Hoppa yfir valmynd
6. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Rúmlega hundrað starfsmenn hjálparsamtaka myrtir á síðasta ári

AidworkerRúmlega eitt hundrað starfsmenn hjálparsamtaka voru myrtir á síðasta ári í 158 árásum. Í þessum árásum særðust 98 og 89 var rænt. Í nýrri samantekt samtakanna Aid Workers Security kemur fram að árásum á starfsfólk hjálparsamtaka hafði fjölgað lítillega frá árinu áður en þeir sem drepnir voru fækkaði örlítið, úr 109 í 101.

Annað árið í röð var Suður-Súdan hættulegasta landið fyrir starfsfólk hjálparsamtaka sem endurspeglar átökin í landinu og refsileysi fyrir vopnaðar sveitir. Flestar árásirnar voru gerðar af innlendum vopnuðum samtökum sem berjast fyrir völdum í viðkomandi ríki og þjóna því tilgangi þeirra að hrella þjóðina og lítillækka valdhafa.

Stærri vígasveitir eins og Íslamska ríkið og Al Qaeda voru ábyrgar fyrir færri árásum en meira mannfalli. "Tilgangur þeirra er að myrða marga og þær beina spjótum sínum oftar að alþjóðlegum starfsmönnum hjálparsamtaka," segir í skýrslunni.

Þegar mannfallið er hins vegar greint með tilliti til gerenda kemur í ljós að ábyrgðin er mest hjá ríkisvaldi. Á árunum 2015 og 2016 féllu 54 starfsmenn hjálparsamtaka vegna aðgerða ríkja, flestir í loftárásum Rússa og Bandaríkjamanna á Sýrland og Afganistan.

Fram kemur í fréttaskýringunni að aldrei í sögunni hafi samtímis verið jafn margar, flóknar og langvarandi hörmungar eins og núna, allt frá Vestur-Afríku til Asíu. Alls hafa um 40 milljónir manna flosnað upp og flóttafólk telur 20 milljónir. Frá síðari heimsstyrjöld hafa viðlíka tölur ekki sést.

Aid Worker Security Report 2017: Behind the attacks: A look at the perpetrators of violence against aid workers/ AidWorkersSecurity

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum