Hoppa yfir valmynd
6. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Þær eru kallaðar fiskdrottningar á markaðnum í héraðshöfuðborginni

https://youtu.be/lxea4kpN9Fw Konurnar frá Nova Chikoa við Cahora Bassa uppistöðulónið eru kallaðar fiskdrottningar á markaðnum í héraðshöfuðborginni Tete í samnefndu fylki í Mósambík. Þær koma langt að með fiskinn ísaðan og ferskan á markaðinn - og þar sem Mósambíkanar vilja ferskan fisk á diskinn sinn fá þær gott verð fyrir tilapíuna. Þannig hefur það ekki alltaf verið: sú var tíð að þær fóru þessa tvö hundruð kílómetra leið í 35 til 40 stiga hita með fiskinn í strigapokum; þá var verðið í samræmi við útlit og óþef. Nú bjóða fiskdrottningarnar upp á gæðavöru, hafa í kringum sig unga aðstoðarmenn, en semja sjálfar um verð og taka á móti peningum.

Við Íslendingar eigum drjúgan þátt í þessu ævintýri með konunum frá Nova Chikoa. Hluti af þriðja og síðasta áfanganum í Cahora Bassa verkefni okkar með mósambískum stjórnvöldum er að styrkja atvinnuþátttöku kvenna sérstaklega í fiskisamfélögum við lónið. Vandinn sem þær glímdu við var að koma fiskinum ferskum á markað. Vegna skorts á frysti- og kæliaðstöðu skemmdist fiskurinn á leiðinni til Tete-borgar. Ákveðið var að styrkja þrjú kvenfélög í þorpum við lónið og veita þeim styrki til kaupa á stórum plastkössum til að flytja ísaðan fisk á markaðinn; sjálfar fengu þær síðan smálán til kaupa á frystikistum.

Á ferð okkar um Cahora Bassa lónið tökum við land í grennd við Nova Chikoa. Skammt frá þorpinu er verið að þurrka tilapíur sem seldar eru til útflutnings: þessi fiskur fer að sögn heimamanna yfir landamærin til Sambíu, Simbabve, Kongó og jafnvel alla leið til Angóla. Á heimamarkaði er eftirspurnin eftir ferskfiski hins vegar mikil og kælikassarnir hafa gerbreytt lífi kvennanna; þær líta til okkar sem velgjörðarmanna og undirbúa veislu með nýveiddri tilapíu sem elduð er á hlóðum við hús sem eitt kvenfélagið rekur, bæði sem matstofu fyrir fiskimenn og ferðalanga - og litla nýlenduvöruverslun. Hér selja konurnar mat- og drykkjarvörur, sápur, olíur, salt og margt annað smálegt.

Súaria er formaður 1. júní félagsins með tíu konur innan sinna vébanda. Hún segir að viðskiptin hafi blómstrað, salan aukist mikið og sölustöðum fjölgað, eftir að kælikassarnir og frystikistur komu til sögunnar. Í hverjum mánuði selji þær um tvö tonn af fiski. Nú hafi þær peninga til að kaupa föt á börnin og greiða fyrir menntun þeirra, eins hafi þær byggt lítið hús í Tete-borg og komið þar fyrir frystikistu, að ógleymdri uppbyggingunni í atvinnurekstrinum hér heima í þorpinu. Hún nefnir að þær nýti ferðirnar til stórborganna til að kaupa inn fyrir bæði heimilið og verslunina. Hún segir þær stórhuga, hafa mikinn áhuga á því að koma fiskinum til annarra fylkja í Mósambík og einnig yfir til nágrannalanda, en flutningar á vörunni sé óleystur vandi. Hún segir konurnar afskaplega ánægðar með stuðninginn og þakkar fyrir þeirra hönd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum