkvæmt skýrslu matsnefndar hafi kærandi fengið 8,9 í einkunn, sá sem fengið hafi embættið 8,2 og þriðji umsækjandinn 9,0. Í samræmi við ofangreindar reglur hafi kjörnefndin kallað umsækjendur til sín og spurt þá alla sömu níu spurninganna og þeir fengið tækifæri til að segja nokkur orð að lokum. Í lok viðtalsins hafi allir umsækjendur verið spurðir hvort þeir gerðu einhverjar athugasemdir við málsmeðferðina, en enginn hafi gert það. Að loknum viðtölum hafi kjörnefnd rætt saman og að því búnu hafi verið gengið til kosninga. Kosningin hafi verið leynileg. Kjörmenn hafi verið sautján talsins og atkvæði fallið þannig að sá sem hafi verið skipaður hafi fengið fjórtán atkvæði, kærandi tvö og þriðji umsækjandinn eitt.
  32. Ljóst sé af ofangreindu að málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við þær reglur sem gildi um val og veitingu prestsembætta. Í öllum þeim ráðningum sem þjóðkirkjan hafi forræði yfir sé mikil áhersla lögð á að jafnréttissjónarmiða sé gætt, enda hafi þjóðkirkjan sett sér mjög metnaðarfulla jafnréttisstefnu. Í þessum tilvikum sé ávallt valinn sá umsækjandi sem sé af því kyni sem halli á, enda sé viðkomandi talinn jafn hæfur eða hæfari öðrum umsækjendum. Ýmislegt hafi áunnist varðandi jöfnun á stöðu karla og kvenna í vígðri þjónustu og yfirstjórn kirkjunnar á þeim tíma sem núverandi biskup hafi gegnt embætti. Tveir af þremur biskupum séu konur og af níu próföstum séu fimm konur.
  33. Sé horft til niðurstöðu kosninga í embætti presta og sóknarpresta síðastliðin þrjú ár hafi sex konur verið kosnar í embætti presta og sóknarpresta á móti fjórum körlum á árinu 2017. Á árinu 2018 hafi fimm karlar verið kosnir á móti einni konu, en sé litið til ársins 2019 hafi hlutfall karla og kvenna verið jafnt, eða átta konur á móti átta körlum.
  34. Sé aðeins horft til auglýstra embætta sóknarpresta á árinu 2019, hafi fleiri karlar en konur verið kosnir í embætti sóknarprests. Í öllum tilvikum nema einu hafi karlmenn verið í meirihluta af umsækjendum. Í tveimur tilvikum hafi kona verið hærri í mati og í einu hafi karl verið hærri í mati. Þegar kona hafi verið valin í sóknarprestsstöðu hafi í öllum tilvikum karlmaður verið hærri í mati en konan. Af þessari upptalningu sé vart hægt að sjá að ítrekað hafi verið gengið fram hjá reynslumiklum konum fyrir reynsluminni karla, eins og segi í kæru.
  35. Í lútherskri kirkju hafi um langt skeið verið lögð á það áhersla að söfnuðurinn kalli prest til starfa og velji hann úr hópi hæfra umsækjenda. Í greinargerð löggjafarnefndar kirkjuþings með núgildandi starfsreglum nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta hafi verið gerð ítarleg grein fyrir þeirri hugmyndafræði sem núverandi skipulag um val á sóknarprestum og prestum byggi á. Áður en núgildandi reglur hafi verið lagðar fram fyrir kirkjuþing, hafi verið leitað lögfræðiálits um hvort kirkjuþingi væri heimilt að skipa málum svo með starfsreglum að kosið yrði í leynilegri kosningu kjörnefndar til embætta sóknarpresta og presta í prestaköllum. Í lögfræðiálitinu segi í niðurlagi: „Við teljum að val á presti með leynilegri kosningu á grundvelli rétt settra reglna kirkjunnar þar um, yrðu bindandi fyrir biskup og skylda hans til að ganga úr skugga um að rétt hafi verið staðið að valinu takmarkist við að rétt hafi verið staðið að kosningunni“. Því hafi verið litið svo á að kærði hafi hvorki forsendur né heimild til að endurskoða niðurstöðu slíkrar leynilegrar kosningar.
  36. Þess megi einnig geta að samkvæmt almennum reglum taki reglur stjórnsýslu- og jafnréttislaga aðeins til hefðbundins ráðningarferlis, en ekki til leynilegra kosninga. Þannig sé því til dæmis háttað með kosningar til sveitarstjórna og Alþingis.
  37. Það veki nokkra furðu að kvörtun þessi skuli koma fram svona löngu eftir að skipunin hafi átt sér stað, eða nærri sjö mánuðum seinna. Sérstaka furðu veki einnig að kæran komi fram eftir að kjörnefnd Garða- og Saurbæjarprestakalls hafi í þriðja sinn hafnað þjónustu kæranda en í febrúar 2020 hafi kjörnefnd prestakallsins kosið tvo presta til þjónustu við prestakallið og vilji svo til að báðir prestarnir séu konur. Kærandi hafi verið í hópi umsækjenda en ekki orðið fyrir valinu. Það sé því ljóst að ástæða höfnunar kjörnefndar á þjónustu kæranda hafi ekki verið vegna þess að hún sé kona.
  38. Þá verði að líta til þess að í umræddu tilviki hafi matsnefndin metið annan umsækjanda hæfari en kæranda og því hefði hún ekki getað fengið skipun í embættið á grundvelli jafnréttislöggjafarinnar.
  39. Verði því ekki séð að kærunefnd jafnréttismála geti fjallað um mál þetta þar sem kosið hafi verið leynilega til embættis prests, en verði ekki á það fallist verði ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um þetta mál þar sem annar umsækjandi hafi staðið henni framar í hæfnismatinu.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  40. Kærandi segir að kærði hafi meðal annars brotið gegn jafnréttislögum þar sem gengið hafi verið fram hjá hæfari umsækjanda um auglýst starf án fullnægjandi rökstuðnings, sbr. 26. gr. laganna, enda hafi verið leiddar líkur að ólögmætri mismunun við ráðningu í stjórnunarstöðu. Jafnframt hafi kærði með embættisskipun sinni brugðist lögbundinni skyldu sinni til að jafna stöðu kynjanna í sambærilegum áhrifa- og stjórnunarstöðum, sbr. 18. gr. laganna, og þar með einnig brotið gegn yfirlýstri og samþykktri jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar.
  41. Sjónarmiðum, réttlætingum og staðhæfingum kærða sé hafnað að mestu leyti, en ekki verði séð að aðrar ástæður en ólögmæt mismunun hafi legið til grundvallar við skipun í embætti sóknarprests, sbr. 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga.
  42. Í 1. gr. starfsreglna nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta, með síðari breytingum, segi meðal annars að kærði skipi í embætti sóknarpresta og um málsmeðferð samkvæmt starfsreglunum skuli farið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, eftir því sem við geti átt. Nánar sé mælt fyrir um mat á hæfni umsækjenda um laus prestsembætti í 5. gr. starfsreglnanna en þar segi að kærði skuli skipa þriggja manna matsnefnd sem skuli annast slíkt mat. Komi þar fram að í sömu grein meðal annars að í matsnefndinni skuli sitja fólk af báðum kynjum.
  43. Um nánari störf matsnefndar og þau sjónarmið sem matsnefndinni beri að hafa að leiðarljósi við mat sitt sé fjallað um í 6. gr. starfsreglnanna, en í 1. mgr. 6. gr. segi að meta skuli hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði og hæfni samkvæmt þarfagreiningu sem áskilin séu í auglýsingu. Að öðru leyti skuli við mat á hæfni umsækjenda horfa til menntunar, starfsferils og starfsreynslu.
  44. Matsnefnd skuli velja að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm. Að fengnu mati beri svo nefndinni að senda kærða mat sitt, rökstuðning og niðurstöður sínar en kærði sendi þá niðurstöður matsnefndar áfram til kjörnefndar prestakallsins sem skipi í embættið í leynilegri kosningu.
  45. Í 6. gr. starfsreglnanna komi fram þau sjónarmið sem matsnefnd beri að byggja hæfnismat sitt á, en þar sé kveðið á um hvernig matsnefndin skuli meta hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði og hæfni með vísan í þarfagreiningu prestakallsins sem fram komi í auglýsingu og starfsferli. Sérstaklega sé tekið fram í 6. gr. að jafnræðis umsækjenda skuli gætt og byggist því verklag matsnefndar meðal annars á því að jafnræði sé í heiðri haft við hæfnismat.
  46. Niðurstaða matsnefndar skuli að sögn nefndarinnar byggð á verðleikum umsækjenda með hliðsjón af menntun, reynslu og hæfni og skilvirkni í starfi. Matsnefnd hafi lagt mat á framangreinda þætti hverju sinni með kvarðanum frá 2 til 10 stig.
  47. Kærandi hafi lokið námi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún hafi lagt stund á kennsluréttindanám við Kennaraháskóla Íslands og diplóma við endurmenntun Háskóla Íslands í sálgæslufræðum, 35 ECTS-einingar. Kærandi hafi sótt fjölmörg námskeið á meistarastigi í sálgæslufræðum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og í samstarfi við guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands. Matsnefndin hafi gefið kæranda átta stig fyrir menntun en þeim sem skipaður hafi verið aðeins sex stig.
  48. Kærandi hafi starfað innan þjóðkirkjunnar í fimmtán ár og þar með talið sinnt prestsþjónustu í tíu ár en öðru kirkjulegu starfi í fimm ár. Kærandi hafi verið sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli í fimm ár en frá árinu 2013 hafi hún sinnt afleysingaþjónustu í Digranes-, Grafarvogs-, Garða-, Nes-, Víðistaða-, Tjarna-, Vestmannaeyja-, Patreksfjarðar- og Hofsóss- og Hólaprestaköllun en starfi nú í afleysingum sem prestur fatlaðra. Kærandi hafi einnig verið skrifstofustjóri Neskirkju og framkvæmdastjóri Kaffitorgs í Neskirkju sem og kennari við Barnaskólann á Akranesi í tvö ár. Matsnefnd hafi gefið kæranda 10 stig fyrir starfsreynslu sem tengist kirkjulegu starfi en gefið þeim sem skipaður hafi verið 8 stig.
  49. Kærandi, ásamt öðrum umsækjendum, hafi verið talin vel kynnt og njóta trausts í störfum sínum og hafa góða samskiptahæfileika. Matsnefndin hafi gefið bæði kæranda og þeim sem skipaður hafi verið 8,5 stig fyrir starfsferil.
  50. Í umsögn matsnefndar segi að vægi þáttanna sem lögð sé áhersla á í þarfagreiningu prestakallsins sé eftirfarandi:
    • Reynsla af almennu safnaðarstarfi auk færni í helgihaldi 15%
    • Færni í sálgæslu, mannlegum samskiptum og samstarfi 15%
    • Reynsla af barna-, æskulýðs- og öldrunarstarfi 15%
  51. Í umsögn matsnefndarinnar hafi sagt um fyrsta matsþáttinn, þ.e. reynslu af almennu safnaðarstarfi auk færni í helgihaldi, að nefndin hafi tekið undir með kæranda að hún hafi fjölþætta reynslu af safnaðarstarfi sem prestur frá árinu 2008. Kærandi og sá sem skipaður hafi verið, hafi bæði fengið 9 stig fyrir þennan þátt. Um annan matsþáttinn, þ.e. færni í sálgæslu, mannlegum samskiptum og helgihaldi, hafi sagt að nefndin hafi tekið undir með kæranda að hún hafi góða menntun og reynslu af sálgæslu sem og mannlegum samskiptum sem prestur frá árinu 2008. Matsnefnd hafi gefið kæranda 9,5 stig fyrir þennan þátt og þeim sem skipaður hafi verið 9 stig. Þá hafi sagt um þriðja matsþáttinn, þ.e. reynslu af barna-, æskulýðs- og öldrunarstarfi, að matsnefndin hafi tekið undir með kæranda að hún hafi reynslu af barna-, æskulýðs- og öldrunarstarfi sem prestur frá árinu 2008. Kærandi hafi fengið 8,5 stig fyrir þennan þátt en sá sem skipaður hafi verið 9 stig.
  52. Kærandi hafi þótt standa sig vel í viðtalinu hjá matsnefndinni og hlotið 9 stig fyrir þann þátt en sá sem skipaður hafi verið hafi fengið 8,5 stig.
  53. Öllum staðhæfingum kærða sé hafnað um að hlutfall karla og kvenna í sambærilegum embættum sé jafnt, enda sé langur vegur frá því að leggja áherslu á í orði að jafnréttissjónarmiða sé gætt og því að færa fram sannanleg gögn og rökstuðning fyrir því að lögbundnum jafnréttismarkmiðum sé framfylgt eða hafi verið náð.
  54. Í tölfræðilegu yfirliti jafnréttisnefndar kærða frá mánaðamótum ágúst/september 2019 megi sjá að kynjaskipting í embættum sóknarpresta hafi verið með þeim hætti að verulega hafi hallað á konur sem þá hafi verið 24 talsins á móti 49 körlum. Um sé að ræða stjórnunar- og áhrifastöður þar sem halli verulega á konur. Ekki verði séð með neinu móti að óviðkomandi tilvísanir kærða um einstaka kosningar eða ráðningar í greinargerð sinni breyti nokkru um raunverulega og núverandi stöðu og ójafna kynjaskiptingu í sambærilegum embættum.
  55. Kærði haldi því meðal annars fram að samkvæmt almennum reglum taki reglur stjórnsýslu- og jafnréttislega aðeins til hefðbundins ráðningaferils, en ekki leynilegra kosninga. Ekki verði séð hvernig kærði geti vikið sér undan lögbundinni ábyrgð sinni samkvæmt jafnréttislögum en markmið þeirra laga sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna jafnt sem karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Ekki verði séð hvernig skipun í embætti sóknarprests sé undanþegin því lögfesta og allsherjar markmiði.
  56. Ekki hafi verið um almenna prestskosningu að ræða heldur hafi skipunin farið fram með fulltrúakosningu og vali kjörnefndar sem hafi átt að byggja á hæfnismati matsnefndar samkvæmt ákvæðum starfsreglna. Í álitsgerð Eiríks Tómassonar og Þorgeirs Örlygssonar um vald- og verksvið kirkjuþings og kirkjuráðs sé því haldið fram að það stríði gegn góðum stjórnsýsluháttum að leynileg atkvæðagreiðsla sé viðhöfð á fundum fjölskipaðs stjórnvalds innan kirkjunnar þar sem slíkir fundir skuli að jafnaði haldnir fyrir opnum tjöldum. Í því sambandi sé vísað til þess að það geti verið erfiðleikum bundið að rökstyðja stjórnvaldsákvarðanir sem þannig séu teknar, sé þess krafist á grundvelli 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.
  57. Í 1. gr. starfsreglnanna segi meðal annars að kærði skipi í embætti sóknarpresta og um málsmeðferð samkvæmt starfsreglunum skuli farið að stjórnsýslulögum, eftir því sem við geti átt. Æðstu stjórnvöld þjóðkirkjunnar, þ.e. til dæmis kirkjuþing, kirkjuráð og kærði, heyri þá undir stjórnsýslulög þegar þau taki ákvarðanir um rétt eða skyldur manna en ákvarðanir um réttindi til starfa og ráðningar falli þar undir stjórnvaldsákvarðanir.
  58. Sé það raunin að stjórnvöldum kirkjunnar sé sannanlega veitt lögmæt heimild til þess að víkja frá ákvæðum stjórnsýslulaga í starfsreglum sem settar hafi verið samkvæmt 59. gr. laga nr. 78/1997, skuli horft til þess að slík heimild sé ekki skýrð nánar í lögskýringargögnum og verði þá, með hliðsjón af viðteknum lögskýringarsjónarmiðum, að skýra þá heimild þröngt. Þannig verði að telja að einstaka stofnanir eða nefndir þjóðkirkjunnar geti ekki vikið til hliðar í sínum starfsreglum þeim grundvallarreglum sem gildi um málsmeðferð í íslenskri stjórnsýslu, hvort sem þær byggi á stjórnsýslulögum eða um sé að ræða óskráðar meginreglur laga. Sem dæmi megi nefna jafnréttislög, meginreglur á borð við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga sem styðjist við 65. gr. stjórnarskrárinnar, eða andmælarétt sem mælt sé fyrir um í IV. kafla stjórnsýslulaga. Sama hljóti að gilda um óskráða réttarreglu eins og regluna um að ólögmæt sjónarmið megi ekki búa að baki stjórnvaldsákvörðun.
  59. Til frekari samanburðar megi horfa til Norðurlandanna en hvergi þar, né almennt í öðrum vestrænum réttarsamfélögum, tíðkist það að málsmeðferð við skipun eða ráðningu presta í lútherskum kirkjum sé undanskilin lögfestum réttarumbótum á borð við jafnréttislög eða að kirkjan skuli ekki halda góða stjórnsýsluhætti í heiðri í öllum sínum framkvæmdum sem kunni að varða réttindi eða skyldur manna, innan jafnt sem utan kirkjunnar.
  60. Því sé alfarið hafnað að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um þetta mál. Óumdeilt sé að kærandi hafi verið talin hæfari en sá sem skipaður hafi verið og að þriðji umsækjandinn hafi skorað ögn hærra í stigagjöf matsnefndar. Munurinn sé aftur á móti vart marktækur á milli kæranda og þriðja umsækjandans, þ.e. aðeins 0,1 stig, og þau séu því jafn hæf að mati kæranda. Aftur á móti muni 0,7 stigum á kæranda og þeim sem skipaður hafi verið. Það verði að teljast verulegur munur, enda hafi hún staðið honum framar eða þau verið jöfn í öllum þáttum nema einum. Að teknu tilliti til jafnréttissjónarmiða skipti það svo litlu þar sem hinir umsækjendurnir hafi báðir verið karlar og gengið hafi verið fram hjá hæfari og jafn hæfum einstaklingi við skipun í embættið þegar það hafi verulega hallað á kyn kæranda í sambærilegum embættum og stjórnunarstöðum.
  61. Ekki verði séð að kærði hafi fært nein haldbær rök fyrir því að ekki hafi verið um ólögmæta mismunun að ræða þegar gengið hafi verið fram hjá kæranda með svo grófum hætti.
  62. Í útgefinni og yfirlýstri jafnréttisstefnu kærða segi meðal annars að markmið hennar sé að stuðla að jafnari stöðu og jöfnum rétti allra kynja í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum allra kynja til starfa og þjónustu. Þar segi nánar að markmiðið sé að bæta stöðu eða auka möguleika kynjanna, halli á kyn á ákveðnu sviði. Þar sé svo að finna sérstakt ákvæði sem kveði á um að stuðla að jafnari stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Setja eigi kynjakvóta og raunhæf markmið og bæta aðgengi þess kyns sem á halli að stjórnunar- og áhrifastöðum.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  63. Kærði telur að ekki hafi verið leiddar líkur að mismunun í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærði leggi mikla áherslu á að gætt sé jafnræðisreglna í starfsemi sinni og við alla málsmeðferð. Aftur á móti telji hann ljóst að vegna eðlis leynilegra kosninga sé ekki unnt að beita slíkum reglum um niðurstöðu kosninga, þrátt fyrir að þær gildi um málsmeðferðina og val á því milli hvaða umsækjenda sé kosið. Fyrir fram hafi það legið fyrir að það yrði leynileg kosning sem að endingu réði niðurstöðunni. Þetta hafi öllum verið ljóst sem hafi sótt um. Fyllsta jafnræðis hafi verið gætt við alla málsmeðferð fyrir matsnefnd og allir umsækjendur hafi fengið tækifæri til að gera grein fyrir sér í viðtali fyrir kjörnefnd og hafi verið kosið á milli þeirra allra í kosningu kjörnefndar.
  64. Kjörnefnd boði umsækjendur sem matsnefnd hafi metið hæfasta til viðtals, samkvæmt 3. mgr. 8. gr. starfsreglna nr. 144/2016. Í 8. mgr. sama ákvæðis sé kveðið á um að kjörnefnd kjósi sóknarprest eða prest úr hópi þeirra sem matsnefnd hafi talið hæfasta til að gegna viðkomandi prestsembætti. Matsnefnd hafi talið alla umsækjendur hæfa og allir fengið sama tækifæri á því að koma fyrir kjörnefnd.
  65. Gætt hafi verið að öllum gildandi reglum við skipunina. Jafnræðis hafi verið gætt við alla málsmeðferð. Eftir málsmeðferð fyrir matsnefnd og viðtöl við kjörnefnd, sem kærandi hafi enga athugasemd gert við þegar henni hafi verið gefinn þess kostur, hafi farið fram leynileg kosning í samræmi við gildandi starfsreglur sem settar séu með stoð í lögum og leiðbeinandi reglum. Ekkert í málinu sýni fram á að jafnræðis hafi ekki verið gætt við þessa málsmeðferð, enda kærandi fengið sama kost og aðrir umsækjendur á því að gera grein fyrir sér fyrir kjörnefnd sem síðan hafi kosið á milli umsækjenda, eftir að allir umsækjendur höfðu verið metnir hæfir.
  66. Kærða hafi verið rétt að haga skipun sinni á þann veg sem gert hafi verið, þ.e. að skipa þann í embættið sem kosinn hafi verið í leynilegri kosningu kjörnefndar. Nefna megi að í dómi Hæstaréttar frá árinu 1998, bls. 4533, hafi verið talið að sú ákvörðun að láta val ráðast af kosningu á milli umsækjenda hafi ekki farið í bága við þágildandi jafnræðislög, enda hafi hún ekki leyst stefnda undan kvöðinni um að gæta þess jafnréttis, sem lögunum sé ætlað að vernda. Í málinu hafi aftur á móti verið talið að brotið hafi verið gegn Ó með því að hafa ekki veitt henni kost á því „til jafns við þá karla, sem valdir voru, að leggja umsókn sína í dóm stjórnarinnar sjálfrar“, en stjórnin hafi síðan kosið á milli umsækjenda. Í tilviki kæranda í þessu máli hafi aftur á móti verið gætt fyllsta jafnréttis við alla málsmeðferð, bæði fyrir matsnefnd og í viðtölum fyrir kjörnefnd. Kærandi hafi þar fengið sama kost og aðrir umsækjendur á því að gera grein fyrir sér fyrir kjörnefnd. Að lokum hafi það verið val í leynilegri kosningu á milli hæfustu umsækjenda sem hafi ráðið niðurstöðu um skipun í embætti sóknarprests. Í dóminum segi einnig: „Hins vegar hefur hann lýst því, hvaða sjónarmið hafi mestu ráðið við kosninguna að hans mati, svo sem rakið er í héraðsdómi. Þurfa þau ekki að hafa verið ómálefnaleg, eins og starfsemi stofnunnarinnar og hlutverki er háttað.“ Það sama gildi í máli þessu. Þannig sé ekki ómálefnalegt að skipa sóknarprest að undangenginni leynilegri kosningu í ljósi eðlis starfsins.
  67. Málefnalegar ástæður liggi að baki því að leggja kosningu prests í hendur kjörnefndar. Biskup sé því bundinn af þeirri niðurstöðu, sé gætt að öllum málsmeðferðarreglum. Að baki þeirri málsmeðferð að kjörnefnd kjósi á milli umsækjenda í leynilegri kosningu liggi lögmæt og málefnaleg sjónarmið sem tengist eðli starfs sóknarprests. Í þjóðkirkjulögum nr. 78/1997 sem og starfsreglum settum samkvæmt þeim, sé rík áhersla lögð á mikilvægi sóknarinnar í starfi kirkjunnar. Samkvæmt 48. gr. þjóðkirkjulaga sé sóknin grunneining þjóðkirkjunnar. Í 7. gr. starfsreglna nr. 144/2016 sé mælt fyrir um að kjörnefnd sé kosin á safnaðarfundi. Í 10. mgr. 8. gr. starfsreglnanna sé kveðið á um að sá umsækjandi teljist hafa hlotið kosningu í prestsembætti sem hljóti meiri hluta gildra atkvæða, miðað við fullskipaða kjörnefnd, í leynilegri atkvæðagreiðslu á kjörnefndarfundi. Í 9. gr. sé fjallað um verkefni biskups við veitingu prestsembættis og kveðið á um að biskup skipi þann umsækjanda í embætti sem meiri hluti kjörnefndar hafi kosið og kynni umsækjendum niðurstöðuna samkvæmt 40. gr. þjóðkirkjulaga. Þjóðkirkjunni sé frjálst að ákveða að haga skipun sóknarprests með framangreindum hætti, enda sé öllum reglum fylgt og málsmeðferð í samræmi við þær.
  68. Játa verði kirkjunni svigrúm til þess að ákveða hvernig slíkum málum sé hagað innan hennar. Í áliti nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (Feneyjanefndin) segi um tillögu að nýjum stjórnskipunarlögum fyrir Ísland frá 2013: „Feneyjanefndin vill um leið nefna, að samkvæmt ECHR (Mannréttindasáttmála Evrópu) eiga stjórnvöld ekki að hlutast til um innri skipan kirkja.“ Ákvörðun kirkjunnar um að haga vali á sóknarpresti með ákveðnum hætti í starfsreglum falli undir ákvarðanir um innra skipulag kirkjunnar. Ríkinu beri því að hafa takmörkuð afskipti af slíkum ákvörðunum.
  69. Því sé mótmælt að kærði hafi vikið sér undan lögbundinni ábyrgð sinni sem áskilin sé í jafnréttislögum. Kærði hafi kosið að haga skipun í embætti presta á tiltekinn veg í settum reglum og hafi jafnréttisreglna verið gætt í hvívetna við beitingu þeirra í tilviki kæranda. Það sé bæði málefnalegt og lögmætt að haga því með þeim hætti að endanleg niðurstaða um val í embættið ráðist af leynilegri kosningu kjörnefndar.
  70. Þá komi fram í athugasemdum kæranda tiltekinn misskilningur á álitsgerð Eiríks Tómassonar og Þorgeirs Örlygssonar þar sem fjallað sé um valdmörk þessara tveggja stofnanna innan kirkjunnar og hvort unnt sé að skjóta ákvörðunum þeirra til æðra stjórnvalds, þ.e. til ráðherra. Ekki verði séð að þessi álitsgerð taki á því álitamáli sem sé til skoðunar hér. Þá sé áréttað að álitsgerðin sé orðin rúmlega 20 ára og þau sjónarmið sem þar séu reifuð eigi ekki allskostar við hér.
  71. Þá verður ekki fallist á þann skilning kæranda að vikið hafi verið til hliðar þeim grundvallarreglum sem gildi um málsmeðferð í íslenskri stjórnsýslu. Ákvörðun kærða hafi byggt á niðurstöðu kosningar kjörnefndar sem hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur, settum með stoð í þeim. Í auglýsingu um umrætt embætti hafi verið skýrt tekið fram að umræddar reglur giltu um veitingu embættisins. Það hafi því hlotið að vera í samræmi við réttmætar væntingar allra aðila að sá umsækjandi, sem hafi hlotið löglega kosningu kjörnefndar, yrði að lokum skipaður.
  72. Málsmeðferð í máli nr. 8/2015 hafi verið ólík málsmeðferð í þessu máli. Í þessu máli hafi, líkt og rakið hafi verið, verið fylgt ákvæðum starfsreglna nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta, með síðari breytingum. Kærði hafi verið bundinn af niðurstöðu kosningar kjörnefndar.
  73. Þá sé vert að nefna að frá því að málsatvik þessa máls hafi átt sér stað hafi verið gerð breyting á þjóðkirkjulögum nr. 78/1997 um störf og starfshætti þjóðkirkjunnar þar sem kveðið sé á um aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum í tilefni af viðbótarsamningi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og viljayfirlýsingar sem hafi fylgt honum. Starfsmenn þjóðkirkjunnar séu ekki lengur embættismenn í skilningi laga um starfsmenn ríkisins nr. 70/1996 heldur starfsmenn hennar. Það sé nú hlutverk kirkjuþings að setja reglur um starfsmenn kirkjunnar og hvernig staðið skuli að ráðningu þeirra sem og samningum um ráðningarkjör. Sé þetta í samræmi við ríkjandi viðhorf um að kirkjan skuli sjálf ráða innri málefnum sínum.

    NIÐURSTAÐA

  74. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  75. Hvað varðar umfjöllun kærða í málatilbúnaði sínum um að nokkra furðu veki að kæra í málinu skuli berast nærri sjö mánuðum eftir að skipun í umrætt embætti hafi átt sér stað þá skal því haldið til haga að kæran barst nefndinni innan sex mánaða frá ætluðu broti kærða, sbr. lögmæltan kærufrest 2. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008. Verður málið því tekið til efnislegrar úrlausnar.
  76. Hinn 1. janúar 2020 öðluðust gildi lög nr. 153/2019, en samkvæmt þeim lögum teljast prestar ekki lengur embættismenn í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sú skipun sem hér er til umfjöllunar var aftur á móti ákveðin áður en lögin tóku gildi og verður því við úrlausn málsins að líta til laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar eins og þau voru á umræddum tíma. Samkvæmt 37. gr. laganna skipaði biskup í embætti sóknarprests. Staðan sem kærði auglýsti var þar með starf embættismanns. Á þeim tíma giltu því sambærilegar réttaröryggisreglur stjórnsýsluréttarins um skipanir í prestsembætti hjá þjóðkirkjunni og um umsækjendur um opinber störf eða embætti hjá ríkinu. Til viðbótar giltu jafnframt ýmsar óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana um slíkar skipanir, þar á meðal reglan um að velja skuli þann hæfasta úr hópi umsækjenda, sbr. til nokkurrar hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5778/2009.
  77. Því skal einnig haldið til haga að regla 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um bann við mismunun við ráðningu nær til atvinnurekenda almennt og er þjóðkirkjan þar ekki undanskilin.
  78. Í samræmi við það sem að framan greinir kom fram í auglýsingu kærða á embættinu að um embættið giltu meðal annars lög nr. 78/1997 og lög nr. 70/1996. Þá var vísað til laga nr. 10/2008 í auglýsingunni.
  79. Á þeim tíma sem ráðningarferlið átti sér stað kom, eins og áður segir, fram í 37. gr. laga nr. 78/1997 að biskup Íslands skipaði í embætti sóknarprests. Í 1. mgr. 39. gr. laganna sagði að þegar prestakall eða prestsstaða losnaði eða nýtt prestakall væri stofnað bæri biskupi Íslands að auglýsa embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kom meðal annars fram að nánari reglur um val á sóknarpresti, meðal annars um skilyrði til almennra kosninga, skyldi setja í starfsreglur samkvæmt 59. gr. laganna. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 78/1997 kom fram að biskup Íslands veitti þeim embætti sóknarprests sem hlotið hefði bindandi val eða kosningu, samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr. laganna. Í 2. mgr. 40. gr. sagði að embætti sóknarprests skyldi veitt til fimm ára í senn, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
  80. Kærandi rekur, eins og áður segir, í málatilbúnaði sínum að haustið 2019 hafi kynjaskipting í embættum sóknarpresta verið með þeim hætti að verulega hafi hallað á konur þar sem þær hafi verið 24 talsins á móti 49 körlum. Kærði vefengir ekki þessar tölur.
  81. Kærði byggir aftur á móti á því að jafnræðis hafi verið gætt í umsóknarferlinu fram að leynilegri atkvæðagreiðslu 17 manna kjörnefndar prestakallsins. Hann telji ljóst að vegna eðlis leynilegra kosninga sé ekki unnt að beita jafnræðisreglum um niðurstöðu slíkra kosninga.
  82. Þegar stuðst er við leynilega kosningu er í reynd ómögulegt að mati kærunefndarinnar að greina þær forsendur sem búa að baki ákvörðun þeirra sem úrslitum ráða í kosningunni. Við þær aðstæður er þar með ekki unnt að ráða fram úr því hvort byggt hafi verið á sjónarmiðum um kynferði. Þar af leiðandi er ekki unnt að leggja mat á lögmæti þeirra sjónarmiða út frá lögum nr. 10/2008.
  83. Að mati kærunefndarinnar er nærtækast að líta svo á að sú málsvörn atvinnurekenda að þeir hafi einfaldlega kosið að styðjast við leynilega atkvæðagreiðslu teljist almennt ekki hafa vægi við úrlausn mála fyrir kærunefndinni, enda yrði ella unnt að sniðganga fortakslaust ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um bann við mismunun. Verður því að draga þá ályktun að þetta sé fyrst og fremst tæk málsvörn þegar slíkt fyrirkomulag á sér lagastoð. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða skipun opinberra embættismanna.
  84. Kærunefndin telur unnt að fallast á það að sérstaða þjóðkirkjunnar sem trúfélags, þar með talið sambandið á milli sóknarbarna og sóknarprests, réttlæti að starfsreglur kirkjuþings nr. 144/2016 um val og veitingu prestsembætta geri ráð fyrir almennum prestskosningum sem fram fari meðal sóknarbarna. Slíkt fyrirkomulag á sér enda lagastoð, sbr. tilvísun til slíkra kosninga í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 78/1997.
  85. Öðru máli gegnir um þá skipan mála sem kveðið er á um varðandi kjörnefndir í starfsreglum kirkjuþings nr. 144/2016. Þannig verður leynilegri atkvæðagreiðslu tiltölulega fámenns hóps, þ.e. í þessu tilviki kjörnefndar sem skipuð var 17 kjörmönnum, ekki jafnað til almennra prestskosninga. Þá vísa lög nr. 78/1997 ekki til starfa slíkra kjörnefnda, en þær leystu af hólmi svokallaðar valnefndir prestakalla sem áður var falið að meta færni umsækjenda út frá tilteknum sjónarmiðum, svo sem guðfræðimenntun og starfsreynslu. Eins og hér háttar til nægir ákvæði í starfsreglum kirkjuþings ekki til þess að leysa kærða undan þeirri skyldu að virða ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 í hvívetna í því ráðningarferli sem leiddi til umræddrar skipunar, enda verður ekki fram hjá því litið að hér var, eins og áður segir, um að ræða veitingu opinbers embættis. Þar af leiðandi geta sjónarmið um sérstöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags ekki haft sama vægi og ella við úrlausn málsins. Að öllu þessu virtu nægði kærða ekki einungis að gæta jafnræðis á fyrri stigum málsmeðferðar heldur hvíldi sú lagaskylda á kærða að tryggja að jafnræðis væri einnig gætt við endanlegt val á umsækjanda sem skipaður yrði í embættið.
  86. Kærði hefur byggt á því fyrir kærunefndinni að jafnvel þótt nefndin komist að þeirri niðurstöðu að leynileg atkvæðagreiðsla hrófli ekki við beitingu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 í málinu, hafi kæranda samt sem áður ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis þar sem matsnefnd, sem falið var að meta hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. starfsreglna nr. 144/2016, hafi talið þriðja umsækjandann, sem var karl, standa kæranda framar. Fyrir liggur að sá umsækjandi hlaut einkunnina 9,0 en kærandi 8,90. Af þessu tilefni áréttast að kærunefndinni er ekki falið að skera úr um það hvaða einstakling hafi borið að ráða í starf úr hópi umsækjenda. Þess í stað er verkefni nefndarinnar að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Atvinnurekendum er eins og áður segir óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Kemur þá meðal annars í hlut þess sem ákvörðun tók um ráðninguna að rökstyðja þá ákvörðun fyrir kærunefndinni með vísan til samanburðar á kæranda og þeim sem starfið hlaut. Sé til dæmis karl ráðinn í starf þar sem í hópi umsækjenda var kona sem leiðir líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns þá telst brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 gagnvart þeirrri konu nema atvinnurekandinn geti sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Þarf konan þá ekki að sýna fram á að hún hafi staðið öllum öðrum umsækjendum framar í ferlinu. Gildir þar með einu hvort aðrir hæfir umsækjendur hafi einnig tekið þátt í umsóknarferlinu. Að þessu virtu er ekki unnt að fallast á fyrrgreinda röksemdafærslu kærða eða þau ummæli kærða að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
  87. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í embættinu.
  88. Í málinu liggur fyrir fremur ítarleg samantekt fyrrgreindrar þriggja manna matsnefndar á vegum kærða. Var niðurstaða þeirra nefndar sú að kærandi stæði umræddum karli framar. Að virtum rökstuðningi þeirrar nefndar og málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni telst kærandi hafa leitt nægar líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita beri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  89. Eins og áður segir byggir kærði í reynd ekki á því að karlinn sem hlaut umrætt opinbert embætti hafi staðið kæranda framar. Kærði gerir þannig ekki tilraun í málatilbúnaði sínum til að sýna fram á að sá karl sem embættið hlaut hafi verið hæfari en kærandi til starfans. Þá liggur fyrir, eins og áður segir, fremur ítarleg samantekt þriggja manna matsnefndar á vegum kærða sem taldi að kærandi stæði umræddum karli framar. Í öllu falli leiðir það af málatilbúnaði kærða að hann telur ekki unnt að færa rök fyrir forsendum ákvörðunar sinnar að því marki sem hún byggðist á leynilegri atkvæðagreiðslu 17 manna kjörnefndar.
  90. Að öllu framangreindu virtu hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um skipun í embætti sóknarprests Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
  91. Meðferð málsins tafðist vegna gagnaöflunar af hálfu nefndarinnar og veittra fresta að beiðni málsaðila.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, biskup Íslands, braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla við skipun í embætti sóknarprests Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls sem auglýst var 27. maí 2019.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum