Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Gleðisnauð samfélög

https://youtu.be/oKhIrcKoQRI "Verkefni okkar í fylkinu er að aðstoða samfélög í sveitum, einkum samfélögin sem námavinnslan hefur hrakið af jörðum sínum. Við vinnum að mannréttindamálum, einkum kvenna, og sinnum málsvarnarstarfi í þágu þeirra. Við upplýsum skjólstæðinga okkar um lagalegan rétt sinn, meðal annars jarðarlög og lög sem tengjast umhverfisþáttum," segir María Cussaia framkvæmdastjóri samtaka kvenna í Tete-fylki sem bjóða fram lögfræðiaðstoð fyrir efnalítil samfélög, einkum konur. Samtökin hafa sinnt málefnum samfélaga sem hafa neyðst til að flytja búferlum eftir að mósambísk yfirvöld hafa veitt erlendum námafyrirtækjum leyfi til kolavinnslu á jörðum þeirra.

Tete-fylki er ríkt af kolum. Stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Rio Tinto, Riversdale og Vale hafa því fengið leyfi til kolavinnslu á þessum slóðum gegn því meðal annars að skapa brottreknum íbúum betri eða sambærilegar aðstæður á öðru svæði, 40 kílómetrum fjarri fyrri heimkynnum. Það hefur ekki gengið eftir nema að litlu leyti. Reist voru hús í hundraðatali en fyrirheit um búpening, atvinnu og margt annað hefur ekki verið efnt. 

Mörg húsanna sem byggð voru fyrir fáeinum árum standa nú auð og yfirgefin því eins og ein konan sagði: Hvað er hús án matar? Sú tilvitnun rataði sem fyrirsögn á skýrslu mannréttindasamtakanna Human Right Watch sem fjallaði fyrir fjórum árum ítarlega um aðstæður þessa fólks. Samtökin Oxfam hafa líka látið málefni þessa fólks til sín taka og birtu árið 2015 skýrslu um líf 736 fjölskyldna, tæplega 4000 einstaklinga, sem var komið fyrir hér á þessu hrjóstuga landi árið 2010. Vinnsluleyfin hafa gengið kaupum og sölum, Riversdale fékk leyfið fyrst, seldi það ári síðar til Rio Tinto, sem þremur árum síðar seldi það indversku námafyrirtæki, ICVL.

Fólkið var flutt hreppaflutningum frá frjósömum árbökkum Revuboe árinnar inn á þetta afskekkta gróðurlitla land þar sem ræktunarmöguleikar eru litlir, samgöngur nánast engar, enga atvinnu að hafa í nágrenninu - og fólkinu komið fyrir án þess að eiga í raun kost á að framfleyta sér og sínum. Aðstæðurnar hafa skapað gremju og þá er vægt til orða tekið; matarleysi, atvinnuleysi, nauðungarflutningar - allt þetta og fleira til hefur leitt til þess að fátæka fólkið sem hélt að auðævin í heimabyggð þeirra myndu skapa þeim betri framtíð hefur aukið á vansæld þeirra og örbirgð. Á síðustu misserum hefur reyndar verð á kolum hríðfallið og auðlindin ekki jafn ábatasöm fyrir mósambíska ríkið og vonir stóðu til. 

Á íbúafundi hér í Chirondizi er hiti í heimamönnum. Þeir hafa neitað að flytja sig og staðið í málaferlum við ríkið vegna námavinnslunnar í nágrenninu. Heilsuleysi og margvísleg óþægindi eru rakin til mengandi umhverfis frá vinnslusvæðinu. Dómstóll í Tete úrskurðaði fyrr á árinu um lokun á vinnslunni en indverska fyrirtækið sem rekur námuna hefur ekki hlítt úrskurðinum; kveðst þurfa tíma til að bregðast við dómnum. Fólkið í Chirondizi hefur líka unnið málið í Hæstarétti í Mapútó og hyggst fara áfram með málið fyrir alþjóðadómstóla. Þá íhuga þeir frekari aðgerðir.

"What is a House without Food?" Mozambique's Coal Mining Boom and Resettlements/ HRW
Resettlement conflicts follow Mozambique's mining boom/ IRIN
Mining, resettlement and lost livelihoods/ Oxfam

Court orders coal terminal of Indian group in Mozambique to be closed/ Macauhub

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum