Hoppa yfir valmynd
6. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Fimmtíu flótta­menn til Íslands árið 2018, flestir frá Jórdaníu og Líbanon

Flottamenn4Íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um móttöku fimmtíu flóttamanna árið 2018. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum í síðustu viku. Ákvörðunin byggist á tillögum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og íslensku flóttamannanefndarinnar.

Miðað er við að stærstur hluti flóttafólksins sem tekið verður á móti komi úr flóttamannabúðum í Líbanon og Jórdaníu en einnig verði tekið á móti fimm til tíu hinsegin flóttamönnum sem dvelja í flóttamannabúðum í Kenía, eins og segir í frétt frá velferðarráðuneytinu. Þar segir líka að staða hinsegin flóttafólks sé sérstaklega viðkvæm "þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki eru almennt miklir í Afríku og því algengt að þetta fólk og fjölskyldur þess sæti einnig ofsóknum og ofbeldi þegar í flóttamannabúðirnar er komið." 

Í fréttinni segir ennfremur:

"Stríðsátökin í Sýrlandi hafa nú staðið frá því í byrjun árs 2011 og eru afleiðingar þeirra víðtækar, bæði fyrir sýrlenska borgara, nágrannaríki og flóttafólk um heim allan. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreinir alls 22,5 milljónir einstaklinga sem flóttamenn, þar af er 5,1 milljón Sýrlendingar og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands.

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að aðstoða sýrlenskt flóttafólk enda hlutfall Sýrlendinga meðal flóttamanna á heimsvísu mjög hátt. Þá er mikill ótti við að átökin í landinu breiðist út til nágrannaríkjanna og því hefur verið reynt að létta álagi af þeim ríkjum. Af þeim 125.835 einstaklingum sem fluttust sem svokallað kvótaflóttafólk til öruggra ríkja árið 2016 voru Sýrlendingar 47.930 eða 38% alls kvótaflóttafólks.

Í ljósi þess mikla neyðarástands sem hefur myndast vegna stríðsátaka í Sýrlandi hefur flóttafólk frá öðum ríkjum lent í enn frekari biðstöðu en í því sambandi má nefna að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að 1,2 milljónir einstaklinga þurfi að komast til öruggs ríkis á næsta ári, þar af um 530.000 frá Miðausturlöndum og 545.000 frá Afríku.

Með framangreint í huga fór flóttamannanefnd þess á leit við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að koma með tillögur til íslenskra stjórnvalda um hvar framlag Íslands vegna móttöku flóttafólks myndi nýtast best á komandi ári. Niðurstaða flóttamannanefndar og ákvörðun stjórnvalda um móttöku flóttafólks á næsta ári byggist á þeirri tillögu.

Næstu skref felast í því að upplýsa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Stofnunin leggur í framhaldi af því fram upplýsingar um þá einstaklinga sem hún telur koma til greina að bjóða til Íslands og er unnið úr þeim upplýsingum hér á landi, meðal annars með aðkomu Útlendingastofnunar. Þegar fyrir liggur hvaða einstaklingum verður tekið á móti og þar með upplýsingar um samsetningu hópsins, aldur, fjölskyldusamsetningu og fleira tengt aðstæðum þeirra og þörfum semur velferðarráðuneytið við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku fólksins.

Stefnt er að því að því flóttafólki sem boðið verður til landsins komi hingað snemma á næsta ári."

Móttaka kvótaflóttafólks árið 2018/ Velferðarráðuneytið 
Tekið á móti hinsegin flóttafólki í annað sinn/ Vísir 
55 flóttamönnum boðið hingað til lands 2018 

Ríkisstjórn á réttri leið, eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur/ Eyjan

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum