Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Safngripir

HakiÞegar ég flutti til Malaví í fyrrahaust og byrjaði að horfa í kringum mig  á ferðum um sveitirnar í Dedsa og Mangochi héruðum rann upp fyrir mér hin bókstaflega merking orðatiltækisins "að vinna baki brotnu". Á hinni 240 kílómetra leið frá Lilongwe til Mangochi báru fyrir augu endalausir maísakrar (litlir og stórir) sem verið var að undibúa fyrir sáningu (þegar regnið hæfist í desember) en engin landbúnaðartæki voru sýnileg. Ég spurði kollega mína; hvar eru traktorarnir? Hvar eru allavega uxaplógarnir? Svarið var einfalt og mjög sjokkerandi fyrir sveitamanneskju frá Íslandi; "nei ekkert slíkt er notað, allir þessir maísakrar hafa verið plægðir með handafli kvenna".  Konurnar nota haka sem er kallaður "handheld - hoe" sjá myndina hér fyrir ofan.

Ég varð eiginlega öskureið, hvað á það eiginlega að þýða að bjóða fólki upp á landbúnaðaráhöld aftan úr forneskju þegar uxaplógurinn var fundinn upp á tólftu öld?  Hvar eru allar framfarirnar í landbúnaði í Malaví sem ég hafði heyrt um? Auðvitað er Malaví ekkert einstakt í þessu efni, akrarnir eru bara svo sýnilegir.  Landbúnaður í Afríku er borinn uppi af konum og eru þær í  miklum  meirihluta þeirra smábænda sem stunda matjurtaræktun.  Þessir smábændur plægja með höndum, sá með höndum, reita illgresi með höndunum og uppskera með höndunum. Talið er að 65% af orkunni sem notuð er við landbúnað í Afríku sunnan Sahara komi frá handafli kvenna en einungis 15% frá traktorum.

Fáir hafa efni á traktorum en maður skyldi halda að uxar væru meira notaðir.  Tsetse flugan sem veldur svefnsýki setur þó strik í reikninginn hún fylgir nefnilega nautgripum.  Það er líka ýmiss kostnaður sem fylgir dýrahaldi. Reyndar er lítið um búfjárhald í Malaví helst að fólk eigi nokkrar geitur og hænur. Fólksfjölgun í landinu hefur verið mikil á undanförnum áratugum og pláss fyrir graslendur er alltaf minna og minna. 

MaisakurFátækar malavískar sveitafjölskyldur eiga ekkert val því án þess, að rækta maís á öllu  landinu sínu og eiga birgðir fram að næstu uppskeru, munu þær svelta.   Ofan á þetta bætist mikil ómegð, hætta á vannæringu barna og verðandi mæðra og brottfall barna úr skóla því allir verða að hjálpa til.  Þannig verður til vítahringur fátæktarinnar. 

Hartnær 85% íbúa Malaví, sem nú telja 17,2 milljónir, búa í strjálbýli og hafa aðal viðurværi sitt af  sjálfþurftar ræktun á maís og öðrum matjurtum.  Um 3 milljónir malavískra kvenna (helmingur íbúa er undir 15 ára aldri) standa því undir maís framleiðslunni í landinu.  Að frelsa þessar konur frá mesta stritinu ætti að vera helsta jafnréttismálið í Malaví. 

Þegar ég leitaði upplýsinga á vefnum um nútímavæðingu landbúnaðar í Afríku og einkum í Malaví snérust allar greinarnar um úrbætur á maís útsæði, áburðafræði, illgresiseitur og betri geymslur.  Ekki stafkrókur um vélvæðingu á ökrunum til að minnka þrældóm kvenna.  Ég ræddi líka þessi mál við aðra "þróara"  í Lilongwe sem helst höfðu áhyggjur af því, hvað konurnar ættu þá að hafa fyrir stafni.  Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því að bóndakonur í Malaví hafi ekki nóg að gera þótt vinnan á ökrunum verði léttari. 

Ég bind vonir við nýja þróunar- og hagvaxtaráætlun Malaví en þar er minnst á vélvæðingu landbúnaðarins og í fyrra hófst jafnréttisátak á vegum Afríkusambandsins sem miðar að því að hætta notkun "handheld hoes" fyrir árið 2025 - þeirra tími sé loksins liðinn.

Ljósmyndir: ÁG

Handheld hoe project/ AfricaUnionFoundation
Agricultural Mechanization and Agricultural Transformation/ Jica

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum